Af „nýrri“ menntastefnu Samfylkingar

Skúli Helgason kynnir í Fréttablaðinu nú um helgina nýja menntastefnu Samfylkingarinnar, eina af afurðum landsfundar flokksins nýverið. Þó þær áherslur sem Skúli kynnir, og kallar „framsækna umbótastefnu í menntamálum“, geti vel verið nýjar og framsæknar fyrir Samfylkingarfélögum, þá eru þarna á ferðinni gamlir frasar – „nýja“ stefnan er sem sagt bara ódýr endursögn á þeim áherslum sem hafa farið hæst í samfélagsumræðunni undanfarna fjóra áratugi – og lesa má um í öllum lögum og námskrám á Íslandi frá 1970.

Það er þó jákvætt við þessa stefnumörkun Samfylkingarinnar, að ætla má að flokkurinn sé þá þar með kominn nokkurn veginn til nútímans í umræðu um þennan mikilvæga málaflokk.

En það er sjálfsagt til of mikils mælst að biðja um ögrandi framtíðarsýn eða nýjar lausnir?

Skúli byrjar á gömlu tuggunni um fjárframlög til menntmála og samanburð við OECD, stjórnarskrárbundinn rétt þegnanna til almennrar fræðslu og menntunar við sitt hæfi. Þá rifjar hann upp brottfallið úr skólakerfinu og nauðsyn þess að taka tillit til ólíkra þarfa og hæfileika nemenda. Hann gengur svo langt að fullyrða að vægi verklegs náms hafi verið of lítið!! og ályktar að það sé vafalaust einn aðalsökudólgurinn fyrir brottfallinu.

Hver hefur ekki heyrt þennan söng áður? Alveg milljón sinnum síðustu áratugi?

Og hverning skyldi eiga að leysa vandann, skv. hinni „nýju“ stefnu? Jú, „Samfylkingin vill skoða sérstaklega hvernig megi innleiða á jafnræðisgrunni árangursríkar leiðir til að þjóna nemendum með mismunandi þarfir…“

Skúla, og öðrum félögum í Samfylkingunni, til upplýsingar þá hefur þetta verið eitt helsta markmið íslenskra menntamálayfirvalda frá því lög nr. 12/1970 um menntaskóla voru samþykkt. Og nú ætlar Samfylkingin að fara að skoða þetta? Hefði ekki verið nær í „nýrri menntastefnu“ að boða lausnir, nýjar leiðir, í ljósi mistækrar reynslu af þeim leiðum sem farnar hafa verið að þessu markmiði hingað til? Eru fjörutíu ár ekki nógur tími til að láta sér detta eitthvað í hug? Nei, það er víst best að skoða þetta aðeins betur.

Næstu nýjungar Samfylkingarinnar, sem Skúli tínir til, eru að „auka samfellu leik-, grunn- og framhaldsskóla þannig að gæði og skilvirkni menntunar og skólakerfis verði sem mest“ og að „auka samstarf ríkis og sveitarfélaga um starfsemi framhaldsskólans“, meira að segja hvetur flokkurinn til þess að rætt verði um „kosti þess og galla að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaga“.

HALLÓ! Er enginn heima? Hefur Samfylkingin ekki kynnt sér þau lög sem í gildi eru? Hefur öll umræða um menntamál síðan fyrir 2000 farið algerlega framhjá flokksmönnum?

Samfella í námi einstaklinga, frá leikskóla og meira að segja alla leið upp í háskóla, er eitt af meginmarkmiðum núgildandi laga, ásamt sveigjanlegum eða fljótandi skilum milli skólastiga. Flutningur framhaldsskólans til sveitarfélaga hefur líka verið í umræðunni árum saman, mest fyrir tilstilli Samfylkingarinnar, grunar mig. Þetta er búið að vera svo lengi til umfjöllunar, að tími er kominn til að benda á raunhæfar leiðir, kynna nauðsynlegar aðgerðir til að koma þessum stefnumálum í framkvæmd, fyrst flokkurinn segist trúa á þau. En það eina sem boðið er upp á í nýju stefnunni er að fara að ræða málin og „greina vandlega alla kosti“. Það er auðvitað mikilvægt, hmm.

Nú kemst Skúli alveg á flug og kynnir til sögunnar „glænýjar hugmyndir“ um að minnka brottfall í framhaldsskólum. „Þar er grundvallaratriði að efla og styrkja starfsnám, m.a. með þróun styttri námsbrauta og auknu samstarfi skóla og atvinnulífs“, segir hann.

Þegar hér er komið lestrinum veit maður ekki almennilega hvort á heldur að hlæja eða gráta. Þessa málsgrein mætti taka nánast orðrétt upp úr hvaða framhaldsskólalögum, námsvísum eða aðalnámskrám framhaldsskóla frá því fyrst voru sett heildarlög um framhaldsskólastigið, með lögum nr. 57/1988, til nýjustu aðalnámskrárinnar frá því sl. vor. Að þessu markmiði hefur verið unnið sleitulaust hátt á þriðja áratug, og einmitt með þeim „nýju“ aðferðum sem Samfylkingin kynnir nú til sögunnar: að styrkja vek- og starfsnám, fjölga námsleiðum og þróa styttri námsbrautir í samstarfi við „aðila vinnumarkaðarins“. Kannski Samfylkingin láti sér detta í hug á næsta landsfundi að koma á svokölluðu framhaldsskólaprófi?

Það hefði kannski verið hægt að kalla það „framsækna umbótastefnu“ ef Samfylkingin hefði látið sér detta í hug eitthvað annað en menn hafa rembst við að gera, án sýnilegs árangurs, í þrjátíu ár?

Brottfall úr framhaldsskólum er samfélagslegt vandamál. Þær lausnir sem íslensk menntamálayfirvöld hafa hingað til boðið upp á hafa ekki virkað. Brottfallið minnkar ekki. Fjöldi nýrra, stuttra námsbrauta, með einhverjum gerviprófum sem gefa engin réttindi til neins, gera ekkert annað en í besta falli að fela vandann. Er t.d. nemandi sem hefur lokið tveggja ára „framhaldsskólaprófi “, þegar hann hrökklast út úr framhaldsskólakerfinu, eitthvað betur settur en án þess? Er e.t.v. aðalatriðið að með slíkt „próf“ upp á vasann hættir viðkomandi að vera „dropout“ í kerfinu?

Þetta kann sem sagt að vera leið til að lækka opinberar tölur um brottfall, markmið Samfylkingarinnar um 10%-in gætu jafnvel náðst? En hverju er samfélagið bættara? Og hverju er einstaklingurinn bættari? Mér sýnist að hvorugur aðilinn sé neinu bættari, viðkomandi er jafn illa staddur á vinnumarkaði, jafn réttindalaus -og jafn brottfallinn- hvort sem hans er getið í opinberum prósentutölum og OECD samanburði, eða ekki.

Ég nenni ekki að rekja lengra hina „nýju“ stefnu Samfylkingarinnar í menntamálum. Allt það sem fram kemur í grein Skúla, og ekki hefur verið rakið, er gamalkunnugt, endurtekið efni: Sameining/samstarf háskóla, efling samkeppnissjóða og „úrbætur á fyrirkomulagi námslána á Íslandi“.

Ég verð að viðurkenna vonbrigði mín eftir lestur greinarinnar. Ég gerði þau mistök að búast kannski við einhverju nýju í nýju menntastefnunni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *