Hvað ætlar þú að verða, væni?

Allir ættu að geta verið sammála því að eitt mikilvægasta hlutverk menntakerfisins sé að efla almenna menntun – að „mennta“ sem flesta einstaklinga sem mest. Þetta gæti á fínu máli heitið „að hækka menntunarstigið“. Trúlega hafa allir stjórnmálaflokkar markmið af þessu tagi á stefnuskrá sinni, enda talið víst að „góð almenn menntun sé lykillinn að velferð þjóðarinnar“ til lengri tíma litið.

Sá tími er löngu liðinn að samfélaginu dugi að láta einungis börn embættismanna og broddborgara lesa íslenskar fornbókmenntir, stærðfræði, ensku, þýsku -og auðvitað latínu- í tveimur eða þremur menntaskólum.

Nú þarf að hafa alla í skólum, eftir að skyldunámi lýkur, og helst sem lengst. Margt ber til þess. Í fyrsta lagi er enga vinnu að hafa og börn og unglingar hafa ekki lengur neinu hlutverki að gegna í atvinnulífinu, hvorki til sjávar né sveita. Í sveitum sjá tölvur nú um að mjólka kýrnar og einn maður getur hæglega séð um allan heyskapinn ofan úr risavöxnum traktórnum. Smalað er á fjórhjólum. Pólskir verkamenn sjá um að snyrta bæði ýsuflök og gulrófu, þ.e.a.s. ef tölvan gerir það ekki líka.

Í öðru lagi hafa orðið til margvísleg störf sem krefjast menntunar, eða a.m.k. töluveðrar sérhæfingar, sem hentugt er að hópmiðla í skólastofum, en hvorki Völuspá, Macbeth né algebra veita hentug svör við, svona á yfirborðinu. Í þriðja lagi eru hvorki mamma né pabbi heima, hvað þá heldur afi og amma, til að passa börnin og kenna þeim góða siði.

Við sendum því krakkana í skólann. Það þarf líka að hækka menntunarstig þjóðarinnar, ef við ætlum ekki „að dragast aftur úr þjóðum sem við viljum miða okkur við“ hvað lífskjör varðar. Þetta skilja allir, er það ekki öruggt?

Og við sendum krakkana okkar svikalaust í skólann. Um það bil 95% af hverjum árgangi innritar sig í framhaldsskóla við 16 ára aldur, þó hlutfallið fari hríðlækkandi úr því. Íslendingar hafa því gullin tækifæri til þess að „gera eitthvað úr“ nánast öllum unglingum og koma þeim rækilega til manns. Ef „minna verður úr“ einhverjum en vonir standa til eða æskilegt væri, eða ef alþjóðlegur samanburður er eitthvað óhagstæður, þá er ekki hægt að kenna því um að unglingarnir hunsi menntunarkerfið í stórum stíl, og dragist þess vegna aftur úr.

Nánast allir leita í hlýjuna, í faðm menntakerfisins.

En hvað gerist svo? Hvers vegna láta á milli 20 og 30 af hundraði ungmenna sig hverfa út úr musterum manndómsins?

Er það út af því að námsframboðið er ekki nógu fjölbreytilegt, að alls staðar er verið að kenna það sama? Nei, það er ekki ástæðan. Mýgrútur af mismunandi námsleiðum er í boði: styttri jafnt og lengri bók-, iðn-, verk-, starfs-, list- og sérnámsbrautir.

Er það út af því að kerfið er svo ósveigjanlegt, að allir verði að fara á sama hraða sömu leiðina, -að ekki verði aftur snúið eftir að lagt er af stað? Nei, það er ekki ástæðan. Hver og einn getur farið á eigin hraða, hætt á einni braut og byrjað á þeirri næstu, nánast hvenær sem hugurinn girnist. Einn getur lokið stúdentsprófi á þremur árum en annar verið að gaufast við það í áratug(i). Annar getur byrjað í trésmíði en útskrifast í vélsmíði, eftir að hafa hætt í miðju kafi til að vinna í sjoppu í tvö ár en byrjað svo aftur þar sem frá var horfið, eins og ekkert hafi í skorist. Sá þriðji getur byrjað í rafiðinum á Suðurnesjum en skipt yfir í bíliðnir í Borgó eða kjötiðnir í MK, bara ef hann langar til. Þeir sem hafa áhuga á hestamennsku eða afreksíþróttum geta svalað áhuga sínum í F.Su. Og þeir sem hafa smekk fyrir því, og nógu háar einkunnir, geta farið í einhvern „elítuskólanna“.

Íslenskir unglingar geta því fundið sér í skólakerfinu nánast allt sem hugurinn girnist. Þeir geta líka valið sér það umhverfi og skipulag sem þeim hentar best. Þeir geta valið stóran skóla eða lítinn. Þeir geta valið heimavistarskóla, heimangönguskóla, eða heimanakstursskóla. Þeir geta valið bekkjarkerfi eða áfangakerfi. Þeir geta valið sveit eða borg eða þorp. Allt þetta geta þeir valið, eftir því hvar áhuginn liggur og hvað hentar þeim sjálfum best.

Og þennan sveigjanleika, valfrelsi og fjölbreytileika getur örþjóðin Ísland boðið upp á. Það má heita rannsóknarefni hvernig 300 þúsund hræður geta, án þess að blikna, haldið úti svo flóknu og fjölþættu framhaldsskólakerfi sem við gerum.

Lausnin við brottfallsvandanum í íslenska framhaldsskólakerfinu felst ekki í því að auka enn meira fjölbreytni skólakerfisins, fjölga enn stuttum námsbrautum og gagnslausum gerviprófum, eða að einblína áfram á að „taka aukið tillit til mismunandi þarfa og hæfileika nemenda“. Við erum þegar komin nógu langt áleiðis á þessari braut, eftir að hafa fetað hana samviskusamlega í 40 ár: Framhaldsskólakerfið okkar ER bæði fjölbreytt og sveigjanlegt og tekur svikalaust tillit til mismunandi áhuga, þarfa, getu, hæfileika og óska nemenda. Skortur á þessu er ekki vandinn.

Nú er komið að því að einbeita sér að öðrum markmiðum.

Stjórnmálaflokkarnir ættu að ræða það innan sinna raða hvaða markmið þeir telji mikilvægust á þessum tímamótum, hvernig þeir telji raunsætt að ná markmiðunum – og kynna að því loknu stoltir fyrir kjósendum „nýja framsækna umbótastefnu í menntamálum“.

Framhald næst…

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *