Áramótakveðja ’23 – ’24

Vélabrögð af verstu sort í veröldinni

vekja núna sorg í sinni,

sé ei von að þessu linni.

 

Áralöng er óöldin í Úkraínu.

Þrælahald, við þurft og pínu.

Þjóðarmorð í Palestínu.

 

Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.

Hvergi skilningsbilið brúar

barnamorð, í nafni trúar.

 

Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.

Sem sig á asnaeyrum teymi

yfirvöld, og siðum gleymi.

 

Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?

Horfa upp á aðra smáða?

Undan líta? Hunsa þjáða?

 

Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:

Þessu líku aldrei unum!

Hið eina svar við spurningunum.

 

Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.

Mitt nýársheit: Að mæla móti

meinsemdum, þó skammir hljóti.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *