Sama, gamla jukkið

Nú liggja fyrir úrslit í forsetakosningunum og ljóst að fimmta kjörtímabilið er framundan hjá Ólafi Ragnari Grímssyni. Það kemur svo sem ekki á óvart. Eins og bent hefur verið á er engin hefð fyrir því að fella sitjandi forseta í kosningum, hinir frambjóðendurnir voru reynslulausir, nánast eins og bláeyg börn, í samanburði við refinn Ólaf, í kosningaslag. Og hið táknræna tækifæri til að kveðja nú gamla tímann og byrja upp á nýtt er runnið þjóðinni úr greipum.

Ólafur Ragnar hlaut meira en 50% atkvæða, sem kom mér sjálfum á óvart, var búinn að sjá fyrir mér 40-45% og minni mun á honum og Þóru Arnórsdóttur.

Eins og fram kom í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins sótti Ólafur mest fylgi til kjósenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eins og við var búist. Það var hinsvegar skemmtilega súrrealískt að skyggnast inn í Valhöll á kosningavöku ungra Sjálfstæðismanna þar sem kjöri þessa gamla hatursmanns var fagnað með húrrahrópum. „You aint seen nothing yet!“ kemur ósjálfrátt upp í hugann.

Í samræmi við þetta lá meginstraumurinn í fylgi Ólafs Ragnars í lítið menntuðum frekar en mikið menntuðum, hjá körlum fremur en konum og á landsbyggðinni fremur en á höfuðborgarsvæðinu. Og þar fór Suðurkjördæmi auðvitað fremst, hinn frjói akur Árna Johnsens. Einmitt að þessum hópum eiga fyrrnefndir flokkar greiðasta leið. Kosningabaráttu Ólafs var enda snúið þráðbeint þangað. Höfðað var til þjóðerniskenndar og nauðsynjar á „sterkum leiðtoga á óvissutímum“.

Ólafur Ragnar og hans menn beittu öllum þeim lævísu klækjabrögðum sem útsmognir bragðarefir í pólitík kunna og nota í kosningaslag. Slegið var fram einföldum frösum, og skipti þá engu máli hvort þeir stæðust skoðun, í trausti þess að þeir yrðu gripnir á lofti. Ef hentaði var svo þvertekið fyrir frasana daginn eftir, eins og t.d. þennan með óvissuna. Og Ólafur beit svo höfuðið af skömminni með því að líkja 12 milljóna kosningabaráttu Þóru við „2007 auglýsingaslag“, maðurinn sem sjálfur eyddi 90 milljónum í kosningabaráttu á sínum tíma. „Óforskammað“ var þetta uppátæki réttilega kallað í kosningavöku sjónvarpsins.

Það var einnig „snjöll“ smjörklípa hjá Bessastaðabóndanum, um leið og hann sló sjálfan sig til riddara fólksins gegn óvinsælli ríkisstjórn, að byrja á því allra fyrst að spinna sinn helsta keppinaut við stjórnmálaflokk, Samfylkinguna, og láta hann berjast við það alla kosningabaráttuna að reyna að losa sig úr þeim vef. Og vel að merkja, þetta kemur frá eina frambjóðandanum sem sannanlega hefur verið flokkspólkitískur – já, meira að segja komið víða við og látið vind ráða för hverju sinni. En þarna sló hann sem sagt tvær flugur í einu höggi. Hann kom bæði ríkisstjórninni og Evrópusambandinu á herðar keppinautarins, en sjálfum sér í mjúkinn hjá meirihluta þjóðarinnar, sem er á móti hvoru tveggja.

Öll kosningabarátta forseta vors ber skýr einkenni þeirra klækjastjórnmála sem hann hefur verið órjúfanlegur hluti af – virkur þátttakandi og gerandi í – alla sína tíð.

Í þessu ljósi er það þyngra en tárum taki að Ólafur Ragnar sækir fylgi sitt frekar til ungra kjósenda en þeirra sem eldri eru. Unga fólkið, af öllum, vill ekki breytingar, ekki nýtt Ísland, ekki ný vinnubrögð, heldur áfram um ókomna tíð sama, gamla jukkið. Forsetakosningarnar eru til vitnis um það.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *