AI: „Assumed intelligence“

Birt á Facebook 15.11.2025

Af því ég hangi í flugstöðinni í Skopje og bíð eftir fari til Luton langar mig að segja stutta sögu, frekar en gera ekkert.

Þannig er, eins og fram hefur komið í mínu daglega „fjasi“, að ég hef undanfarna daga verið á ráð- og námstefnu um menntun í fangelsum. Ráðstefnan var metnaðarfull, vel skipulögð og um margt gagnleg, enda sátum við á fundum og pallborðum hvern dag frá 9-17, nema fyrir hádegi einn dag, þegar þeim sem vildu bauðst leiðsögn um miðbæinn í Skopje. Myndir úr þeirri göngu hefi eg birt hér á fjasinu.

Stjórn EPEA ákvað að halda ráðstefnuna, þá 19. í röðinni, að þessu sinni í Skopje í Norður-Makedóníu, mest til þess að ná tengslum á Balkanskagann, en þar er ástand fangelsismála og viðhorf til menntunar fanga nær miðöldum en því sem víða þekkist vestar og norðar í Evrópu, að sögn starfsmanna í fangelsum hér, sem reyna þó að gera sitt besta í baráttu við pólitíkusa og almenningsálit.

En það er önnur saga.

Síðasta erindið á ráðstefnunni, í morgun, fjallaði um möguleika notkunar gervigreindar við menntun fanga.

Það var ágætt erindi, þó ég fari ekki nánar út í það hér.

Svo ég spóli aðeins til baka, til að þjóna listrænum kröfum frásagnarinnar um endurlit, þá var mikil áhersla á óformlega menntun og aðferðir til að vekja áhuga og ná trausti, sem raunar er talið grundvöllur þess að nám fari fram: sem sagt erindi um tónlistarsköpun í fangelsum, söng, leik, spil, teikningu o.s.frv. Og síðast en ekki síst það sem kallað er á útlensku „Storytelling“ og við Íslendingar þykjumst vera fremstir allra þjóða í, þó við viljum reyndar ekki lengur kannast við Laxness né Íslendingasögurnar.

En það er önnur saga.

Daginn áður, í gær, hélt fróður maður sem sagt erindi um þetta „storytelling“ og taldi lykilatriði að vera ekki alltaf með þetta bölvaða powerpoint, með yfirþyrmandi magni af smáletruðum vísindum, heldur þyrfti eitthvað sem hann kallaði „hook“ og gæti þýðst sem „öngull“ eða „beita“, en er oftast vísað til sem „kveikju“ á íslensku.

Nú kem ég aftur að frásögninni þar sem frá var horfið.

Fyrirlesarinn um „áætlaða greind“ (gervigreind í almennu tali) bauð sem sagt upp á „hook“ eða kveikju í sínu erindi, varpaði upp á skjáinn ljósmyndum af teikningum af tveimur hausum og spurði salinn: „Þekkið þið þessa menn“? Einhverjir muldruðu að lokum: „Kólumbus“ … Enginn þekki hinn.

„Já, Kólumbus, og hinn er „Erik the red“, mennirnir sem fundu Ameríku“. Og svo smávegis um misvísandi upplýsingar, því auðvitað hefði Eiríkur rauði verið langt á undan, á 6. öld. Og sagnfræðilegar heimildir sem við trúum væru alltaf vafasamar, ekki síður en „AI“. Svo var erindið ágætt, þó ég muni reyndar ekkert af því, og spurningar í lokin. En þegar eg ætlaði að komast að var búið að loka mælendaskrá.

Nú þarf aftur að hverfa frá sögunni og inn í aðra sögu.

Þannig var að ég var eini Íslendingurinn á staðnum. Ég uni mér vel einn svo það kom ekki að sök. Fljótlega náði ég sambandi við Svía og svo Norðmenn. Ég gerði þau mistök, þegar þetta góða fólk talaði við mig á ensku, að svara á minni löskuðu sænsku og norsku og í framhaldinu skiptu þau yfir í málhraða innfæddra svo ég var meira og minna úti á túni í samræðum, en reyndi að „redda mér“ sem best að Íslendinga sið. Það tókst svo vel að þessir fjarfrændur mínir spurðu hvort landar mínir töluðu almennt svona góða sænsku og norsku? Ég svaraði því heldur fálega. Svo ræddi ég við fleira fólk á ensku, m.a. glæsilega, spænska gyðju, sem Tómas EPEA formaður dró mig til, því hún hafði beðið hann um að kynna sig fyrir mér. En ég bið ykkur fyrir þetta síðasta, því það má konan mín alls ekki frétta!

En það var sem sagt farið að læðast um meðal ráðstefnugesta, eins og mús um sinu, að „það væri Íslendingur hér“.

Nú aftur að meginsögunni.

Ég notaði sem sagt tækifærið við loka- og kveðjuathöfnina, þegar margir voru búnir að þakka fyrir allt og ekkert, til að biðja um orðið til þess að þakka fyrir mig og um leið að leiðrétta gervigreindina; sagði fólkinu upp og ofan af Eiríki rauða, Leifi heppna, Guðríði Þorbjarnardóttur og Snorra Þorfinnssyni.

Og mín kveikja í framsögunni var: „Eiríkur rauði fór aldrei til Ameríku“.

Þögn sló á salinn og ég náði fullri athygli. Þegar allt var yfirstaðið og fólk stóð upp til að yfirgefa salinn vatt sér að mér Gabriela hin þýska, sem hafði daginn áður staðið fyrir söng og hreyfilist meðal þátttakenda, og ávarpaði mig svo:

„Já, ert þú Íslendingurinn“?

Skildu eftir svar