Rauðan belg fyrir gráan

Það veldur nokkrum áhyggjum að rasismi skuli aðeins valda fjármálaráðherranum þrýstingi í hné. Í því samhengi er rétt að rifja upp aðra sögu af þrýstingi við hné.

Við uppgröft líkanna kom í ljós að í Njálsbrennu hafði Skarphéðinn aðeins brunnið upp að knjám. Allt annað var óbrunnið á honum, utan krossmörk á brjósti og milli herðablaða. Ætluðu menn að þau hefði hann brennt á sig sjálfur, e.t.v. til að biðjast fyrirgefningar og öðlast eilíft líf, enda orðinn kristinn maður, og þá hafi guð stöðvað brunann því hann er miskunnsamur og lætur fólk ekki brenna bæði þessa heims og annars, samkvæmt orðum hins (mis)vitra Njáls.

Bjarni Ben. reynir að ganga í smiðju Skarphéðins með glotti og kaldhæðnum tilsvörum um silfrað hár og rauðan klút, og verk í hné. Skarphéðinn talaði um að gjalda ‘rauðan belg fyrir gráan’, og þóttist meira að segja vera að fara í laxveiði þegar hann dró fram öxi sína, Rimmugýgi, fyrir vígaferli. Ekki var þá  þó um að ræða boðsferð á kostnað annarra, og skilur þar á milli þeirra Bjarna og Skarphéðins, auk hetjuskaparins.

Hvenær kemur að því að Bjarni, eins og Skarphéðinn, þurfi að láta af oflæti sínu og mikilmennsku, og biðjast auðmjúklega fyrirgefningar á orðum sínum og gjörðum, er óljóst. En þeir tímar munu koma.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *