Af heimilisstörfum

Dagurinn í gær, sunnudagurinn 26. ágúst, var ágætur. Á meðan konan bograði í berjamó uppi í Grafningi hafði ég það notalegt heima við, þó ég hafi svo sem líka haft ýmislegt fyrir stafni, og sumt af því hægara um að tala en í að komast. Um það vitna margar misheppnaðar vísur. Sannarlega er ekki þrautalaust að kvelja sig gegnum allar bækur – og blöðin, maður lifandi, þarf að segja meira? En svona var dagurinn minn í stórum dráttum – þar til ég fór að gæða mér á berjum!

Framá settist, mig fetti, þvó,
át frókost, þó lýsið skorti.
Blaði fletti, blettinn sló,
bók las, vísur orti.

Kunningi minn gerði athugasemdir við þessa framsetningu, sagði að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það auðvitað eftir honum, og raðaði upp sjálfsmynd af mér við heimilisstörfin:

Þjónar, stritar, sjaldan sér
sjálfum hampar maður.
Bónar, skúrar, aldrei er
argur, leiður, staður.

Ekki er samt loku fyrir það skotið að eftirfarandi mynd sé raunsærri en hin fyrri:

Staður, leiður, argur er,
aldrei skúrar, bónar.
Maður hampar sjálfum sér,
sjaldan stritar, þjónar.

Og fyrst ég er byrjaður er best að bæta við öðrum sléttuböndum, svona fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver
þrekið, veldur sjálfur.
Stjórnar drykkju, fráleitt fer
fullur eða hálfur.

Hálfur eða fullur fer,
fráleitt drykkju stjórnar.
Sjálfur veldur, þrekið þver,
þeigi sopa fórnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *