Af „eflingu landsbyggðarinnar“

Burtséð frá því hvað mönnum finnst um flutning mikilvægra ríkisstofnana frá höfuðborgarsvæðinu, þá geta allir verið sammála um það að ferlið, ef ferli skyldi kalla, við ákvörðun um flutning Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar er með öllu óboðleg stjórnsýsla.

Meiriháttar inngrip af þessu tagi í líf og velferð fjölda fjölskyldna hlýtur að krefjast vandaðs undirbúnings, samráðs og aðlögunar en ekki eins pennastriks í bakherbergjum og tilkynningar um lokaákvörðun á einum starfsmannafundi. Og alls ekki aulalegra tilsvara frá forsætisráðherra þjóðarinnar um að fólk geti alveg látið sér líða vel einhvers staðar annars staðar en það á heima.

Flestir eru held ég sammála því að æskilegt sé að umsvif ríkisins efli byggðir sem víðast um land með staðbundnum starfsstöðvum. Hefðbundnar slíkar stofnanir eru framhaldsskólar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir af ýmsu tagi, löggæsla o.fl. sem sinna sk. „nærþjónustu“. Slíkar stofnanir, sem gegna lykilhlutverki í daglegu lífi landsmanna á hverjum stað, hafa sætt niðurskurði áratugum saman. Sjúkrahús, heilsugæslur, lögreglustöðvar, sýslumannsembætti svo eitthvað sé nefnt, hafa verið sameinuð eða aflögð, með öllu eða að hluta, svo þjónustan stendur víða ekki undir nafni, þjónusta sem varðar daglegt líf hvers og eins og þarf af þeim sökum að vera í heimabyggð, við hendina. Undantekning frá þessu eru framhaldsskólar, sem hefur fjölgað mjög og víða um land og skipta sköpum hvað byggðaþróun varðar, ekki síður en hið augljósa: jafnari tækifæri til menntunar.

Á meðan t.d. sífellt fleiri landsmenn þurfa að „fara suður“ til að leita sér lækninga og gamalmenni eru flutt hreppaflutningum milli héraða vegna niðurskurðar og sparnaðar, þá er apparat eins og Fiskistofa rifið upp með rótum og flutt norður í land. Væri kannski nær að efla atvinnu og uppbyggingu utan stórreykjavíkursvæðisins á vegum ríkisins með því að halda úti sjálfsagðri grunnþjónustu á byggðum bólum hringinn í kringum landið, þannig að helst sé ekki meira en í mesta lagi klukkutíma akstur í bíl fyrir þá afskekktustu? Skilar það ekki til lengri tíma meiru og víðar, meira öryggi, fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum, hærri tekjum – meiri lífsgæðum?

Flutningur stofnana sem ekki varða daglegt líf sk. almennings í landinu með beinum hætti hlýtur að vera umhugsunarefni. Hverjir þurfa á þjónustu stofnunarinnar að halda? Hvernig er hægast fyrir þá að nálgast þjónustuna? Hvar og hvernig er ódýrast fyrir þá að sækja þjónustuna? Hvar er hagkvæmast að reka þjónustustofnunina? Og síðast en ekki síst: veitir hún sérhæfða eða almenna þjónustu?

Hvernig gagnast flutningur Fiskistofu svokallaðri landsbyggð? Jú, gott fyrir Akureyri og nágrenni að fá 40 góð störf. En hvað með aðra landshluta? Vestfirðinga, Hornfirðinga, Suðurnesjamenn? Þurfa þeir að koma sér fyrst til Reykjavíkur og þaðan norður í Eyjafjörð? Eða þarf kannski enginn að sækja Fiskistofu heim?

Það jákvæðasta í þessu máli er trúlega það að Framsóknarmenn og flugvallarvinir ættu að geta hætt að fjargviðrast út af staðsetningu miðstöðvar innanlandsflugs í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Það ætti ekki að skipta höfuðmáli hvar landsmenn millilenda til að ná flugi í þann landshluta þar sem þjónustunni sem þá vantar hefur verið plantað. Það eina sem þarf að tryggja eru góð upplýsingaskilti í flugstöðinni um ríkisstofnanir á hverjum áfangastað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *