Af virðisrýrnun

Útgerðin og Mogginn eru sem betur fer óþreytandi í baráttu sinni gegn breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í frétt á mbl.is kemur fram að HB Grandi hafi tapað 1,5 milljónum evra á fyrri hluta ársins – en á sama tímabili og þessi mikli taprekstur skall á fyrirtækinu eins og brotsjór, jukust tekjur þess um 17 milljónir evra, segir í fréttinni.

Úlfar Þormóðsson tekur þetta til umfjöllunar í pistli á Smugunni og snýr auðvitað út úr öllu saman, eins og þeirra er siður sem ekki skilja hið rétta gangverk atvinnulífsins, og raunar samfélagsins alls.

Þó ég hafi útskrifast úr máladeild, og með falleinkunn í stærðfræði á stúdentsprófi, þá átta ég mig samt vel á því að þegar fyrirtæki eykur tekjur sínar um 17 milljónir á ákveðnu, afmörkuðu tímabili, þá tapar það í raun og veru einni og hálfri milljón. Þetta sjá allir, líka hinir innmúruðu ríkisstjórnarsnatar, þó þeir vilji auðvitað ekki viðurkenna það opinberlega.

Eins og útgerðarfyrirtækið bendir á, og Mogginn kemur samviskusamlega til skila, veldur hækkun á veiðigjaldi þvílíkri virðisrýrnun, að öll formerki fordjarfast, plús verður mínus og tekjuaukning bullandi tap.

Í stað þess að vera með útúrsnúninga og samsæriskenningar, eins og Úlfar í fyrrnefndum pistli, væri nær að taka á málinu af alvöru og festu. Nú verður lag á haustþinginu að gera það. Til þess er engum betur treystandi en þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hinum skeleggu varðmönnum lýðræðislegrar, snarprar og málefnalegrar umræðu, framkvæmda í stað langhundafunda: „Athafnir í stað orða“. „Minna mas, meiri framkvæmdir“ (eða var það kannski „flas“).

Einfaldasta leiðin væri að samþykkja viðauka við skattalögin um bætur til útgerðanna vegna þessa. Lögin gætu heitið Lög um virðisrýrnunarbætur, í samræmi við Lög um húsaleigubætur og Lög um barnabætur.

Virðisrýrnunarbæturnar mætti reikna út frá virðisrýrnunarprófum sem endurskoðendur útgerðarfyrirtækjanna myndu sjá um, endan kunnugastir bókhaldinu og ólíklegastir til að klúðra einföldum prósentureikningi. Niðurstöður virðisrýrnunarprófanna yrðu svo birtar í Morgunblaðinu hálfsmánaðarlega og teknar þaðan upp á Fréttablaðinu, á Bylgjunni, Útvarpi Sögu, AMX og þessum helstu hlutlausu fréttamiðlum.

Bæturnar væru uppsöfnuð virðisrýrnun og greiddar út t.d. ársfjórðungslega.

Með þessu móti væri hægt, í gegnum skattkerfið, að hlífa þeim fyrirtækjum landsins sem minnst mega sín, fyrir ofurskattastefnu stjórnvalda. Því allir vita að þó ríkisstjórnin gumi nú af því að hafa haldið hlífiskildi yfir þeim lægst launuðu og þeim þjóðfélagshópum sem eiga undir högg að sækja, þá hafa útgerðarfyrirtækin hingað til verið skilin eftir úti á köldum klaka.

Það er kominn tími til að breyta þessu og koma hér á raunverulegum jöfnuði í fyrirtækjarekstri. Til þess þarf sértækar aðgerðir fyrir útgerðarfyrirtæki – einkanlega stórútgerðir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *