Ættfræði: Um Jóelsætt, 9. þáttur

Guðmundur Kristmundsson, afi minn, var fæddur í Ásbjarnarnesi 23. mars árið 1890. Hann var getinn utan hjónabands, „framhjátökubarn“. Kristmundur, faðir hans, var þá kvæntur Helgu Ingibjörgu, fyrri konu sinni, og hún fæddi honum dóttur, Sigurlaugu Margréti, 27. september sama ár, og son, Guðmund, 16 mánuðum seinna, 15. janúar 1892.

Móðir afa, langamma mín, var Steinvör Ingibjörg Gísladóttir, f. 1867 í Vesturhópshólum en lést 1956, þá húsfreyja á Blönduósi. Hún var líka fædd utan hjónabands. Gísli, faðir hennar, var fæddur 1814 á Enni í Engihlíðarhreppi, sonur Gísla Gíslasonar, f. 1786 á sama bæ, og Ragnheiðar Vigfúsdóttur Thorarensen, f. 1790, systur Bjarna skálds (sjá Thorarensensætt, bls 916).

Gísli, langalangafi minn, var kvæntur Rósu Guðmundsdóttur, Vatnsenda-Rósu, en hún lést 1855, sextug að aldri, og eignaðist ekki börn. 12 árum eftir lát konu sinnar eignaðist Gísli langömmu með Arnfríði Jónasdóttur, f. 1834, vinnukonu í Vesturhópshólum.

Steinvör eignaðist Guðmund afa árið 1890, hún rúmlega 22 ára vinnustúlka en hann 36 ára giftur mektarbóndi. Ári seinna, 1891, giftist hún Þorleifi Kristmundssyni, Þorleifi jarlaskáldi, og eignaðist með honum 5 börn á árunum 1893-1901. Jarlaskáldið, verkamaður á Blönduósi, lést 1932, 24 árum á undan konu sinni. Mamma hefur ætíð talað mjög hlýlega um þessa ömmu sína, sem hún þó þekkti sáralítið og hitti sjaldan. Frá henni telur hún að rauði hárliturinn sé kominn í ættir vorar, þó hún minnist hennar reyndar aðallega með silfurgráa, síða fléttu. En langamma var skv. mömmu elsk að kveðskap, kunni ógrynni af vísum og föndraði líka sjálf við vísnagerð, sjálfsagt verið bráðhagmælt, þó helst mætti auðvitað ekki nota það orð um konur í þá tíð og lengi síðan. Líklegast kemur kveðskaparást mömmu beinustu leið frá henni.

Guðmundur afi fær umsögnina „[m]yndarlegur maður, dagfarsprúður og greindur vel.“ Hann náði í sætustu stelpuna á Ströndum, Róselíu Guðrúnu Sigurðardóttur, jafnöldru sína, elstu dóttur Sigurðar Stefánssonar bónda á Brúará í Kaldrananeshreppi, í Bjarnarfirði á Ströndum, og konu hans Sigríðar Jónsdóttur, bónda á Kaldbak, Bjarnasonar. Mamma hefur sagt mér að elsti bróðir ömmu hennar, Sigríðar (Pálsætt á Ströndum), hafi selt Sigurði systur sína fyrir bát, enda útræði helsta björgin á Ströndum. Sigríður var stolt kona með stórt hjarta og ósátt við sitt hlutskipti allt sitt líf, sem engum ætti að koma á óvart. Eignaðist þó 14 börn með Sigurði, sem var grjótharður nagli og sjómaður, m.a. á hákarlaskipum, þögull og tilfinningakaldur. „Ekkert vondur við mig, en afskiptalaus“, segir mamma. Hún var sem krakki hálfhrædd við hann. Að hennar vanda dregur hún þó jafnan úr, að þessu sögðu, og minnir á honum til varnar að hann hafi ekki lifað sældarlífi, alist upp á ótrúlegum hrakningi við erfiðar aðstæður, þær alverstu sem hugsast getur eiginlega. Hann var sem fullorðinn maður stinghaltur, eitthvað bæklaður á fæti eftir vosbúð. Hún minnist þess að sá gamli hafi hreytt ónotum í hana barnunga, kallað hana væluskjóðu. Það fyrirgaf mamma aldrei, enda átti hún þá hálfbágt, nýrifin frá mömmu sinni og send á ókunnugt heimili föður síns. Þá voru amman og afinn í heimsókn hjá dóttur sinni, Róselíu, og Guðmundi manni hennar í Þröm. Einu sinni sem oftar var mamma send til afa síns með kaffi á flösku í ullarsokki, þar sem hann stóð við slátt, en afhenti honum tóman sokkinn. Flaskan hafði runnið niður um gat á sokknum þar sem hún skoppaði um móann. Ekki gaf karlinn krakkanum hýrt auga þá. Hún fann þó flöskuna aftur og kom kaffinu til skila. Þessu gleymir mamma aldrei.

En þetta var útúrdúr. Róselía og Guðmundur afi eignuðust andvana son árið 1923 og Róselía eignaðist ekki annað barn eftir það. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að hún var sjálf ljósmóðir árum saman í Svínavatnshreppi og hjálpaði fjölda kvenna í barnsnauð. Hún var talin góð ljósmóðir, var smávaxin, eiginlega pínulítil, en hörkudugleg og setti ekki fyrir sig að fara til kvenna í hvaða veðri og aðstæðum sem var. Mamma minnist þessarar konu, sem hún kallar fóstru sína, með hlýju og virðingu. En hún var ekki mamma hennar og sýndi henni ekki þá hlýju og innileika sem barnið þarfnaðist, sem er kannski skiljanlegt í ljósi aðstæðna. Ástina og umhyggjuna fékk mamma hins vegar ósvikna frá pabba sínum, var mikil pabbastelpa, segir hún, og göslaðist með honum í rolluragi og silungsveiði á Auðkúluheiði og í Svínadalnum. En það er kannski líka til vitnis um stórlyndi Róselíu, að taka þetta stúlkubarn eiginmanns síns inn á heimilið, að barnið var dóttir Elínbjargar, yngri systur hennar, sem fædd var 1908. ,,Það mátti ekki nefna mömmu á nafn á heimilinu. Ég skynjaði það, þó ekkert væri sagt“, sagði mamma við mig. Þó ég hafi verið 8 ára þegar Róselía dó 1969, sá ég hana aldrei eða kynntist, en miðað við skaplyndi Elínbjargar ömmu minnar get ég rétt ímyndað mér stoltið og réttsýnina.

Guðmundur og Róselía bjuggu á Höllustöðum, í Þröm, Litla-Dal og síðast á Auðkúlu. Mamma hefur sagt mér að pabbi hennar hafi verið ánægðastur í Litla-Dal. Þangað komu þau frá örreytiskotinu Þröm lengst inni í Blöndudal, neðan Þramarhaugs sem blasir við af Kjalvegi, skömmu eftir að komið er upp á Auðkúluheiðina úr Blöndudalnum. Litli-Dalur var kostajörð í samanburði við Þröm og afi sá fyrir sér aukna hagsæld af búskapnum. Það varð honum reiðarslag að þurfa að fara þaðan þegar eigandi jarðarinnar tók hana, fyrirvaralítið og óvænt, sjálfur til ábúðar. Hann varð í framhaldinu að sætta sig við að hokra upp á hálfgerða náð og miskunn á Auðkúlu, hjá vinafólki sínu, hálfgerður hornkarl þar á jarðarþriðjungi með fé sitt til hliðar við annan búskap á jörðinni. Svo missti hann allt féð í niðurskurði skömmu seinna, og þar með bæði lífsbjörgina og lífslöngunina. Að auki var einkadóttirin farin að heiman. Þetta reyndist honum ofviða og hann fyrirfór sér þar heima 13. ágúst 1950, rúmlega sextugur að aldri. Róselía var fyrst eftir þetta ráðskona hjá góðvini afa en bjó síðan á Blönduósi og lifði mann sinn í 19 ár.

Þegar mamma kom að Þröm var hún 4 ára og sá pabba sinn í fyrsta skipti. Hún kom frá Hólmavík, þar sem mamma hennar bjó þá með Jóhannesi Jónssyni og syni þeirra, Inga Karli, sem síðar var lengi þýðandi og þulur hjá sjónvarpinu. Viðbrigðin að flytja úr timburhúsinu á Hólmavík, frá mömmu sinni 4 ára gömul, og á ókunnugt heimili í torfkofa með grasi vöxnu þaki, sem varla var greinanlegur í landslaginu, voru mikil.

Elínbjörg amma bjó ekki lengi með Jóhannesi, heldur flutti suður á land og gerðist ráðskona hjá ungum og efnilegum bónda á Skeiðunum, Brynjólfi Ketilssyni frá Álfsstöðum, bróður Óla Ket. bifreiðastjóra og sérleyfishafa á Laugarvatni. Amma og Binni rugluðu saman reitunum, bjuggu á Álfsstöðum, að Bjargi í Hrunamannahreppi, sem þá hét reyndar Bolafótur, að Læk í Flóa og Útey í Laugardal, en þaðan fluttu þau til Reykjavíkur þar sem Binni byggði þeim tvílyft einbýlishús að Njörvasundi 33. Amma eignaðist ekki fleiri börn em mömmu og Inga Karl. Hún lést 1986.

Þegar pabbi hennar dó var mamma tiltölulega nýfarin að heiman. Hún hafði fyrst farið til vinnu í Keflavík 17 ára gömul part úr ári, til Unnar fóstursystur sinnar og frænku (sem getið var í einum af fyrri þáttum). Seinna vann hún á Hótel Borg í Reykjavík og þaðan fór hún fyrst að Laugarvatni. Hún tók rútuna árið 1946 austur í sveitir, með Unni, til að heimsækja mömmu sína sem þá bjó í Útey. Þær fóru framhjá Úteyjarafleggjaranum af ókunnugleika og alla leið að Laugarvatni, gengu síðan þaðan að Útey, sem stendur gegnt þorpinu hinum megin við vatnið, meðfram vatnsbakkanum, óðu ár, læki og mýrarfen. Það var svo amma sem „rexaði í því“ að mamma færi í skóla og í framhaldinu var hún tvo vetur á Héraðsskólanum á Laugarvatni, 1946-1948. Það reyndist örlagarík skólaganga, hún hitti þar fyrir skólastjórasoninn, Þorkel Bjarnason, f. 1929 í Straumi í Garðahreppi, eignaðist með honum tvíburana Huldu Björk og Guðmund Birki í desember 1948 og í framhaldinu Bjarna 1954, Þorbjörgu 1956, Þorkel 1957, Hrein 1959 og Gylfa 1961.

Barnabörn hennar eru 18 og barnabarnabörnin 15, og vonandi á þeim eftir að fjölga. Svo fer að styttast í barnabarnabarnabarn.

Jóel Bergþórsson – BergþórHólmfríðurKristmundur Guðmundsson – GuðmundurRagnheiður EsterGuðmundur Birkir, Hulda Björk, Bjarni, Þorbjörg, Þorkell, Hreinn og Gylfi Þorkelsbörn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *