„Álver bjargar ekki Austurlandi“

Í nýjasta helgarblaði DV er athyglivert viðtal við knattspyrnumanninn Ívar Ingimarsson. Eða réttara sagt fyrrverandi knattspyrnumanninn, því Ívar ákvað nýverið að leggja skóna á hilluna, hætta eftir farsælan feril atvinnuknattspyrnumanns í útlöndum og snúa heim. Og Ívar og eiginkona hans ákváðu að fara ekki hálfa leið, setjast að í margmenninu við Faxaflóann, eins og einhverjum gæti dottið í hug að væri eðlilegra skref eftir að hafa búið árum saman í stórborgum erlendis. Nei, þau vildu í friðsæld og frelsi heimahaganna á Austurlandi. „Heim í heiðardalinn“, eins og þar stendur.

Og þau hjónin eru uppfull af hugmyndum um það hvernig þau geti skapað sér og sínum tækifæri og grundvöll undir líf og hamingju. Ívar hefur skýra sýn á framtíð landshlutans. Hún felst í því að láta ekki staðar numið þrátt fyrir verksmiðju, sofna ekki værðarsvefni í kjöltu álvers í Reyðarfirði.

„Nú er búið að byggja hér álver og sama hvað hverjum finnst um það þá er um að gera að nýta tækifærið sem fylgir því til að byggja upp aðra atvinnumöguleika. Ef það er ekki hægt að nýta tekjurnar af álverinu til þess þá er það glatað tækifæri. Það væri mjög sorglegt ef það endaði þannig að það væri ekkert eftir nema verksmiðjan og það sem fylgir henni […]. Þá gæti sú stund runnið upp að menn spyrji af hverju við vorum að standa í þessu“.

Ívar segir Austurland eftirbát annarra landshluta í þróun ferðaþjónustu og telur að það gæti stafað af ruðningsáhrifum álversins – með því hafi atvinnumálum í landshlutanum „verið bjargað endanlega“ og menn hafi í kjölfarið sofnað á verðinum. Hann bendir á að þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa um að áhrifa álversins myndi gæta um allan landshlutann, styrkja allar sveitir og firði, og fullyrðingar um eitt atvinnusvæði, þá væri raunveruleikinn annar. Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður, þar sem þau hjón ólust upp, eru staðir í tilvistarkreppu og á undanhaldi, þrátt fyrir álver Alcoa.

„„Það er kannski kaldhæðni örlagan[n]a að þegar göngin á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar voru opnuð þá lokaði Samherji frystihúsinu á Stöðvarfirði. Slæmar fréttir voru faldar í góðum fréttum. Sumir sögðu jafnvel að það væri allt í lagi að frystihúsið lokaði því þetta væri allt orðið eitt atvinnusvæði og það gætu allir keyrt yfir á Reyðarfjörð til að vinna í álverinu. Ég held að það hafi ekki verið hugsað til enda.““

Ívar bendir á að álver er ekkert endilega besti „þjónn samfélagsins“, það hafi ekki jafn sterkar og djúpar rætur í mannlífinu eins og umfangsminni starfsemi í eigu íbúanna. Þó álverið hafi skapað störf og laðað að fólk sem annars hefði ekki flutt á svæðið, þá hafi á móti tapast önnur störf vegna þeirrar værukærðar sem fylgdi þessum stóra vinnustað, sem öllu átti að bjarga. Það er ekki gæfulegt, segir Ívar, „að setja öll eggin í sömu körfuna“ eins og gert hefur verið, og nauðsynlegt að hugsa um það sem við tekur þegar álverið fer. „Það gerist á endanum, þótt það gerist ekki á næstu árum eða áratugum“ því álver er bara eins og önnur alþjóðleg stórfyrirtæki sem „eru þar sem þau græða og allt snýst um krónur og aura en ekki samfélagið í kring um þau“.

Ívar bendir einnig á að 12 tíma vaktavinna í verksmiðju henti ekki öllum og sé heldur ekki ákjósanleg fyrir mannlíf í litlum þorpum, því annar hluti bæjarbúa sé alltaf í vinnunni meðan hinn hlutinn sefur. „Það hefur auðvitað áhrif á samfélagið á Stöðvarfirði sem og annars staðar, það er ekki hægt að líta framhjá því. Þetta er langstærsti atvinnurekandinn á svæðinu og hann hefur lífið í þessum bæjum í höndum sér“.

Ívar og kona hans ákváðu að setjast að á Egilsstöðum, og þeim finnst eðlilegt að fólk íhugi hvort það kæri sig um að búa í næsta nágrenni við mengun frá verksmiðju. En þetta, og aðrar neikvæðar hliðar framkvæmdanna, má helst ekki tala um, segir Ívar, og bendir á miklivægi þess að skoða áhrif álversins heildstætt og með hlutlausum hætti, því þau koma ekki öll í ljós strax. „En þá finnst mér líka í lagi að staldra við og öðlast betri yfirsýn áður en það er ákveðið að byggja fleiri álver á Íslandi, en ég veit að það er verið að þrýsta á um það núna“.

Ætli þessi varnaðarorð Ívars eigi ekki við á fleiri sviðum í íslensku samfélagi?

Viðtalið við Ívar Ingimarsson er skólabókardæmi um það að auður hvers samfélags felst í fólkinu sem þar býr. Vissulega er Ívar ekki hver annar verkamaður á mölinni. Hann hefur í krafti hæfileika sinna lagt land undir fót og forframast. Þrátt fyrir áralanga dvöl úti í hinum stóra heimi ber hann einlæga virðingu fyrir litla þorpinu sínu og náttúrunni. Og það sem öllu skiptir er að hann vill koma heim aftur, leggja þar grunn fyrir fjölskyldu sína, en um leið þann grunn sem samfélaginu sem ól hann upp er nauðsynlegur til að eygja von um betri tíð.

Sú von festir nefnilega ekki frjóastar rætur í álverksmiðju.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *