Er Gunnar Þórðarson ekki nógu fínn fyrir elítuna?

Það var loksins gott efni í sjónvarpinu, þegar sýndir voru tveir heimildaþættir um Gunnar Þórðarson.
 
Flestir hafa áttað sig á snilli hans í gegn um langa, fjölbreytta og farsæla tónlistarsögu.
Það sem hreyfði þó hvað mest við mér var upprifjunin á því hvernig hann var með öllu hunsaður af tónlistarelítunni, óskólagenginn og sjálfmenntaður snillingur, þegar hún neitaði að taka óperuna Ragnheiði til sýninga, svo hann varð að sjá um og standa straum af því sjálfur að setja hana á svið í Skálholti.
 
Var hann ekki nógu „menntaður“ og fínn fyrir Íslensku óperuna og hina klassísku háelítu?
 
Ekki þori ég að fullyrða um þetta, óskólagenginn með öllu í tónlistarfræðum, eða hinar raunverulegu ástæður þessarar höfnunar, en vangaveltur í þessa átt frá þeim tíma rifjuðust þó upp við áhorfið.
 
Hvað sem öðru líður er Gunnar Þórðarson án alls vafa í allra fremstu röð íslenskra listamanna – og mun nafn hans uppi meðan landið er byggt og margir langskólaklassíkerar löngu gleymdir.

Að kunna ekki að bíta gras

„ … hví ættum vér, sem erum heil þjóð, að horfa í kostnað af fyrirtæki sem eflir fegurðarskyn vort og hefur oss til æðra lífs; alt sem horfir til menníngarauka fyrir þjóðina er ódýrt, hvort sem það kostar mikið eða lítið. Ég veit þeir menn eru til sem fortelja okkur að það sé ódýrast og hagkvæmast að lifa eins og skynlaus skepna og hafa aungva tónlist og aungva leiklist, þeir telja að sá einn ljóður sé á ráði mannkynsins að það kunni ekki að bíta gras.“

(HKL. 1955. Ræða á listamannaþíngi 1950. Dagur í senn (bls. 12). Helgafell, Rvk).

Tilefni ummæla: opnun þjóðleikhúss og stofnun sinfónískrar hljómsveitar.

Fátæk þjóð

Fátæk þjóð 1944 – og 2024

Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á  nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins.

En rifjum upp úr grein HKL:

„„Við íslendíngar erum fátæk þjóð“ – dögum oftar má lesa þessi vísdómsorð í blöðunum og í samtölum eru þau endurtekin einsog viðlag við flestar niðurstöður: hvað sem öðru líður erum við fátæk þjóð. Allur okkar ómyndarskapur er afsakaður með þessu töfraorði – ef við gaungum með göt á sokkunum, eða vantar á okkur tölurnar, eða við böðum okkur ekki, ég tala nú ekki um ef við erum lúsugir, þá er það alt af því við erum fátæk þjóð. Við rísum ekki undir því að kaupa vatn og sápu.

Einum okkar ágætu listamanna varð tíðrætt um það í blaði um daginn hve raunalegt væri að jafn listelsk þjóð skyldi vera svo fátæk að geta ekki bygt sér listasafn. En um leið gat hann ekki stilt sig um að láta í ljós undrun á því að þessi fátæka þjóð skyldi þó hafa efni á að reka fimm voldugar makarínverksmiðjur […].

Fyrir nokkrum árum bauðst einn af bestu listamönnum Íslands, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari, til að gefa landinu listaverk eftir sig til skreytíngar á bænum. […] En þessi opinberi aðili treysti sér ekki til að taka boðinu af því það þurfti að kosta umbúðir um listaverkin og borga undir þau flutníngskostnað til landsins: Sumsé við erum fátæk þjóð. […] Ásmundur Sveinsson, þessi göfugi hámentaði listamaður, bauðst einu sinni til að vinna í samráði við bæarfélagið að skreytíngu bæarins með myndlist; tilboði hans var ekki ansað; við íslendíngar erum fátæk þjóð […]

Einar Jónsson er geymdur í Hnitbjörgum einsog niðursuða. Hann er einn af faungum þjóðfélagsins. […] Við erum fátæk þjóð. Sem sagt fimm makarínverksmiðjur.

Nú skulum við að gamni líta um hæl, því þessi fátæka þjóð á sér sögu. Eftilvill er það merkilegast í allri sögu vorri að þrátt fyrir hina margumræddu fátækt höfum við aldrei lifað það tímabil að þessi fámenni hópur manna hér, íslendíngar, hafi ekki staðið undir fleiri auðkýfíngum en nokkur þektur hópur annarstaðar í heiminum jafnstór. Í miðaldamyrkrinu á 10du öld þegar húngursneyðir eymd og stríð ríkti í Evrópu, og mannát var þar að minstakosti eins algeingt og styrjuhrognaát er nú, stóð ótrúlega mikill auður saman á Íslandi, efamál hvort nokkur Evrópuþjóð hefur búið við betri lífskjör þá en hinir fátæku íslendíngar. Við vorum svo ríkir að við tókum við kristindómnum af einskæru snobberíi árið þúsund. En jafnvel á þeim öldum laungu seinna þegar þjóðin lifði við mesta neyð, og þúsund manna horfellir á ári hjá okkur þótti varla saga til næsta bæar, stóðum við undir fjölda auðkýfínga, útlendínga sem áttu hlut að Íslandsversluninni. Auðugustu menn ýmsir í Danmörku á 17du og 18du öld, greifar biskupar borgarstjórar og hefðarfrúr, höfðu grætt fé sitt á íslendíngum; þar voru þeirra tíma miljónamæríngar okkar. Við vitum nöfn þessara manna og sögu. Fyrir tvöhundruð árum til dæmis áttum við varla snæri í snöru til að heingja okkur þó nauðsyn bæri til, oft ekki spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, og verkfæri okkar voru af því tagi að útlendir menn ráku upp stór augu og hlógu þegar þeir sáu okkur vinna, eins og amrikumenn gera nú á dögum þegar þeir sjá okkur puða með skóflum í vegavinnu – en alt um það, á þessum tímum áttum við okkar fimm makarínfabrikkur, okkar miljónamærínga, alveg eins og nú: hörmángara, almenna verslunarfélagið, kónginn, compagniet eða hvað þessi ræníngjafélög hétu. Þeir reyttu saman alveg ótrúlegan auð af íslendíngum. Stórhýsi Kaupmannahafnar voru reist fyrir þann arð sem rænt var af íslendíngum. […]

Nei, þessi fátæka þjóð hefur frá upphafi vega staðið undir ótrúlega miklum auði. Hvergi á bygðu bóli moka jafnfáar hræður saman jafnmiklu fé. Árið 1942 flytjum við út fisk […] sem svarar sex tonnum fisks á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Við rekum meiri utanríkisverslun á mannsbarn en nokkur önnur þjóð. Við höfum að vísu ekki her, en við stöndum undir ákaflega dýru stjórnkerfi, dýrara en nokkrar aðrar hundraðþúsund sálir á jörðinni. […] Áþreifanlegasta dæmið um auðlegð vora er þó það enn í dag, ekki síður en á dögum hörmángara, að óvíða munu á jörðinni finnast svo fáar mannhræður í þjóðarlíki standa undir jafnmörgum miljónamæríngum og íslendíngar.

Sannleikurinn er sá að vísdómsorðin um íslendínga sem fátæka þjóð í efnalegu tilliti eru þrugl sem menn japla hugsunarlaust hver eftir öðrum, af því einhverjum ræníngjum fyr á öldum hefur þóknast að telja okkur trú um þetta þegar þeir voru búnir að rýa okkur inn að skyrtunni. Við búum og höfum einlægt búið í miðri einhverri mestu gullnámu heimsins, á fiskisælustu miðum Atlantshafs. […]

(1944)“

(HKL. 1980. „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Sjálfsagðir hlutir (bls. 204-210). Helgafell, Rvk.)

Af menningarnámi, rasisma og kvenfyrirlitningu

Margt er miður fallegt í menningarsögunni. Nýlendukúgun, arðrán, þjóðarmorð, þrældómur, kynhneigðarkúgun, lista- og menningarrán. O.s.frv. Grundvöllur velsældar „hins vestræna heims“ er ekki falleg saga. 

Nú er mjög til umræðu hvað má og hvað má ekki. Gamlar „barnagælur“ eru bannaðar vegna rasisma í orðfæri og viðhorfum til blökkumanna. Gömul málverk í stofnunum mega ekki lengur hanga þar á veggjum því þær minna á aldalanga kúgun og hlutgervingu kvenna. Ófatlaður maður má ekki leika fatlaðan á sviði Þjóðleikhússins af því það er niðurlægjandi og dæmigert fyrir jaðarsetningu og útskúfun fatlaðra. Ekki má dubba fólk af hinum hvíta kynstofni upp í asískt gervi í óperu sem gerast á í Japan, því það er menningarnám, niðurlægjandi tákn um ofríki og menningarlega nauðgun hins vestræna heims. Deilt er um hvort breyta megi bókmenntaverkum fyrri tíma til að þau falli að smekk nútímans – að „rétthugsun“ hins upplýsta og frjálslynda nútímamanns, þar sem ekkert ER lengur, enginn sameiginlegur grundvöllur að standa á, heldur einungis þær tilfinningar og „upplifanir“ sem hrærast innan þess sólkerfis sem hver og einn einstaklingur er. Kynin eru ekki lengur tvö heldur jafnmörg þeim lífverum sem teljast til tegundarinnar homo sapiens. 

Við hjónin fórum á sýningu Íslensku óperunnar, Madama Butterfly e. Puccini. Sýningin komst í fréttirnar þegar hljóðfæraleikari í Synfóníunni kvartaði undan því menningarnámi sem felst í því að hvítir voru farðaðir sem asískir. Þátttakandi í sýningunni „kom fram“ og lýsti óhugnaði sínum yfir því að hafa tekið þátt í þessari aðför að japanskri menningu og lýsti því yfir að hann myndi ekki taka þátt í þessu framar – þ.e. að láta farða sig. Fólk skiptist óðar í tvær fylkingar um þetta málefni. 

Sýningin var ljómandi. Söngurinn var framúrskarandi, svona eins og vit mitt gagnast til að dæma um það. Hye-Youn Lee söng aðalhlutverkið og heillaði óperugesti. Stórkostleg söngkona. Sjálfsagt er það heppilegt í ljósi umræðunnar að hún er einmitt japönsk sjálf. Arnheiði Eiríksdóttur, sem syngur líka afbragðsvel, þurfti hins vegar að farða og klæða í japanska þjónustu, og fleiri lentu í þeim menningarfasisma. Egill Árni Pálsson söng hitt aðalhlutverkið og þessi gamli nemandi minn úr Reykholtsskóla gerði það listavel. Og allir söngarvar stóðu sig vel, þannig að tónlistin naut sín og hreyfði við áheyrendum, jafnvel gömlum þverhaus eins og undirrituðum.

Ekki verður því neitað að sagan í óperunni er alveg dæmigerð óperusaga fyrri tíðar. Þetta er hefðbundin karlrembusaga; konan er saklaust og viðkvæmt blóm, í erfiðri félagslegri og efnahagslegri stöðu, sem er „bjargað“ af forríkum karli, sem svíkur hana auðvitað við fyrsta tækifæri, og hún, með öllu ósjálfbjarga þegar karlsins nýtur ekki við, drepur sig í örvæntingu ástarsorgar í lok leiksins. Um þetta eru nánast allar klassískar óperur.

Og sagan endurspeglar líka ofríki hins vestræna, hvíta heims. Bandaríska herveldið veður yfir japanska þjóð. Hvítur herforingi veður yfir japönsku kvenþjóðina. Forríkur, hvítur, miðaldra karl veður yfir fátæka alþýðu.

Það er margt ógeðfellt í þessari sögu, sem „gerist snemma á síðustu öld“ eins og óperustjórinn skrifar í aðfararorðum sýningarskrár. Þar segir Steinunn Ragnardóttir líka að umfjöllunarefnið sé „tímalaust því tilfinningar okkar breytast ekki og mennskan verður alltaf söm við sig“ og að óperan fjalli „um ódauðlega ást og vonina sem veitir tilgang í ömurlegum aðstæðum.“ Vonin sé „eitt sterkasta aflið sem við eigum og svo lengi sem hún lifir getum við umborið næstum allt.“

Það stakk mig ekki að hvítir leikarar og söngvarar hafi verið farðaðir og dubbaðir upp í japönsk klæði. Það er einmitt það sem leikarar gera; þeir setja sig í gervi annarra, „leika“. Þess vegna köllum við svona gjörning „leikrit“. Og ekkert við það að athuga.

Hins vegar gætu alvöru baráttumenn fyrir frelsi, jafnrétti og efnahagslegum jöfnuði hafið upp raust sína með fullum rétti. Því ef  sagan sem óperan segir er dæmi um þær tilfinningar og þá mennsku sem við viljum að verði alltaf söm við sig, lýsi þeirri ást sem við viljum að sé ódauðleg og þá von sem við viljum bera í brjósti til að umbera næstum allt – ja, þá er illa komið fyrir mannkyninu. Viljum við að konur séu valdalausar gólfmottur fyrir ríka karla? Viljum við að eina von fólks í „fjarlægum“ heimsálfum sé að forríkur karl úr velsældarheimi bjargi því úr tilgangsleysi og vonleysi eigin lífs og menningar? Viljum við að hugmyndin um hina sönnu, ódauðlegu ást byggist á því að konan sé undirlægja, sem á hvorki framtíð né von án karls? Forríks auðvitað.

Mín tillaga er að Íslenska óperan hætti að birta þýðingar á texta verkanna á sjónvarpsskjám í salnum. Þá gæti fólk notið tónlistarinnar og söngsins, óvitandi um og ótruflað af allri þessari kvenfyrirlitningu, nýlendufasisma, kúgun og menningarnámi sem frásögnin er uppfull af og er matreidd ofan í það á skjáum. 

Fyrir utan það hve mikill endemis leirburður textinn er.

Vaktmaður betra lífs

Tveir góðkunningjar mínir gáfu út ljóðabækur í haust, Jón Hjartarson og Pétur Önundur Andrésson. Um þær hefur verið heldur hljótt, enda ekki náð eyrum þeirrar elítu sem stjórnar bókmenntaumfjöllun í þessu landi og talar við sjálfa sig á víxl í fjölmiðlum. Þær eru þó þess verðar að séu lesnar, og hafðar á náttborðum til að grípa í í framhaldinu.

Pétur Önundur er ódeigt ljóðskáld og gefur sínar bækur út sjálfur. „Þögn vatnsins“ er að því er næst verður komist níunda ljóðabók hans. Pétur yrkir aðgengileg ljóð á skiljanlegu máli, en rembist ekki við að vera torræður og myrkur. Það er ró yfir einföldu ljóðmálinu, sem leiðir lesandann í djúpa dali hugans, þar sem friðsæld ríkir og einlægni.

Náttúran skipar stóran sess í þessari bók, landið, gróðurinn, dýralífið, og fléttast saman við minningar höfundarins.

„Vorkoma

sumarbyrjun

marka líf þitt

eins og lítið lamb

svo þú þekkir

upp frá því

hamingjuna

á litnum“

 

Ljóðin eru hápólitísk en hvergi að finna boðunartón, stríðsrekstur, jafnt úti í hinum stóra heimi sem gegn náttúrunni, er afgreiddur með sömu stóisku rónni og bernskuminningar.

„Greiddu hár þitt

kolsvarta tíð

fléttaðu í það vor

gróandann

fangaðu ilminn

megnan af lífi og ást

greiddu gangstíg draumsins

vaktmaður betra lífs“

 

og

 

„Múr sem féll

reistur af

hugsjónamönnum

harðstjórum sjálfshyggjunnar

hruninn vegna smitandi isma

draumum auðsins

gamlir garðar sögunnar

réttlæta ekki nýja“

 

Öll hugsun og boðskapur Péturs rennur fram í þungum straumi en án boðafalla. Hann yrkir

 

„fyrir venjulegt fólk

lesið syngið elskið

mætist á miðri leið

og hlustið“

 

Það er hægt að ferðast um þessa bók í einum áfanga án þess að hnjóta í úfnu orðahrauni. En þangað er líka hægt að fara aftur og aftur og nesta sig í friðsælum lautum.

 

Segja má að Pétur Önundur sé sannkallaður „vaktmaður betra lífs“.

 

 

Lifað með landi og sjó

This image has an empty alt attribute; its file name is Jon-Hj.-883x1024.jpg

Eins og nafnið bendir til, „Lifað með landi og sjó“, er bók Jóns Hjartarsonar óður til náttúrunnar. Hún fjallar um heimahaga höfundarins, Strandir æskunnar og fullorðinsár „milli sanda“. Ljóðin einkennast af næmri tilfinningu fyrir undrum náttúrunnar og umhyggju fyrir

„sögunni,

menningunni,

tungunni

og landinu.

 

Vættir

lands og þjóðar,

varðveita

fjöreggið,

augastein þjóðar,

og gæta þess

að það brotni ekki.“

(14)

 

Það er samhengi í öllu lífi jarðar en auðfundið á lestrinum að endalok nálgast:

 

„Ef ræturnar rofna

fýkur umhyggjan

út í veður og vind.“

(48)

 

„Einn morgunn

stendur amma

á miðju gólfi

og virðir fyrir sér

auðan stólinn.“

(42)

 

Jón er hápólitískur í sínum kveðskap. Þar er undirliggjandi kvíði fyrir framtíðinni og yfirvofandi endalokum:

 

„Bergbúinn

stendur vaktina,

undir svörtu hamrastálinu,

brúnaþungur

og langþreyttur

á daufingjahætti

landans.“

(25)

 

„Manneskjurnar

skríða í holur sínar,

bíða af sér storminn.

 

Of seint að iðrast.“

(23)

 

En þrátt fyrir váboðana, sem alls staðar eru sýnilegir í náttúrunni, er von, því vorvindurinn

 

„afísar mýrina

kveikir líf

í veikburða frjóöngum

stararinnar

á nýju vori.“

 
Þetta er fyrsta ljóðabók Jóns, sem skrifað hefur nokkrar bækur, flestar sögulegar. „Lifað með landi og sjó“ endurspeglar næman skilning á stóra samhengi lífs á Jörðinni, sem allt sprettur af sömu rótinni: Náttúran, sagan, menningin, landið.

 

 

 

Sannkallað gúmelaði

Bergsveinn Birgisson og Þormóður Torfason fylgdu mér í gegn um jólahátíðina. Það verður að segjast að þeir voru góðir fylgdarmenn. Bergsveinn skrifar góðan texta og saga Þormóðar er forvitnileg, svo ekki sé meira sagt. Þormóður mun hafa verið nánast þagaður í hel af seinni tíma mönnum, sem héldu á móti Árna Magnússyni vel og skilmerkilega á lofti.

Ekki eru til ítarlegar heimildir um alla þætti í sögu Þormóðar og leyfir Bergsveinn sér að skálda í eyðurnar, m.a. samtöl og líklega atburðarás þegar þannig stendur á. Þeim innleggjum sínum gerir höfundur skilmerkilega grein fyrir.

Hvað sem öðru líður eru heimildir nægar til að halda því fram að Þormóður var frumkvöðull í handritarannsóknum og söfnun. Hann er nefndur í framhjáhlaupi í bókmenntasögu, sem hálfgerður svikari við málstaðinn, sennilega af því hann vann fyrir erlent konungsvald, sem ekki var upp á pallborðið á tímum þjóðernisrómantíkur.

En þetta er sem sagt sannkallað gúmelaði.

Bærinn brennur – og sagan rennur

Bærinn brennur

Síðasta aftakan á Íslandi

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir

JPV útgáfa, Reykjavík 2021

 

Bærinn brennur fjallar um Illugastaðamorðin 1828 og afleiðingar þeirra, þar sem í brennidepli eru síðustu aftökurnar á Íslandi. Þetta er sagnfræðilegt rit, þar sem unnið er upp úr mörgum og mis–jöfnum tiltækum heimildum. Höfundur rekur skilmerkilega traustustu heimildina, dómsskjölin sem öll liggja fyrir með lýsingum sakborninga og vitna á atburðum og ástæðum þeirra. Einnig rekur höfundur ítarlega frásagnir „sagnamanna“ af þessum atburðum, ber þær saman og sagnirnar við fyrirliggjandi staðreyndir úr dómsskjölum. 

Bókin er skrifuð í minningu Eggerts Þórs Bernharðssonar, sem lést 2014, og tileinkuð honum. Eggert var eiginmaður Þórunnar Jörlu. Hann var líka afkomandi Guðmundar Ketilssonar, bróðurThis image has an empty alt attribute; its file name is Baerinn-brennur-2-864x1024.jpg Natans þess er myrtur var á Illugastöðum, ásamt Fjárdráps-Pétri, sem staddur var óforvarindis á bænum þessa örlagaríku nótt í janúar 1828.

Bókin „var skrifuð til að koma tryggari heimildum á framfæri og leiðrétta það sem hægt var í frásögn sagnamanna“ (324). Eggert hafði unnið að því alllengi fyrir andlát sitt að safna heimildum um þennan atburð, því honum sveið, skv. höfundi, að sitja undir sögusögnum um að Guðmundur Ketilsson, forfaðir hans, hafi af hefndarþorsta tekið að sér hlutverk böðuls er morðinginn Friðrik Sigurðarson, og samverkakona hans, Agnes Magnúsdóttir, voru hálshöggvin á Þrístöpum 1830. 

Það verður að segja það eins og það er að eftir lestur þennan er maður mun upplýstari um atburði en verið hafði. Hér er sagan skilmerkilega rakin upp úr marktækum heimildum, en jafnframt varpað ljósi á það hvernig munnmæli og frásagnarlistin skapa sinn eigin veruleika. „Hryllingurinn smaug inn í hug alþýðu, sögur fóru á kreik og komust í bækur“ (307). Helstu skriflegar heimildir, fyrir utan dómskjöl, eru frá Tómasi Guðmundssyni í Miðhópi, Brynjólfi Jónssyni á Minna-Núpi, Gísla Konráðssyni og Espólín. Frásagnir þeirra eru að sumu leyti samhljóma, jafnvel byggðar hver á annarri, en stangast á í öðru, eins og slíkra frásagna er siður. Þá er og að minnast á sögu Hönnuh Kent, Náðarstund, sem ég las fyrir nokkrum árum, og kvikmynd Egils Eðvarðssonar, Agnes, frá1995, sem kannski hafa haft mest áhrif á hugmyndir almennings í nútíma um þessa hörmungarviðburði.

Ekki verður efni bókarinnar rakið hér, best er að hver lesi hana fyrir sig, það er þess virði. Þó er rétt að segja að það kemur þeim er hér skrifar nokkuð á óvart að uppgötva það hve mikill óþverri Friðrik Sigurðarson í Katadal hefur verið. Siðblindur þjófur, dýraníðingur, lygalaupur – og morðingi. Því er það merkilegt að tekist hafi að gera úr honum nokkurskonar píslarvott og hetju. Það er vel rakið í bókinni hvernig Jóhann Tómasson, og fleiri prestar sem umsorguðu Friðrik á Þingeyrum fyrir aftökuna, gerðu í því, í anda trúfræði þess tíma, að sannfæra alla um kristilega umbót sakamannsins; það var lykilatriði frá guðfræðilegu sjónarhorni að hann hafi sanniðrast gjörða sinna og beygt sig undir náð guðs og falið sig honum á vald. Ekki færri en þrír prestar höfðu þann starfa að snúast í kringum Friðrik síðustu vikurnar til að hugga illmennið, sannfæra það um guðlega forsjón og veita náðarmeðulin. Nákvæmar lýsingar eru og í öllum þessum ritum á ferð hans að aftökustaðnum, hegðun hans þar og hetjulegum viðbrögðum síðustu andartökin. Þetta allt er í upphöfnum helgisagnastíl og stangast að einhverju leyti á við traustari heimildir, t.d. í bréfum Blöndals sýslumanns á Hvammi í Vatnsdal sem var rannsakandi og dómari í málinu.

Agnes, aftur á móti, er afgreidd hjá sagnameisturum í stuttu máli. Hún hitti einn prest, ungan og óreyndan aðstoðarprest sem hún bað um sjálf, daginn fyrir aftökuna. Lítið er gert úr henni og engar helgimyndir upp dregnar, sambærilegar og af Friðriki. Hún er geymd afsíðis meðan hausinn er hogginn af honum, sögð dauðadrukkin og hálfrænulaus, og hafi beðið um að þessu yrði lokið af í snarhasti.

Natan Ketilsson hefur verið hrokafullur spjátrungur. Ekki leikur vafi á því að hann beitti Sigríði Guð-mundsdóttur, nýfermdri vinnustúlku, kynferðislegu ofbeldi í nafni „húsbóndaréttar“ skv. húsagatilskipun þessara tíma, og sennilega Agnesi líka – húsbóndinn átti og mátti og réði öllu á heimilinu, þannig að vinnufólkið varð að hlýða því sem hann sagði. Og eiginkonan. Og börnin. Samband Natans og Agnesar er þó að öllum líkindum flóknara og þar tengist Vatnsenda-Rósa inn í atburðarásina.

Fólk var fátækt á þessum tíma og þjófnaðir til að hafa í sig og á ekki óalgengir. Skv. heimildum var ástandið hvað þetta varðar talið hvað verst í Húnavatnssýslum. Því er ekki með öllu óskiljanlegt að fátækt og langsoltið fólk hafi stolið einu og einu lambi eða sauði, hirt lambshræ í úthögum sér til matar o.s.frv.

En lýsingarnar á framferði Friðriks fara út fyrir þau mörk sem afsaka má þannig. Sigríður og Agnes eiga sér þær málsbætur að Natan hafi farið illa með þær bæði líkamlega og tilfinningalega, hann „skammaði“ þær, þ.e. dró yfir þær skömm. Beitti þær kynferðislegu ofbeldi sem sagt. Þessi þrjú, Friðrik, Agnes og Sigríður, ásamt sauðamanninum Daníel, kjöftuðu sig saman upp í að myrða Natan. Vitandi, og mjög hvetjandi, var Þorbjörg, móðir Friðriks, og Sigurður faðir hans einnig vitorðsmaður þó ekki væri sérstakur hvatamaður að því að gera son sinn að morðingja eins og móðirin. Fjárdráps-Pétur er varla nefndur í alþýðusögnum, hann þótti ekki nógu merkilegt fórnarlamb til að hafa með í sganaminninu. Tvö kaldrifjuð morð voru framin með hamri og sveðju, og að lokum eldi, en læknirinn og hómópatinn Natan aðeins þess verður að komast í alþýðusagnir og bækur sagnamanna.

Öll þessi hlutu refsingu. Friðrik, Agnes og Sigríður öll dæmd til dauða af Blöndal. Sigríður hlaut þó náð frá öxinni en var dæmd til þrældóms í Kaupinhafn, þar sem hún lést fáum árum seinna. Þorbjörg morðingjamóðir var dæmd til 5 ára refsivistar í Kaupmannahöfn og kom heim til Íslands aftur að afplánun lokinni. Sigurður bóndi í Katadal var húðstrýktur, sem og Daníel sauðamaður. 

En sem sagt, þetta er vel skrifuð bók og fróðleg, ekki síst fyrir þær sakir að hún rekur alla þræði, bæði hin vottuðu dómskjöl og ritaðar sagnir „sagnamanna“ sem reiddu sig ekki síður á munnmæli og alþýðufrásagnalist en beinharðar heimildir. Þannig var nú það.

Hvet fólk til að lesa.

Sleipnir

Föstudagurinn 19. nóvember 2021 var sögulegur í tónlistarlífi landamanna. Þá var vígður í Hörpu nýr flygill sem Reykjavíkurborg og ríkissjóður gáfu húsinu í tilefni af 10 ára afmæli þess. Það var sjálfur Víkingur Heiðar Ólafsson sem vígði flygilinn með frábærum tónleikum, þar sem hann lék verk eftir Mozart.

Í upphafi spjallaði Víkingur við tónleikagesti, sagði frá Mozart og verkum hans, áhrifum hans á tónlistarsköpun, og á hann sjálfan sem einleikara. Víkingur lagði til að flygillinn fengi nafnið Sleipnir, því þó hann væri vissulega ekki áttfættur eins og hinn goðsagnakenndi hestur Óðins, þá hefði hann marga sömu eiginleikana; orðaði það einhvernveginn svo að Sleipnir færi loft og lög jafnt sem láð og á sama hátt flygi tónlistin á vængjum hans í hæstu hæðir.

Það var magnað að vera viðstddur þessa stund í Hörpu; tónlistin hreyfði allan tilfinningaskalann og einleikarinn auðvitað frábær, eins og allur heimurinn hefur áttað sig á fyrir löngu. Takk fyrir mig.

Á tíu ára afmæli Hörpu er vert að fagna þeirri framsýni að halda áfram fullum fetum og ljúka við bygginguna, þrátt fyrir efnahagshrun. Og minnast um leið þess formyrkvunarafturhalds sem hafði hátt með kröfur sínar um að hætta framkvæmdum – jafnvel að láta húsið standa ókarað um aldur og ævi þeirri hugmynd til háðungar að byggja glæsilegt tónleikahús í höfuðborginni. Þeir sömu halda sig til hlés nú um stundir, enda í besta falli broslegir í ljósi sögunnar. 

Tölum um hesta

Tölum um hesta

Benedikt Línda og Sigríður Ævarsdóttir

Nýhöfn, 2021

 

Tölum um hesta er ný bók eftir hjónin Benedikt Líndal og Sigríði Ævarsdóttur, sem kalla sig reyndar „bara“ Benna og Siggu í bókinni. Höfundarnir skiptast á að skrifa einstaka kafla, flesta stutta og hnitmiðaða. Þrátt fyrir þetta er bókin á engan hátt sundurlaus, heldur rennur hún vel og snuðrulaust fram, það er enda mikill samhljómur með þeim hjónum þegar kemur að viðhorfum til hestsins, tamninga og hestamennsku yfirleitt.

Það er einmitt innileg virðing og hlýja í garð þessarar undursamlegu skepnu sem einkennir skrifin. Hér eru ráðleggingar til hestamanna, nokkrar „sögur úr sveitinn“ af hrossum, stóðlífi, áföllum og gleðistundum. Benni segir frá áherslum sínum við tamningar og kennslu, ásamt reynslu- og dæmisögum, en Sigga er meira í heimspekilegum vangaveltum um innra eðli hestsins og samspili manns og hests. Segja má að kjarnann í umfjölluninni megi hnoða í eitt orð: samstarf. Að öll nálgun gangi út frá því að um samstarf manns og hests sé að ræða.

Í bókinni eru margar mjög fallegar myndir, sem Sigga hefur málað, og setja þær sterkan svip á ritið.

Þetta er skemmtileg bók, full af hlýju, virðingu og fallegum hugsunum.