Af rétthugsun

Undanfarið hefur eitthvert sprell í framhaldsskólakrökkum riðið húsum í fjölmiðlum, ekki síst Netmiðlum og í athugasemdakerfum bloggheima. Nú má ekki skilja mig svo að ég telji að „sprell“ eigi einungis að lúta eigin lögmálum, utan og ofan við siðgæði samfélagsins og hægt sé að afsaka hvað sem er með: „æi, þetta var nú bara sprell“, eða ámóta yfirlýsingum. En ég var samt orðinn hálf orðlaus yfir umræðunni.

Því hvenær hafa framhaldsskólanemendur hagað sér eins og ‘rétthugsuðir’ hvers tíma ætlast til? Skiptir þá engu máli hvort um er að ræða femíníska rétthugsuði nútímans, jafnréttisrétthugsuði, pólitíska- eða uppeldismálarétthugsuði. Þegar ég hugsa til baka geri ég mér alla vega grein fyrir því að margt hefði vissulega mátt betur fara í hegðun og framkomu minni og janfaldra minna, og sumt er sjálfsagt illa prenthæft. En flestir hlupu af sér hornin á tiltölulega stuttum tíma, með góðri hjálp samfélagsins, og lögðu af „óprenthæfa hegðun“ án þess þó að vera úthrópaðir, eftir því sem ég best man. Sem betur fer varð þó enginn alveg „gerilsneiddur“. En ríkti kannski meira umburðarlyndi í þá daga?

Nú á dögum er femínísk rétthugsun í tísku. Það þykir mjög fínt að segjast vera femínisti og ræða brúnaþungur um samsvarandi isma. Jafnvel heilu stjórnmálaflokkarnir taka þátt í þessu. Þó held ég að það sé síður en svo ljóst fyrir hvað allir þeir standa, sem skreyta sig með orðinu. Þrátt fyrir það eru þeir sem játa það ekki opinberlega, eins og á vakningarsamkomu hjá Hernum, að þeir sjái ljósið og séu sannfærðir femínistar, jafnharðan stimplaðir útsendarar andskotans: svörtustu karlrembur, kvennakúgarar, klámdólgar og gott ef ekki nauðgarar líka.

Ég verð að játa það hreinskilnislega að um leið og ég heyri eða sé orð sem enda á isti og ismi, þá fer ég allur í vörn. Þá líður mér eins og skollið sé á trúarbragðastríð. Og í því trúarbragðastríði er ekkert „einskismannsland“: „Ef þú ert ekki með mér í liði, þá ertu á móti mér“. Þannig er víst Ísland í dag.

Ég las um daginn eitthvað af skrifunum um þetta „sprell“ framhaldsskólakrakkanna. Í einum pistli var það, af heilagri vandlætingu, kallað „fávitavæðing“. Þó mér finnist vandlæting af þessu tagi fara langt yfir strikið, þá er ekki þar með sagt að ég sé sérstakur talsmaður sk. klámvæðingar. Ég er reyndar svo íhaldssamur og mikil tepra að mér þótti meira en nóg um fyrir 2-3 árum þegar það var aðaltíska meðal stúlkna á framhaldsskólaaldri að klæðast fötum sem voru þannig sniðin að það var mjó klæðisræma utan um mittið, en allsbert neðan við og að mestu leyti ofan við. Ekki gekk ég samt svo langt að mér dytti í hug að kalla þessar ungu stúlkur fávita. Margar þeirra auðvitað fluggáfaðar og þessi tímabundna tíska nú blessunarlega gengin yfir – í bili.

En allavega líkaði mér mun betur hófstilltari tónninn í Evu Hauksdóttur í helgardjevaffinu en háhelgislepjan á mörgu blogginu. Eva segist ekkert kæra sig um femínisma en vera jafnréttissinni. Samt er Eva Hauksdóttir kölluð „norn“ og hún er víða stimplaður „öfgamaður“. Er við hæfi að vísa í nornabrennur fyrri alda í þessu samhengi? Hvar liggja öfgarnar? „Ekki var ég rassgat hamingjusöm við skúringar eða saltfiskverkun en þó reyndi enginn að banna skúringar eða saltfisk til að „bjarga“ mér,“ segir Eva m.a. Þó maður eigi erfitt með að taka upp trú Evu á „hamingjusömu hóruna“, kannski vegna eintómra eigin fordóma, er þá ekki sannleikskorn í orðum hennar, þ.e.a.s. þessum um skúringarnar og saltfiskinn?

Í athugasemd með „fávitavæðingarpistlinum“ rakst ég á eftirfarandi tilvitnun, sem ég hef reyndar ekki gert neina sannfræðirannsókn á en finnst segja það sem segja þarf, burtséð frá heimildagildinu:

The youth of today love luxury; they have bad manners and contempt for authority; they show disrespect for elders and love chatter in place of exercise. Youth are now tyrants, not the servants of their households. They no longer rise when elders enter the room. They contradict their parents, chatter before company, gobble up food at the table, and tyrannize their teachers.“ Socrates, ca. 500 BC.

Auðvitað eru „þolmörkin“ mjög mismunandi hjá fólki, en ég hef það á tilfinningunni að um þessar mundir séu þau almennt lág og á flestum sviðum vaði uppi skaðlegur rétttrúnaðarismi. Það er kannski auðveldasta leiðin að ganga í rétttrúnaðarbjörg. En um leið er það einhver hættulegasti flóttinn frá siðuðu samfélagi, eins og dæmin sanna.

Vissulega var „sprell“ framhaldsskólanemanna siðferðilega „óviðeigandi“, sumir myndu segja „óprenthæf hegðun“. En viðbrögðin hafa líka farið út úr öllu korti, og ekki verið til þess fallin að leiða ungdóminn á hinar „réttu brautir“ hófsemi og umburðarlyndis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *