Úr dagbókinni 2023

Hér er safn vísna og kvæða ortum árið 2023 undir hefðbundnum bragarháttum (með örfáum undantekningum). Safnið telur um 300 vísur og erindi og fjölbreytt sýnishorn bragarhátta; dróttkvæði, limrur, ýmsa rímnahætti auk óskilgreindra hátta.

 

01.01.23

Ferðaþjónustunni leiðast viðvaranir og lokanir veðurstofunnar:

 

Ferðaþjónum frelsið ber

þó festir séu’ í hlekki.

Verulega vont það er

að veðrið kom svo ekki.

 

08.01.23

„Fólk ekki öruggt í íslensku samfélagi nema það sé vel fjáð“ er haft eftir Kára Stefánssyni í fjölmiðlum:

 

Samfélag á sandi byggt,

sérhagsmunavefnaður.

Nú til dags ei neitt er tryggt

nema þú sért efnaður.

 

11.01.23

 

Það er gott ef glymur í þér gleðistrengur.

Hann mun öðrum hljóma lengur,

þó hljóðni líka, eins og gengur.

 

Með gleðibragði geng ég um hin grænu engi,

fagna þannig góðu gengi,

gæfan verið hliðholl lengi.

 

13.01.23

 

Frostið herðir, fönnum skartar fimbulvetur.

Úti fagurt orðið getur

þó inni mörgum líði betur.

 

Kennslu lokið. Hvað skal segja? Komin helgi!

Í rafmagnskönnu kaffið velgi,

af konfekti svo út mig belgi.

 

Stundum járnað fyrr …

 

Það var ekkert skammarskrölt

því skörungslund er glettin.

Fet og brokk og takthreint tölt,

er tókum skeifnasprettinn.

 

Willum sá ekki ástæðu til að auglýsa starf forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þegar hann hafði fundið Framsóknarmann í starfið. „Almenna reglan er …“. Hins vegar eru framsóknarmenn svo sértækir að almennar reglur gilda ekki um þá. Þess vegna auglýsa framsóknarmenn aldrei stöður, heldur ráða sína menn beint og milliliðalaust. Enda eru þeir enginn almenn-ingur, heldur öflugir afburðamenn, óumdeilanlega:

 

Kunnugt að gildir á Íslandi enn

sú almenna regla

að framsóknar öflugu afburðamenn

eru alger negla!

 

15.01.23

Vilhjálmur á Akranesi reynir með öllum ráðum að réttlæta skerðingarsamninga sína og ræðst að háskólaprófessornum:

 

lla í verkalýðsforkólfa fer

að fátækir baráttu herði

og Vilhjálmur sturtaði sjálfum sér

með samningi þeim er hann gerði.

 

17.01.23

 

Lopa í feldi og funheitt því er,

í frostrósa bogandi veldi.

Húmar að kveldi, á hesti ég fer

mót himinsins logandi eldi.

 

23.01.23.

 

Sumir eru út úr kú

í einkahagsmunonum

en ef þeir góðverk gerðu nú

gengi allt að vonum.

 

 

Eins og vísast alþjóð sér

þá ályktun má draga;

Er á höttum eftir þér

alla mína daga.

 

26.01.23

Lindarhvoll og fingraför Bjarna Ben.

 

Heita úlfar Hati’ og Skoll

sem herja’ á sól og mána

og þeirra lægi Lindarhvoll

sem laumast frá til rána.

 

Svokallaður ríkissáttasemjar setur allt upp í loft með því að draga taum annars samningsaðilans.

 

Í baráttu að bæta kjör

er brautin sífellt hálari.

Rambar hvorki á ráð né svör

Ríkisófriðsbálari.

 

Mætast þarf á miðri leið,

að marki kanna áttir.

Þá er málamiðlun greið

og margir verða sáttir.

 

28.01.23

 

Hvort verður rigning og rok,

renningur, stórtjónafok,

hundslappadrífa,

eða hiti að klífa

í logni, við dags þessa lok?

 

Landsynningsstrekkingur stóð

stöðugt með rigningarflóð

öllum til ama.

En mér er andskotans sama!

Annars bara erum við góð.

 

29.01.23

 

Heldur margt um hugann fer,

held að nú sé málið

að heilinn illa heldur sér,

ei helst í ausu kálið.

 

30.01.23

 

Eftir þíða þorratíð

þá burt flýði ylur.

Yfir ríður annað stríð,

öskuhríðarbylur.

 

31.01.23

Kjarasamningur SGS samþykktur með 94,34% greiddra atkvæða. Þátttaka var 6,5% af kjörskrá. Þetta þótti ásættanlegt, þó slík þátttaka þætti í hæsta máta ólýðræðisleg þegar Eflingarfélagar samþykktu verkfall.

 

Benjamín setti á samningahlé

er sátt um rýrnun var lent

og þátttaka næg honum sýnist að sé

6,5%

 

08.02.23

Ellefta stýrivaxtahækkunin í röð. Enn ráðist að launafólki sem situr í krónusúpunni:

 

Almenningur byrðar ber,

sig bölvun yfir kaus.

Ríkisstjórnin auma er

alveg ráðalaus.

 

Ásgeir leggur til Skrattans á skeið,

í Skýjaborg hitta vill dónann.

Hugurinn ber hann hálfa leið,

hinn hlutann íslenska krónan.

 

 

Gengur nú yfir hressandi hríð

sem hreytir éli í fang.

Hamingjusamur heimleiðis ríð

hesti, alhvítan vang.

 

10.02.23.

 

Lundin núna léttast fer,

lengist dagsins skíma.

Hér norð’r í rassi ratljóst er

rúma 9 tíma.

 

11.02.23

Lindarhvolsmálið rís sífellt í lygilegri hæðir:

 

„Leyndarhyggja og laumuspil í Lindarhvoli“.

Þó hér sé allt í kaldakoli

er klíkan í engu lystarstoli.

 

Hver þjóð fær það sem hún á skilið:

 

Flæktur er í loðnu lygagarni,

í Lindarhvoli falinn sannleikskjarni.

Þar liggur sá arni

í innherjaskarni,

blessaður drengurinn, hann Bjarni.

 

Glataður hinn brýndi, beitti hnífur

baráttunnar, sem að margan hrífur.

Undirlægju djúpar dýfur,

dimmur skuggi yfir svífur.

Í herðar niður flokkinn Katrín klýfur.

 

Er spillingin logar í lyngi

fá landsmenn af brunanum stingi

en Sigurður Ingi

sefur á þingi

þó brunabjöllurnar hringi.

 

13.02.23

 

Sólveig Anna situr keik á Skjóna,

sú ei líkist neinum auðvaldsdóna.

Halldór Benjamín,

má beygður skammast sín

og Aðalsteinn úr embættinu lóna.

 

18.02.23

 

Að vori hvergi vísir mjór

í veðurkökusortunum.

Laugardaginn lýsir snjór

og lægðadeig í kortunum.

 

Fertugur Hlynur Bæringsson í landsliðið á ný:

 

Markmiðið meitlað og tært,

í manninum stöðugt var hrært

svo leikurinn skáni

gegn liði frá Spáni

því allt er fertugum fært.

 

Munum að gera oft gagn

gæði og reynslunnar magn.

Torfi og Logi,

Einar og Bogi

til vinnings draga vorn vagn.

 

 

Reyndist góður þorraþræll.

Þvalur, rjóður vangi.

Drösull slóðir dansar sæll.

Dund á fóðurgangi.

 

19.02.23

Leyndarhvoll enn á dagskrá

Að frátalinni spillingunni og öllum hneykslunum runnum undan rifjum fjármálaráðherrans (völduðum af Vg og Framsóknarflokknum) hnaut ég um þetta starfsheiti:

 

„Framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands“.

 

Ef málið væri ekki jafn sorglegt og það er, væri þetta sennilega fyndnasti brandarinn í mannkynssögunni. Hver hefur svo öflugt og útópískt ímyndunarafl að tengja saman fjármálastöðugleika og seðlabankann?

Kannski er það Steinar í Grjóttúni sem flutti í Hraunból? Eða Bjarni frá Vafningi?

Eða er Haukur í Horni sjálfráður um eigið starfsheiti?

 

Svo almennings þarfalind þorni

og þjófar við eldinn sér orni,

í Grjóttúnagörðum

hjá Gálgafrestsskörðum

leynist Haukur í Horni.

 

Svona gróteskar sögur verða til þegar pólitíkin, dómstólarnir, fjármálaspekúlasjónin og embættismannakerfið er allt einn og sami hrærigrauturinn. Sannkölluð ormagryfja: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag“.

 

Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ skrifaði magnaða grein í fjölmiðla um átökin innan verkalýsðhreyfingarinnar og gerði m.a. Villa Birgis að athlægi:

 

Er Villi af lotningu laut

og lapþunna glundursins naut,

þá heyrist mér ómi,

og efling í rómi:

„Má ég fá meiri graut?“

 

21.02.23

 

Einmitt. Veruleikafirring auðstéttarinnar vex í réttu hlutfalli við ójöfnuðinn.

„En það nær líklega enginn rammi utan um það sem hefur verið að gerast í íslensku efnahagslífi.“

 

Heiminn á herðum séra bera

handhafar (arðgreiðslu)lífsins

og þegunum skammtana skera

til skeiðar og hnífsins.

 

 

Í ræðu guð á góma ber,

til gagns þarf hann að brýna,

og nú má ei um neita sér

að nefna ömmu sína.

 

 

Eftir að Snæfinnur sá

Sóldísi horfa sig á,

hann brúna varð hallur

og bráðnaði allur

en það vissi hann ekki þá.

 

 

02.03.23

 

Gegningar jafnan göfga mig,

og nú gleðin ríkir ein

því farnir eru að sýna sig

söngfuglar á grein.

 

03.03.23

Mér skilst fjármálaráðherrann frá Leyndarhvoli hafi verið til viðtals í Kastljósi nýverið og lýst mikilli velmegun til lands og sjávar, mest vegna ágætis eigin ákvarðana, sisvona:

 

„Landið bólgið auði allt,

ekki skortir feiti.

Standið boðlegt, varla valt

virðið, engu breyti.“

 

Það sem blasir við almenningi, sem eru allir aðrir en prinsinn af Leyndarhvoli og vinir hans, hljómar hins vegar u.þ.b. svona:

 

Breyti engu, virðið valt,

varla boðlegt standið.

Feiti skortir, ekki allt

auði bólgið landið.

 

05.03.23

Ræstingafyrirtæki Engeyinga, Dagar, veltir öllum kjarasamningshækkunum út í verðlag:

 

Varla lengur við ég ræð

velsæld fitulaganna.

Bráðum fæ ég beint í æð

bakreikninga daganna.

 

 

Lífið getur lagst sem blý

á lotið sinustrá.

Ef glóðin lifir ösku í

eldinn vekja má.

 

Sigla létt og litrík ský,

sem ljóma stafar frá.

Undrun vekur enn á ný

eilífð fagurblá.

 

07.03.23

Húsgangur

 

Bjarni segir: „Bí, bí, bí“.

„Bí, bí“, svarar Trína.

Kolkrabbinn er kominn í

kerlinguna mína.

 

08.03.23

 

Konur allar viljum virkja,

þær veita ljós og yl,

allar mannlífs stoðir styrkja,

fá straum í lygnan hyl.

Þeirra reynsluakur yrkja,

okkar gæfu til.

 

 

Leyndarhvolsgreinargerðin fæst enn ekki birt:

 

Spillingin er á fleygiferð,

í felum dólgar við gullin rísla.

Um það var skrifuð greinargerð

en greinilega ekki skýrsla.

 

 

Ekki gengur handboltalandsliðinu alltaf vel, þrátt fyrir spár sérfræðinga um annað og væntingar fólks:

 

Handkastið gekk heldur tregt,

hark, að allra dómi.

Mysan súr, og það er þekkt

að þykknar staðinn rjómi.

 

Strákarnir áttu lélegan leik

svo Logi er fullur af sút.

Núna má segja að vonin sé veik,

þeir voru að tékka sig út.

 

09.03.23

„Lindarhvoll þarf að afhenda álitsgerð og minnispunkta“, sagði á ruv.is:

 

Þó enginn megi greinargerðir sjá

er gott að lögmenn hafi nóg að sýsla.

En minna þarf nú landsmenn alla á

að álitsgerð er mikið síður skýrsla.

 

15.03.23

Einu sinni þurftu menn að láta segja sér tíðindi þrim sinnum. Sú tíð er liðin. Nú er ekkert tíðindi:

 

Á Íslandi nú er það nýjast

að nauðbeygðir eru að lýjast

á grasrót og stefnu

(að þvi virtu og gefnu

að vg í Valhöll er hlýjast).

 

19.03.23

Vg hélt landsfund:

 

Landsfundarfréttir

 

Stefnan er gleymt og gulnað blað,

græna rótin troðin í svað,

heiðarleikinn hogginn í spað

og hugsjónin lögð í spillingarbað.

 

Já, misjafnt hafast mennirnir að.

 

21.03.23

Las það í fréttum að jeppi hefði misst hjólbarða undan bifreiðinni.

Spurning hvort það hafi verið Jeppi á Fjalli?

 

Ennþá lifir það mér í minni

er mættumst við Þórsmörkinni.

Brostir þú til mín,

blindur fékk þá sýn

og jeppinn missti barða undan bifreiðinni.

 

 

Víst voru kjörin kyr,

í kotum áður fyr.

Nú auðlindarán

og öryrkjasmán:

Hungurleikarnir.

 

 

Voðalegt er veður,

vetur dæmin setur,

bölvar nú í byljum

boli, ýgur svoli.

Lengist biðin langa,

leiði för nú greiðir,

var í huga vorið,

víðs nú fjarri lýði.

 

22.03.23

Enn hækkar Ásgeir vextina:

 

Verðlag skulum hafa hátt

og hækka vaxtastigið

svo skuldugt fólk til bankans brátt

blóði geti migið.

 

 

23.03.23

Haldiði sé ekki …

 

vorsól á glugga,

hægur, vekjandi blær,

ekki hret eða mugga,

himinn heiður og tær …

 

Var að hlusta á Magnús Hlyn í útvarpinu í morgun. Þar kom margt skemmtilegt fram, enda maðurinn sannkölluð fróðleiksnáma og gleðisprengja, m.a. þetta:

 

Innilokun er ógn í kistu,

ekki kennd sem heillar mig.

Þó gamanið sé grátt í fyrstu,

er gott að láta brenna sig.

 

24.03.23

Edda Falak gerði opinberlega í buxurnar:

 

Þóttist hafa þolað margt,

það var ljóti feillinn.

Margt af þessu man nú vart,

missögn var það, heillin.

 

26.03.23

 

Orð nú lengur á ég vart

er út um gluggann lít:

Nú er það orðið niðasvart,

nú er jörðin hvít.

 

27.03.23

„Kveðst fyrst hafa vitað af kaupum föður síns þegar listinn barst frá Bankasýslunni“ (RÚV.is)

 

Slysalegt í Bankasýslu

 

Lítill drengur, lítill drengur,

lítill saklaus mömmudrengur,

lítið sofinn.

 

Dimmblátt bindi, dökkur jakki,

dómgreind stöðugt er á flakki,

tungan klofin.

 

Er hér landsins forni fjandi?

Fúið húsið reist á sandi

í Bankasýslu?

 

Kýs að veita vinargreiða,

vinstri græn við hönd sér leiða.

Enga skýrslu.

 

Innherjanna dáðadrengur,

á dagpeninga lítið gengur.

Draumur Kötu,

kylliflötu.

 

Tortólu teflonmaðurinn,

talinn af mörgum besta skinn.

 

Talar samt ekkert við pabba sinn.

 

29.03.23

Einhver sagði mér að heyrst hefði að verðbólgan væri komin niður í 9,8% þannig að óþarfi er að hafa neinar áhyggjur lengur, heldur drífa sig í bankann og kýla áfram húsnæðiskaupin. Og skella sér í sólina yfir pásk:

 

Kemur eftir vetur vor.

Verðbólgan mun sjatnandi.

Losnar um í hausnum hor.

Heldur fer það batnandi.

 

 

Boðar lóan þau lok

að léttist af sálinni ok?

Það held ég nú síður,

við hornið nú bíður

sumarið: rigning og rok.

 

 

Aðalfundur Selfoss-Körfu er í kvöld:

 

Stélbrattur greiði mín gjöld,

nú gamni, með örlítil völd,

senn er að ljúka.

Ég látinn verð fjúka

klukkan 8 í kvöld.

 

30.03.23

Stafhent

 

Fari það til andskotans,

ekkert hérna meikar sans.

Ef gengur allt á versta veg

veröldin er grátbrosleg.

 

01.04.23

Dómsmálaráðherrann gerir axarsköftin:

 

Gengur margt á verri veg,

visku sýnist þrjóta.

Jóns er ára leiðinleg,

leggur fátt til bóta.

 

 

Á þorra og góu hálf vængbrotinn var

„vorboðinn ljúfi“, og gneypur.

Í morgun í fjöðrunum fögnuð sinn bar

-og fyrsta apríl nú hleypur.

 

02.04.23

 

Það er varla að veðrið hér

verðskuldi nokkurt skjall

en kannski ég ætti að koma mér

með kaffið út á pall?

 

03.04.23

„Svört skýrsla um áhrif verðtryggingar fæst ekki birt“ – Fréttatíminn:

 

Skýrslurnar mjög eru margar

en meirihlutanum fargar

Leyndarhvolsgæinn.

Hann gengur um bæinn

og þá birtir sem einhverju bjargar.

 

06.04.23

Skarphéðinn Áki hélt sína fjölmennu og höfðinglegu fermingarveislu fyrir stórfjölskylduna í dag. Afi sendir honum kveðju og þakkar fyrir sig:

 

Það vorar í lofti og veröldin skín

með vonglaða, ilmandi daga

og fermingardrengsins framtíðarsýn

er fögur og spennandi saga.

 

07.04.23

 

Það hendir svo andskoti oft,

orðinn víst gamall og ‘soft’,

að í roki og regni

í reiðtúr ei megni.

Með fæturna leggst upp í loft.

 

 

Ei æsist þó byrlega blási,

en bað hér einhver um skaða?

Nú falla á hviður með hvelli,

hvinur í lofti, og stynur

birkið í hamskiptum heimi,

er heggur kári og leggur

hundillur, báðar á hendur.

Háskaveður um páska.

 

08.04.23

Kynnt var bóluefni við krabbameini:

 

Markmið mannkynsins skýr:

Meira! – í hærri gír!

Brátt sig mun hvetja

bólu- að setja

með eilífiselexír.

 

 

Hef nú farið vítt um veg,

veröld slungna kenni:

heimsins undur listileg,

lífs og sálar brenni.

Fyrir allt það fátt þó gef,

að frúnni augum renni,

þvi flest það besta fundið hef

í fanginu á henni.

 

09.04.23

Páskavellan streymir fram:

 

Í guðsorðavellunnar ‘gáska’

greina má angist og háska

og sálmanna hvísl

um syndir og písl,

að okkar sé sökin

og satan með tökin

sem guð hafi misst:

„Best ég krossfesti Krist

svo þið komist í skárri vist“.

 

10.04.23

Fátt er sívirðilegra en að nota afl greiddra atkvæða í kosningum til annarra hluta en þeirra sem öfluðu atkvæðanna.

 

Stóru málin, stefnan hrá,

stóð ei til að efna

en margt er þarft að minnast á

sem má víst ekki nefna:

Katrín orðin últrablá,

ógeð hennar stefna.

Þetta ekki þola má,

þessa munum hefna.

 

17.04.23

 

Varla að ég væti klút

en vel á „tankinn“ fylli

í rjómablíðu að ríða út

þó rjúki upp á milli.

 

18.04.23

 

Segi mér sjálfum til hróss,

er siglingin styttist til óss:

Þá út fer á hafið

mig ei hefur tafið

gagnslaust, veraldlegt góss.

 

19.04.23

Dagurinn í dag, 19. apríl, er „dagurinn okkar“. Nú eru fjertigi ár, segir og skrifa, síðan við hittumst fyrst og hófum göngutúrinn sem enn stendur:

 

Nú er ég glaður á góðri stund!

Á göngu um holóttan æviveg

ástin mín fagra léttir mér lund,

lífið er dásamlegt, fullyrði ég.

 

27.04.23

Það var allt á kafi í snjó í morgun og í samræmi við veðrið er kald-hæðni viðeigandi:

 

Allt er bjart svo æða má

út að grilla humar.

Vaxa finn ég þrótt og þrá,

það er komið sumar.

 

28.04.23

Á meðan við klofum hnédjúpan snjóinn hér í lágsveitum er marautt og vorlegt á Laugarvatni:

 

Laugarvatn í Laugardal,

nefnt landsins himnaríki!

Í þeim veðursældarsal

er sagt að öllum líki.

 

Og sjaldan lýgur almannarómur.

 

03.05.23

Ólafur Ragnar er samur við sig í sjálfhverfunni og hyggst láta reisa sér óbrotgjarnan minnisvarða:

 

Vanda heimsins mikilmennin leysa,

sér minnisvarða óbrotgjarna reisa.

Veröld nú á villigötum lent er,

í Vatnsmýrinni rís því Grimson center.

 

07.05.23

Í anda öfugmælavísna, þó þetta sé frekar „sannmælavísa“:

 

Margt er það sem varast verð:

vinna, gagns til iðja,

dytta að, mitt dengja sverð,

dyrum snjó frá ryðja.

 

Ypsilonreglurnar geta verið snúnar:

 

Óralengi var Lísa

að lýsa fyrir mér því

hvað ég ætti að ísa

ef ýsa fæst ekki ný.

 

Aurunum tekst mér að týna!

Þá tína af kosti þröngum

og samfélagsábyrgð sína

sýna bankarnir löngum.

 

Finnst mér að litlu leyti

að leiti á hugann stress

þó allsekki nokkuð því neiti

að neyti ég stundum þess.

 

13.05.23

Það er segin saga, að þegar maður notar ekki veðrið sem afsökun, heldur herðir sig upp og drífur sig á bak, þá er gaman:

 

Andann hressir ærlegt regn,

ör af hestsins dáðum.

Votir stefnum vindi gegn,

viljinn eykst í báðum.

 

16.05.23

Það er helst í fréttum, aftur og aftur dagana langa, fyrir svokallaðan „leiðtogafund“ í Reykjavík, hvort forseti Úkraínu kæmi á fundinn:

 

Margt í dæminu verður að vega,

varar sig Zelenskí hættum á.

Kemur líklegast ólíklega

en lítur við gegnum tölvuskjá.

 

18.05.23

Sólveig Anna náði enn einu sinni að ýfa hár íhaldsins með opinberri færslu um verkalýðsleiðtogann Vilhjálm Birgisson, þar sem hún vitnaði m.a. í viðkvæði móður sinnar þegar henni þótti menn fullyrða meira en þeir áttu innistæðu fyrir:

 

„Það er hátt risið á hundaskítnum“

 

Spillingarforin flýtur,

fullur bikarinn er.

Hátt rís nú hundaskítur,

heimur versnandi fer.

 

 

24.05.23

Tíðin hefur verið rysjótt í meira lagi allan maímánuð:

 

Á Íslandi fólki er það tamt

alltaf að kvarta’ yfir tíðinni

en ekki Gunnar auminginn samt

aulaðist burtu úr Hlíðinni.

 

Það er afmælisdagur í dag og því tilefni að gera upp:

 

Lífið þennan leikur við,

lukkan ennþá tifar,

yfir fennir ólánið,

alltaf penninn skrifar.

 

Seðlabankinn hækkaði enn stýrivexti, nú um 1,5% og er ástandið orðið óbærilegt fyrir flesta sem skulda, sérstaklega bítur í húsnæðisskuldir því afborganir margfaldast nánast mánaðarlega:

 

Píningsdómur hinn nýjasti

 

Verðbólga er veðri í

og vextir buddur innan skafa.

Ríkisstjórnar ráð við því:

reyra fólk á skuldaklafa.

 

Víst er það beggja blands

burður til auðmanna stands

(samt eldgömul saga)

en til ábyrgðar draga

launþega þessa lands.

 

Krónuhagkerfið

 

Þegar enn hér á sér stað

almenn kjaralækkun,

stoltur Ásgeir stefnir að

stýrisvaxtahækkun.

 

Er landar skuldaskellinn fá,

skólabókarsmækkun,

stoltur Ásgeir stefnir á

stýrisvaxtahækkun.

 

Þegar landið leggst á hlið,

lýðs er gefin fækkun,

stoltur Ásgeir stendur við

stýrisvaxtahækkun.

 

25.05.23

 

Fjasið mér í gærdag gaf

gleðikinnar rjóðar.

Ég þakka núna alhug af

ykkar kveðjur góðar.

 

27.05.23.

Góður dagur í þurrakulda. Loksins stytti upp! Girðingarvinna, undandráttur, hófsnyrting og Arnarstaðahringurinn undir kvöld.

 

Himnagrátur hættur er,

hann ei, kátur, trega,

ómar hlátur inn’ í mér

alveg mátulega.

 

Upp í bekkinn skríður skör,

skammt er högga milli.

Reið ég Lé og röskri Ör,

róma þeirra snilli.

 

28.05.23

Minning frá utanlandsferð spratt fram á Fjasinu, mynd af Önnu Maríu léttklæddri í sólaryl, og varð það tilefni til að grínast með okkar „frábæra vor“:

 

Á íslenskt vorið minnir þessi mynd,

já, maí sem er að líða,

er flaug með oss á tilverunnar tind

hin tæra himinblíða,

og það er fyrir suma mikil synd

að snjór sé burt að skríða

en því samt tekur þolinmæðislynd

þessi undurfríða.

 

29.05.23

Fyrst að veðrinu …

 

Leggur yfir lopaský,

lágt er á því risið.

Fólk er orðið, eins og strý,

úrkula og visið.

 

…svo að mannskepnunni …

 

Mannkyn á sér myrka hlið,

meinum hrjáð og trega.

Engan má það finna frið,

frekar þjá og vega.

 

30.05.23

Katrín Jakobsdóttir hefur ekki áhyggjur af hinum snauðu og jaðarsettu – hún hefur Bjarna sinn …

 

Katrín: Kerfið er gott,

kaupið er sanngjarnt og flott,

engir alþýðumolar

sem að okkur skolar

(og Bjarni er helvíti ‘hot’).

 

31.05.23

Af VISIR.IS: „Bjarni segir launahækkun æðstu embættismanna vara raunlaunalækkun“

Það sama finnst honum ekki um launahækkun verkalýðs:

 

Raun-launalækkun

 

Raunir Bjarna bara ekki hætta,

báðir himnafeðgar skulda svar!

Erlendis hann þurfti fé að þvætta,

þvottavélin heima úrbrædd var.

Við alþýðuna sig hann þarf að sætta,

með sífellt meiri launakröfurnar

sem skara’ að glóðum verðbólgunnar vætta,

og virðist núna endanlega ‘snar’,

þingheim allan vill í vesöld smætta,

brátt verða allir ósjálfbjarga þar.

Áætlanir saman þarf að þætta,

Þorsteins Víglunds, Bjarna’ og Katrínar

svo ekki stöðu sína sjái bætta

sjúkir, blankir, gamlir, öryrkjar.

 

Þekktur meðal Caymanaðalsætta,

vill einhver kannski bjóða honum far?

 

04.06.23

Frúin:

 

Heillataktur helgilagsins

er hjartaslátturinn

og „undirspil í amstri dagsins“

andardráttur þinn.

 

 

Af RUV.IS:

„Landsvirkjun hefur falið einkahlutafélaginu Vonarskarði að annast útboð sín á raforku. Vonarskarð er í eigu fyrrverandi starfsmanns Landsvirkjunar og óvíst hvernig hann varð fyrir valinu. Orkustofnun skoðar hvort fyrirtækið hafi nauðsynleg leyfi.“

 

Mállaus og magnvana starði

melgrasskúfurinn harði

á spekúlasjón

og spillingartjón

vaxa í Vonarskarði.

 

05.06.23

Vorið:

 

Vel úr hendi flestum ferst

að forðast sálarklöngur

er að þeirra eyrum berst,

indæll fuglasöngur.

 

06.06.23

Af ruv.is:

„Forstjóri Landsvirkjunar segir ekkert óeðlilegt við ferlið eða tengslin:

Fyrirkomulagi á sölu grunnorku Landsvirkjunar var breytt í október í fyrra og félaginu Vonarskarði falið að annast söluferlið. Félagið hafði þá verið til í ellefu daga.“

 

Í fréttum sáum höldinn Hörð

horfa, fullan vonar,

á Landsvirkjunar leyndarskörð,

lögð til Sigurðssonar.

 

08.06.23

Sólveig Anna Jónsdóttir: „Kostulegt er að lesa viðtal dagsins við seðlabankastjóra í Morgunblaðinu. Þar er seðlabankastjórinn á heimavelli meðal vina sinna og verndara úr röðum auðstéttarinnar, er slakur og óvar um sig, og lætur margvísleg gaspuryrði falla.“

 

Hljóminn vantar, vit og yl

í vesalingakórinn,

hans og sér nú undir il,

augna glenntur ljórinn.

Þörf er á, og það ég skil,

þegar kreppir skórinn

af verkalýðsins veislubyl

vel að moki flórinn

og segi honum synda til

seðlabankastjórinn.

 

09.06.23

Hann rignir:

 

Yfir bakka flæða fer,

finnst mér staðan heldur léleg.

Páli hjá, og Pétri, er

pípulögnin ekki féleg.

 

12.06.23

Almennt heilræði:

 

Gangi allt að óskum þér

auðmýkt haltu’ í lyndi.

Flest er valt í veröld hér,

verður kalt á tindi.

 

13.06.23

 

Júníheiðið blikar bjart,

blær þess greiðir lokka.

Finn mig seiða foldarskart,

fram sinn breiðir þokka.

 

14.06.23

Í göngu um þjóðgarðinn:

 

Þrestir syngja, rjúpa ropar,

ræðuþing við Skógarkot.

Ilmar lyngið, úðadropar,

allt í kringum veggjarbrot.

 

17.06.23

 

Þjakar spilling þrálátleg,

þörf að taka slaginn.

Þramma margir þungan veg,

þeirra bætum haginn.

Þannig heiðrum, þú og ég,

þjóðhátíðardaginn.

 

19.06.23

 

Sálmur lítilmagnans

 

Einhvernveginn alltaf klúr

útkoman af brasinu,

utan við sinn andans múr

sér annan lit á grasinu.

Verður ansi seigjusúr

söngurinn á fjasinu

og niður stöðugt streymir úr

stunda -fokking-glasinu.

 

25.06.23

Í hestaferð:

 

Í góðu veðri er gaman

er góðvinir ríða út saman.

‘Núvitund’ grær

því náttúran hlær

út á hlið, fyrir aftan og framan.

 

26.06.23

Að ferðarlokum braust sólin fram en úrhellisdembur meira og minna í allan dag. Þær lutu þó í lægra haldi fyrir lopapeysum og góðum vatnsgöllum. Takk fyrir mig.

 

Að ferðarlokum fagna ber,

að fór allt lista vel.

Hrossin góð, og gæfa er

geirneglt vinarþel.

 

27.06.23

Bankasala ríkisins:

 

Erfði föður góðu gen,

guttinn óx í snilling,

og salan varð hjá Bjarna Ben.

býsna vönduð spilling.

 

 

Það er rigning, það er hvasst,

þjóð á rangri stillingu

þráir sólargyllingu.

Trén nú feykjast tvist og bast

sem traust í frónskri spillingu.

 

 

Er í skjólin fokið flest,

flúin sólin burtu?

Nei, heims um ból sig baða sést

bak við hól, í sturtu.

 

 

Af ruv.is: „Allslaus eftir að sýslumaður seldi tugmilljóna einbýlishús á uppboði á þrjár milljónir“:

 

Út við skulum öryrkjana bera,

og allt sem heitir ‘velferð’ niður skera.

Ef útgerðin vill hús

það kostar hungurlús

og í bankasölublús

við bjóðum glæpnum dús.

Svona eiga sýslumenn að vera.

 

07.07.23

Lindarhvolsskýrsluleyndin:

 

Allar nú brýrnar að brenna,

út Bjarni (og Birgir) á tíma að renna.

Eins og okkur er tamt

allt mun þó samt,

Þórhildi Sunnu að kenna.

 

Frá vélinni spillingin vellur,

veisluföng eitruð hjá kokknum,

kámugar kafteinsins brellur,

á Kútter Sjálfstæðisflokknum.

 

08.07.23

Úr pistli Sifjar Sigmarsdóttur í Heimildinni: „Við vitum MÖRG hvernig sú saga endaði. Stór hluti þjóðarinnar er hins vegar með sítrónusafa í andlitinu gagnvart allri snilldinni í spillingunni. Fyrir þann hluta er þetta „sagan endalausa“.“

 

„Það er veisla, og enginn er vafi,

vinir og faðir og afi:

Þið fáið hlutabréf gild.

Þett’ er gargandi snilld“.

(Í andliti sítrónusafi).

 

 

Þjóðin unga illa stemmd

eftir langvinnt skarngus.

Valda kvöl og kjálkaskemmd

Katrínus og Bjarnus.

 

09.07.23

Í fréttum er þetta helst:

 

„Svo enga í útvarpi blekki;

Af öllum þeim gögnum sem þekki

því yfir get lýst,

þó ekkert sé víst,

að annaðhvort gýs eða ekki“.

 

 

Krafist er þingfunda til að ræða um allra nýjustu hneykslismálin en forsætisráðherra og þingflokksformenn spillingarflokkanna bregðast við með samræmdum hætti:

 

„Við viljum ei maraþonmessu

því margt fer á skjön undir pressu.

Sumarið nýtum,

yfir sviðið nú lítum,

því við þurfum að læra af þessu“.

 

11.07.23

Í fréttum er þetta helst:

 

Út frá gögnum þeim sem ég þekki,

þó jafnvel einhverju skekki,

ég hugann upp herði

og held gosið verði

annað hvort stórt eða ekki.

 

13.07.23

Takmarkað aðgengi að eldstöðvum á Reykjanesi:

 

Bjargið mér samt

 

Forræðishyggjan

lifir góðu lífi

 

Það sem

hægt er að banna

er bannað

 

jafnvel gönguferðir

að gosstöðvum

þessa nýfrjálsa lands

 

Gott ef ekki

verður bannaður

sundsprettur

í Reynisfjöru

á stórstreymi

fyrr en varir

 

Og þó ég

megi vaða frjáls

í Gullfoss og Geysi

án frekari afskipta

viðbragðsaðila

 

eru mér allar bjargir

bannaðar

að sökkva mér

oní nýrunnið hraun

á Reykjanesi

 

Bölvuð löggan

og björgunarsveitirnar

eiga ekkert með

að forða oss

frá frelsisins hvin

 

því vaskir, vaskir,

vaskir menn,

bruna seglum þöndum

inn að skerjaströndum

 

En helvítin ykkar

ef voða

ber að höndum

 

bjargið mér samt.

 

14.07.23

Stefnuyfirlýsing (og stjórnarframkvæmd)

ríkisstjórnar íslenska (banana)lýðveldisins

 

Gagnsæja stjórnsýslu styð!

Í stjórnmálum boða ég frið!

Allt skal uppi á borðum!

Efnahagsstjórnin í skorðum!

 

(Gæðingum gefa mun frið

til að gleypa hin auðugu mið,

banka í morgunmat bryð,

að braska, setja á hlið

og ráðskast með almenningseigur

andskoti hreint er ég seigur)

 

Hverja ákvörðun skylt er að skoða,

ég skýrslur og úttektir boða,

þar úr verður miklu að moða,

málefni, ekki nein froða!

Ef mjöl reynist maðkað á ný

þá munum við læra af því!

 

(Birtingu set ég í bið,

Birgi fæ með mér í lið,

það er skömminni skárra að þegja

og hvað skýrslurnar kunna að segja:

 

það kemur þér ekki við).

 

16.07.23

Barnagæla

 

Nú skulum við vera

gestrisin og góð

því mamma ætlar að græða

gildan sjóð.

 

Mamma ætlar að græða,

mamma er svo góð,

mamma ætlar að vinda

úr túristunum blóð.

 

Mamma ætlar að græða

en mamma er svo þreytt,

á þessum erfiðum tímum

hún orkar varla neitt.

 

Mamma er svo lúin,

mömmu er kulnuð glóð,

svo yrkjum fyrir mömmu

íslenskt sumarljóð.

 

Nú skulum við vera

gestrisin og góð,

og auglýsa fyrir mömmu

okkar land og þjóð.

 

30.07.23

Einmunablíða í allt sumar, eftir að loksins stytti upp:

 

Líður sumarsælan hljótt,

sólarljósið hopar,

og á fagra fold í nótt

féllu nokkrir dropar.

 

 

Er gatan til enda er gengin

skal gjamma og kippa í strenginn.

Af athyglisskorti

verður almyrkvasorti.

Öll mun betri en engin.

 

30.07.23

 

Fyrst ei skyldu loforðin efnd,

varð Inga og Katrínar fremd

að tryggja sér sæti

og sýna’ af sér kæti

í Bjarnaverndarnefnd.

 

01.08.23

 

Um ævi sinna ýmsu má

utan vinnuskyldum,

gleði finna, hesti hjá,

huga inn’ í mildum.

 

05.08.23

 

Margt er rammt þó renni skart

í rúmu gjálífssvelgina

og margir til sín vita vart

um verslunarmannahelgina.

 

Vill sig drífa fólkið flest,

fjaðrir ýfa, sveima,

en mig hrífur alltaf mest

einfalt lífið heima.

 

Af samstodin.is: „„Eigum við að skjóta Kára Stefánsson eða ættum við heldur að skjóta okkur sjálf?“ spyr Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona í upphafi pistils á Facebook þar sem hún ræðir bólusetningar.“

 

Ef tengdi „bróður besta“ við

í bréf ég myndi pára:

Hvort er skárra skítverkið

að skjóta mig eða Kára?

 

 

Óttinn skýr, við átök býr,

aldrei hýr í geði.

Mætti stýra hugur hlýr,

heimur dýr að veði.

 

 

Eitthvað kunnugt á sér stað,

engan vil þó styggja,

en nú er rétt að nefna það

að nokkuð fer að skyggja.

 

06.08.23

Áfram halda voðaverk Pútíns í Úkraínu:

 

Enn er hildar blóðugt bað.

Við best að skyldum hyggja

hvort eigi mildin engan að?

Undir gildin liggja.

 

07.08.23

Nú er enn farin af stað sú hlægilega umræða að Guð, Jesús, Jósef og María séu orðin undirmálsfólk sem ekki megi minnast á, a.m.k. ekki ógrátandi. Þá gleymist sú staðreynd að þessi eina fjölskylda er á ríkisjötunni, er haldið uppi af almannafé en þarf ekki að sjá fyrir sér sjálf, eins og aðrar sambærilegar þurfa að mestu. Það er misskilningur að þó nú megi tala um aðrar, og jafnvel heimila þeim að vera sýnilegar, sé slegið á putta forréttindafjölskyldunnar.

 

Á Íslandi þurfum að varast víti

og venjurnar gömlu betur rækja.

Líkt og miðaldra karlinn hvíti

á kristnin undir högg að sækja.

 

09.08.23

 

Glepur oft kremið á kökunni.

Kemur svefn eftir vökunni.

Þekkja húsbóndann má

hundinum á.

Skylt er skeggið hökunni.

 

Margur er þreyttur á masinu,

mikil sé þvælan á Fjasinu,

og birtan af skjánum

báli upp þránum

sem gutli í hálftómu glasinu.

 

12.08.23

Í hestaferð:

 

Glatt við tauma leikur Lér,

ljómi frá augum blíðum.

Um klungur vissum fótum fer

fram, á gangi þýðum.

 

Smá og fínleg ertu, Ör,

með allan rúman ganginn,

kvik í spori, funar fjör,

flýgur yfir vanginn.

 

Lofa verð ég þig nú, Þeyr,

mér þjónað hefur lengi,

fótum troðið, fyrr og meir,

fjöll og jökulstrengi.

 

Vaskleg ertu, Venus mín,

viljinn engin lurða,

feldur æ af eldi skín,

orkan mesta furða.

 

Á ferðum beitir Funi sér,

finnst ei töltið skrefabetra.

Hann er að volgna undir mér

eftir tíu kílómetra.

 

 

14.08.23

Afmælisdagur eiginkonunnar:

 

Það er kært að þakka nú
þína ást og hlýju.
Sólarmegin situr þú,
69.

 

20.08.23

 

Efst í muna alla stund,

orkubruni strangur.

Heiðin dunar, harðnar lund,

heillar Funa gangur.

 

Kappið sér á krælir hér,

á kjarki ber og þori.

Glaður Lér um foldu fer,

fimur er í spori.

 

Afreksgenin ekki fékk

alveg ren á mótum.

En ótrauð Venus óveg gekk,

ekkert slen í fótum.

 

Við hæstu línu heiðar ber,

á hesti skín í kjarna.

Á Kóngi sínum fremstur fer,

nú fer að hlýna Bjarna.

 

Fann Hrói ljóma, innri óm,

er upp á Hljóm var sestur.

Einum rómi á þann dóm;

alger sómahestur.

 

 

Svífa þrár með sólgyllt hár?

Er sæluárið bjarta?

Angra tár sem ýfa brár?

Opið sár í hjarta?

 

Arka frá ef ill er spá,

enga vá skal magna.

Leika má hvert lítið strá,

lífi á að fagna.

 

21.08.23

 

Frónar yndisfögru raust

finn í skyndi dauða.

Á sig bindur haminn, haust,

heyri vindinn gnauða.

 

 

Sumir fara margs á mis,

sér mjög að skara köku.

Aðrir spara ys og þys,

eina kara stöku.

 

 

Margt ég nam í minni sveit

sem mikið taldi vera.

Minna, síðan lönd ég leit,

læt þó á því bera.

 

22.08.23

Heilræði:

 

Það er gott að gleðja sig

við góðan heimanbagga

en ekkert fengið að fara’ á svig

við fólk úr næsta bragga.

 

Um heiminn víða urgur er,

ólík kjör má líta.

Að lokum allt að einu ber:

allir þurfa’ að skíta.

 

 

Við ánægjulegum úrslitum bjóst

og uggði hvergi að sér.

Málið virtist jafn morgunljóst

og mælist í desember.

 

23.08.23

Anna María gekk tugi kílómetra á dag í Stokkhólmi þessa dagana:

 

Ekkert stundar yfirvarp,

öðrum dæmin setur.

Sjáið þennan göngugarp!

Geri aðrir betur!

 

 

Húsnæðiseigendur:

 

Sjálfráðu fólki ei sjálfrátt er,

sjálfsögð í hópnum fækkun.

Ásgeir stjórnar stráfellisher

með stýrivaxtahækkun.

 

24.08.23

 

Lífs ef stranga röst ég ræ,

rok í fangið kenni,

hvergi banginn, fiðring fæ,

frjáls um tangann renni.

 

 

Af samstodin.is: „Erum við kristin þjóð? spyr prestur af meðferð á hælisleitendum“

 

Afli beitt og ýtt úr stað,

enn skal manninn reyna.

Samúð þrotin, þrengir að,

„þú veist hvað ég meina“.

 

Erum við kristin? spyr klerkurinn,

og kemur með svarið:

„Varla, það er nú verkurinn.

Og vitið er farið.“

 

25.08.23

Heilræði:

 

Undirbýrðu svanasöng?

Þá sjálfsagt er til bóta

að dunda við það dægrin löng

að dilla sér – og njóta.

 

Ef þig leikur gaman grátt,

sem grefur um, til róta,

að láta sér um finnast fátt,

er farsælast til bóta.

 

Sagt er að lífið sé ljúft,

jafnt lárétt sem hornrétt og kúpt,

hringlaga, flatt,

ferkantað, bratt.

(Djöfull var þetta djúpt).

 

„Vertu nú maður að meiri,

þú meta þarft verðleika fleiri“,

konan sagði við Jón.

Hann sendi’enni tón:

„Ha? Í þér ekkert ég heyri“!

 

 

Nói var seigur í nartinu

og naut þess að hringla í skartinu.

Ofan í kaupið

kláraði’ ei hlaupið,

aleinn stóð eftir í startinu.

 

 

Með sameiginlega sýn,

og samhæfing einkar fín.

Blesi og Mummi.

Rannveig og krummi.

Pútín og Prígúsjín.

 

Af dv.is: „Bjarni boðar hagræðingu í ríkisrekstri – Uppsagnir ekki útilokaðar“

 

Núna ekkert annað stoðar

en að lækka kostnaðinn.

Hagræðingu Bjarni boðar,

nú bara fóðrar pabba sinn.

 

 

Íhaldið í Kópavogi afhendir verðmætt og eftirsótt byggingarland útvöldum verktökum:

 

Íhaldinu’ er ekki rótt,

því ógna mannvalsflúðirnar.

Á Kársnesinu fyllast fljótt

fyrirmannabúðirnar.

 

26.08.23

Innborgun í Gleðibankann:

 

Sólskin! heilagt og signt,

suðvestan gola og lygnt,

en Gleði- innborgun

fékk -bankinn í morgun!

Haldið ‘ann haf’ ekki rignt?

 

Af visir.is: „Hildur Björk ráðin forstöðumaður markaðsmála og upplifunar hjá VÍS“

 

Margt er sér til gamans gert,

því get þess hér, til upprifjunar:

Þér finnur það sem er framtaksvert,

forstöðumaður upplifunar.

 

27.08.23

 

Sælan liðin sumri hjá,

söngvakliður þagnar.

Héðan sviðið haustið á,

húmið niðinn magnar.

 

28.08.23

Hálendismiðstöðvar í Þjórsárdal og Kerlingarfjöllum:

 

Íslendingar í ógöngur ramba

með öræfahelgispjöllum,

ryðjast nú yfir Rauðukamba

og raðnauðga Kerlingarfjöllum.

 

Af visir.is: „Segir Bjarna blóðmjólka eldri borgara“

 

Sjá Engeyjarsálusorgara

og í sjóðum ríkisins dorgara!

Vor óvinur svarni

og ódráttur, Bjarni,

sem blóðmjólkar eldri borgara.

 

30.08.23

„Þetta sagði ég ykkur“

er nokkuð sem mætti flokka til eftiráskýringa. Samt er það ljóst að margir vöruðu við ágengri tangarsókn sjókvíaeldis í íslenska firði. Með sérstökum talsmanni úr pólitíkinni, manni sem nauðþekkir alla launstíga stjórnsýslunnar, soginn beint út úr innstu og myrkustu afkimum íhaldsins, var tónninn sleginn. Og þegar erlendir auðhringar skutu upp kollinum, hver af öðrum, var ALLT sama kerfið fram komið eins og notað er við undirbúning náttúruspjalla stórvirkjana (t.d. Kárahnjúka): Spilltir pólitíkusar, erlent auðmagn, fyrrverandi sveitarstjórnar- og/eða Alþingismenn í launuðu skítverkin.

 

Einkaframtakið og auðvaldið lætur nefnilega ekki að sér hæða: það valtar yfir náttúru, fólk og fénað, blóðmjólkar og brýtur hvaðeina til mergjar, samviskulaust þar til eftir stendur geld auðnin en arðurinn kominn eitthvert á órekjanlegt afland.

 

Allir sem hafa heila brú í hausnum vissu þess vegna að rándýrslegt æðið í sjókvíaeldi myndi hafa þær afleiðingar sem strax nú eru að koma í ljós, fyrr en jafnvel marga grunaði.

 

Og þjóðin horfir á sama tíma skelfingu lostin á næstu árás, á hálendisperlurnar verða bráð hrægamma, sk.“ferðaþjónustufrömuða“, sem í raun bjóða ekki upp á neina þjónustu, heldur bara arðrán og spillingu, eyðileggingu ómetanlegs lands og þjóðlenda, fyrir silfurpeninga í eigin vasa.

 

Og þetta er í boði Vg. Hver hefði trúað því fyrir svo sem sex árum?

 

Þegar náhirðin nær sér á skrið,

vort nauðmjólkar auðlindasvið,

og reiknar til virði

vatn, land og firði,

þá þarf ekki vitnanna við.

 

 

Innheimtufyrirtækin borga sér arð:

 

Fólk liggur á göngum á „Lansanum“

og langþreytt er þjóðin á vansanum

sem blasir hér við.

Allt veltur á hlið

en þeir brosa í innheimtubransanum.

 

31.08.23

Svandís leyfir hvalveiðar, séu hvalirnir drepnir frá réttu sjónarhorni:

 

Svandís var nú kveðin í kút,

keik hún vakti’ yfir smáu

en hefur strokað alveg út

atkvæðin síðustu, fáu.

 

Langreyðar tel, þegar líður frá,

lengi sér við það orni

að velferð er skýr, aðeins skjóta má

með skutli frá réttu horni.

 

Margur hefur farið flatt

í fylgd með valdaþránni,

þá ákaflega gengur glatt

að gleyma stefnuskránni.

 

01.09.23

Enn eitt samráðsmálið í fréttamiðlunum:

 

Samstarf er aldrei til saka

og „samtalið jákvætt að taka“.

Er Samskip það stunda,

og með Eimskipum funda,

samræður bætur þeim baka!

 

 

Gul viðvörun frá veðurstofunni vegna komandi lægðar:

 

Gekk yfir landið ein lægð

sem lék sér við birkið með hægð.

Það kom örlítil skvetta,

fátt annað að frétta,

verður fræg fyrir annað en frægð.

 

 

Heilræði:

 

Lygin er lævís og grá

og lifir spillingu á.

Gegn tötri því arna

skal taka til varna

en ekki forða sér frá.

 

02.09.23

Útgáfa Æviskeiðs, starfssögu föður míns, Þorkels Bjarnasonar hrossaræktarráðunautar, er á lokametrunum.

 

Þorkel, allt hans æviskeið,

átti gæðings blossinn.

Þráðurinn á lífsins leið

lá í gegnum hrossin.

 

 

Heilræði:

 

Margt er vert að minnast á,

meiri skoðun þyldi,

annað liggja alveg má

æ í þagnargildi.

 

Þegar sagan fór á flug,

fiðruð í tjörubaði,

fjölda manns kom fyrst í hug

að fylgj’enni úr hlaði.

 

Veðrið:

 

Heldur er Kári að hægj’ á sér,

honum þrotinn kraftur,

en eflaust grána gaman fer

ef geiflar hann sig aftur.

 

Skorti mig í andann ið,

var orðinn frekar stúrinn.

Beintengingu vindinn við

vakti hjólatúrinn.

 

Þetta er orðið ansi gott,

aðrar lýsingar spara.

Húsið fékk sinn helgarþvott

en haustlægðin neitar að fara!

 

10.09.23

Yfirleitt er ekkert boðlegt í sjónvarpinu:

 

HM í körfu er kærkomin bót

á kvalræði þunnu.

Þetta var alveg þrusumót

og Þjóðverjar unnu.

 

11.09.23

Heilræði:

 

Meðan leiði ágætt er

enginn leitar naustsins.

En hvar er falið í kafi sker?

Hverf er blíða haustsins.

 

 

Stefnuskrá athafnamanns.

 

Ef áætlun öll fer á hlið

ekki um mikið þá bið,

bara aðgang, í hljóði,

að almannasjóði

og samráð, að íslenskum sið.

 

 

Fyrir kappann lítið leggst

sem leikur tveimur skjöldum

og víst að augað gests er gleggst

á gert, sem ágætt töldum.

 

 

Eldislaxar um allt í laxveiðiám fyrir vestan og norðan:

 

„Engu verður af mengun meint,

en margfeldisáhrif í ‘býunum’.

Við ábyrgjumst það alveg hreint

að ekkert sleppur úr kvíunum“.

 

Eitthvað þurfum á vorn disk

og ‘Arctic’ getur boðið

að háfa úr ánum eldisfisk

með afar lúsugt roðið.

 

 

Heilræði:

 

Landið öllum getur gnótt

gefið, smjör og rjóma.

Að undanskilja er aumt og ljótt,

engum neitt til sóma.

 

13.09.23

Þegar haustið er farið að minna okkur á að veturinn er innan seilingar má ylja sér við liðna sæludaga með hlýindum, litaskrúði og fuglasöng:

 

Loftið ómar, veröld vær

vaggar blómum fríðum.

Sólin ljómar, sunnanblær

syngur rómi þýðum.

 

Haustið tínir húmið í,

hverfur fíni ljóminn.

Aflið sýnir enn á ný,

aðeins brýnir róminn.

 

14.09.23

Bjarni Fel. er látinn:

 

Á skjánum með sitt þýða þel,

þjóðargoðsögn hiklaust tel

ljónið rauða,

í lífi sem dauða.

Blessuð sé minning Bjarna Fel.

 

15.09.23

 

Mætti ég breyta betra til

broguðum okkar heimi

myndi fyrst horfa undir il

aumu Katrínar teymi.

 

 

Morgunblaðið lepur upp hommafóbíuna og er farvegur hatursorðræðu:

 

Ganga timbrið gaurar í

grannir jafnt og sverir.

Enginn bölvar yfir því,

eins og fara gerir.

 

Saman leiðast sælu í

svartir, gulir, hvítir.

Aulinn hneykslast yfir því,

þá „öðruvísi“ grýtir.

 

Enn þó sendi út á ný

auma kveðju, Mogginn,

skinni sínu uni í

öll, og veri roggin.

 

16.09.23

 

Misjafnt er mannanna lánið.

Er minnsta von að þið skánið,

þið níðinga fjöld

með fordómaskjöld?

-Homminn, kvárið og hánið.

 

19.09.23

Mynd stolið af Fjasbók, frá Gúsaf Gústafssyni á Patreksfirði:

 

Margur vill bergvatnið brúka,

baða sig, drekka og kúka

en helvíti hart

og hugnast mér vart

þegar fossar til himinsins fjúka.

 

25.09.23

 

Tekin við er tíðin sú

sem tíðindi með sér ber.

Fremur hvasst, og hangir nú

hauströkkrið yfir mér.

 

 

Sóley okkar er tvítug í dag, hvorki meira né minna. Hún er fjarri afa og ömmufaðmi, flogin út í hinn stóra heim á vit ævintýra og framhaldsnáms.

 

Stefnir upp á efstu brún,

eigin fylgir línum.

Allan lagðan hefur hún

heim að fótum sínum.

 

29.09.23

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir skrifar átakanlegan leiðara í Heimild dagsins um meginumfjöllun blaðsins, sem er einmanaleiki og „einmana dauði“. Þjóðfélag, og heimur, þar sem stjórnvöld hafa látið félagsleg gildi fara sífellt halloka fyrir einstaklingshyggju og gróðafíkn er óhuggulegt og ómennskt. Dropinn holar steininn og látlaus afsiðun holar samfélagið.

 

Hvað ef enginn þér ann?

Til einskis kveikur þinn brann?

Lengi, lánsnauður,

liggur þú dauður?

„Einveran öskrar á mann“.

 

01.10.23

Anna María fór með mig í þjóðgarðinn:

 

Logn og blíða, logar umkring litadýrðin.

Ljúft um vanga leikur kyrrðin,

líður frá mér hversdagsbyrðin.

 

05.10.23

 

Var úr kallað vetrarhrepp,

vindagjalli hrjúfu?

Ingólfsfjall í skyndiskrepp

skartar mjallarhúfu.

 

Leikarinn var seinn á svið,

sumars hafði gætt,

því varð nokk’ra nátta bið

en nú er haustið mætt.

 

06.10.23

„Þér skal verða bundin við hundsrófuna ryðguð pjátursdós“, sagði ráðherrann Áslaug um Svandísi, félaga sinn í ríkisstjórn, við vini sína í útgerðaraðlinum:

 

Það skal ekki við þóf una.

Vel þekkt er bit eftir tófuna.

Smjöri má klína

á köttinn, og pína,

og hengia dós í hundsrófuna.

 

 

Tíminn líður og vinnuvikan hverfur út um gluggann:

 

Jörð í hringi, fræðilega, fer,

ég fyrir því er svagur,

því furðar mig að eiginlega er

alltaf föstudagur!

 

09.10.23

 

Flestar stundir fyrirtak,

fátt er bundið trega.

Ef er lundin breitt með bak

allt blessast undarlega.

 

10.10.23

 

Heldur undan halla fer,

hefst þá stundarfriður.

Viðbrögð grundar Varðarher,

fá varg ei bundið niður.

 

 

Bjarni Ben. sagði af sér sem fjármálaráðherrra eftir að álit Umboðsmanns Alþingis, um lögbrot hans við sölu Íslandsbanka, var birt. Bjarni sagðist ekki sammála niðurstöðunni en hygðist una henni, þó hann væri alsaklaus og með „hreina samvisku“:

 

Þegar hreina sagðist sjá

samvisku, að vonum,

sýndist nokkuð ólag á

augunum í honum?

 

Katrín Jakobsdóttir var afar ánægð með Bjarna vin sinn og taldi hann „gera hárrétt“:

 

Katrín taldi ekkert að

útsölu hjá Bjarna.

Hittir nú í hjartastað,

hennar leiðarstjarna.

 

Helvítið atarna.

 

13.10.23

 

Talsvert oft í sumar sá

sól, en þess er borgun

að virðist ljóst að von er á

vetrarfærð á morgun.

 

Sjáfsagt er nú, sýnist mér,

seint að skipt’ um dekkin.

Slæmt er það, en slóðaher

sleppi þó með skrekkinn.

 

14.10.23

Trillukarlar, sem vilja breyta kvótakerfinu eru ekki á vinsældalista Alþingismanna. Magnús Jónsson, fyrrum Veðurstofustjóri talaði í gær á fundi um villigötur Hafrannsóknastofnunar og lýsti því að fyrr á árum hefði honum verið hótað eftir að hann gagnrýndi kvótakerfið, og þá hefði hann hætt að tjá sig um þetta málefni:

 

Vísindin niður vilja slá,

vagga til og hagga.

Tókst svo íhaldsþrælum þá

að þagga nið’r í Magga.

 

 

Ástandið í Palestínu er hörmulegt. Skelfilegt stríð hefur enn einu sinni brotsist út:

 

Bjart er yfir Betlehem,

blossar kröftug sprengja.

Börnin tætt í blóðugt krem

byssuóðra gengja.

 

 

Ómar Bjarki Smárason, skaffaði mér nýyrðið – og tilefnið:

 

Bjarniben fært upp á fat

úr fjárhirslum ríkisins gat

og seldi í banka.

Þá sat í hans þanka

eingöngu „arfsemismat“.

 

16.10.23

Ríkisstjórnin kynnti stólaskipti eftir stíf fundahöld á Þingvöllum um helgina:

 

Með sprota klappliðs Katrín fer,

Kolbrún fagnað getur,

Bjarni hrókar sjálfum sér,

Sigurði líður betur.

 

17.10.23

Það þarf siðaskipti í íslenska pólitík, ekki stólaskipti. Ríkisstjórnin er míglekt, stefnulaust rekald:

 

Byttan er lúin og lek,

á lyginni flýtur, við rek.

Enginn vill ausa,

allir að rausa,

þorrið allt siðferðisþrek.

 

21.10.23

 

Lífs úr kröggum leysa vil,

létta föggur mínar.

Ama snöggur úr því myl,

í mér töggur fínar.

 

Eftir göngu dagsins á Þingvöllum. Alltaf sama útsýnið en mismunandi litir, ljós og skuggar.

 

Alltaf, sama útsýnið,

ergi sálar huggar.

Gæla litir lyndið við,

ljós og hljóðir skuggar.

 

22.10.23

Hvað mesta skemmtunin síðustu vikuna voru ummæli nýja fjármálaráðherrans um þá ætlan að fara vel með annarra fé.

 

Bjarnreykfjörð úr sér breiðir,

í bönkunum tekur ei hlé.

Efnast klíkan sem eyðir

annarra manna fé.

 

24.10.23

 

Náttúran fæðir og elur oss,

umvefur lífið og dauða.

Lyftir andanum fagur foss,

fannbreiða, haustlyngið rauða.

Þarf samt að bera kvalakross

kúgarans hugmyndasnauða

sem gengur stöðugt á hennar hnoss.

Hol eru augu þess kauða

sem jörðinni gefur Júdasarkoss,

jafnar um, skilur við auða.

 

27.10.23

Ort í göngutúr uppi í Laugarvatnsfjalli.

 

Haustblíðan hressir og kætir.

Hjartað minninga gætir.

Um hagana heima

vill hugurinn sveima.

Laugarvatn lífsgæðin bætir.

 

30.10.23

Afstaða íslenskra stjórnvalda til þjóðarmorðs á Palestínumönnum:

 

Íslenska barnagælan

 

Er réttur borinn fyrir borð

barna sem gæsku þrá?

Þá segir maður ekki orð,

aðeins situr hjá.

 

Er framin eru fjöldamorð

og fantast börnum á

segir maður ekki orð,

ennþá situr hjá.

 

 

09.11.23

 

Víða nú hart er í heimi.

Helför opnu í streymi.

Bláa lóninu lokað.

Ekki’ á Lágheiði mokað.

Er eitthvað í gangi sem gleymi?

 

10.11.23

Heimildin #029, bls. 4:

„Eitt líkhús til sölu og annað „sprungið““. Smári Sigurðsson „segir kirkjugarðana hafa verið í nauðvörn síðan 2006, þegar þeir hættu að rukka notendur um líkhúsgjald.“

 

Innheimtan lítið hafði hald,

í húsum þó vart við slæðing.

Fyrst látnir greiða ei líkhúsgjald

er lausnin einkavæðing.

 

15.11.23

Ekki lengi þarf að þinga,

á þjóðarmeinum ber að stinga.

Að heiman jörð vill þá nú þvinga

en þétt við styðjum Grindvíkinga.

 

16.11.23

 

Til botns í læknum bráðum frýs

og bratt til næstu grasa:

Þraut ef undir þorpi gýs.

Þjóðarmorð á Gaza.

 

19.11.23

Ganga dagsins, Anna María „að finna sig í fjöru“. Það er sem sagt víðar hægt en á fjöllum og öræfum.

 

Gott er í fjöru að finna sig,

fjöndum sínum þar mæta,

andann færa á æðra stig,

eigin verðleika gæta.

 

20.11.23

 

Fægir glys í gríð og erg.

Gjall í sæti háu.

Meinlaus dropi molar berg,

mikið vex af smáu.

 

 

21.11.23

 

Ákafri hríð mig undan bar,

að aftan, framan, frá hliðunum.

Snöggt upp á lagið veðrið var

og varla stætt í hviðunum.

 

22.11.23

 

Í haust var veðrið að vonum.

Nú er vetur, með Ýli og sonum.

Eftir ár út um geim

kominn aftur er heim

en það er einhver hundur í honum.

 

24.11.23

 

Úr hverju’ ertu gerður?

Engu gagnlegu skerður?

Af vitsmunum ríkur?

Veistu, sem slíkur,

hvað var, er og verður?

 

 

Mætti gjarnan mér til þægðar meitla’ í stöku

það að skylt sé skeggið höku

og skynji mun á svefni’ og vöku.

 

Morgunroðans merlar glóð á mararfleti.

Það er eins og einhver éti

afganginn af hráu keti.

 

Mildi tel á mörgum konum manns sé bragur,

öllum sýnist fugl sinn fagur

og fylgi hverri nóttu dagur.

 

25.11.23

Ort í göngu í Þjóðgarðinum:

 

Snjór, en alveg furðugott færi.

Í fjallalofti sálarskarnið næri.

Skynja’ ‘inn andlega seim.

Þegar ekið er heim

með vísnagerð ég vitsmunina hræri.

 

27.11.23

 

Mér er hulin stefna’ og stígur

um stórafrekagil

en að tíminn áfram flýgur

ágætlega skil.

Eins að þegar ein kýr mýgur

aðrar hlaupa til

og ef maður að mér lýgur

ekki sorpið hyl.

 

Þó margur sé á velli vígur

vel, það ekki dyl

að engum dugar ófriðsrígur,

andróður í byl.

Er að lokakaflans lestri sígur

er ljúft að finna yl,

þá ást sem hjartað inn í smýgur,

ekkert fleira vil.

 

02.12.23

 

Morð og hungur hjartað sker,

að heimur börnum vildi.

Margt um hug í hending fer.

Hvert er lífsins gildi?

 

03.12.23

 

Í huga mætti birtast bráðum

bjargleg vísa.

Að því vinn, með öllum ráðum,

upp að rísa.

 

Á því varla hef nú hendur

hvað því veldur.

Eg er bara eins og stendur

alveg geldur.

 

 

Aðventan heilsar, með örlítið fjúk,

íslenskt hráslagaveður.

Breiðir á jörðina drifhvítan dúk,

deplóttum útsaumi meður.

Útsýnið fangar, fjalla- á hnjúk,

fögur náttúran gleður.

 

04.12.23

 

Gleðjast yfir mörgu má

er minnist fyrri tíðar,

í farteskinu einnig á

aðrar glímur stríðar.

 

Í lokaúttekt samt vil sjá

„sumartölur“ þýðar

og meðaltalið mætti þá

mjakast upp í „blíðar“.

 

Fæ ég yl úr æviskrá

eða bylji hríðar?

Útkomuna ætla’ að fá

um að dæma síðar.

 

08.12.23

Ástin þín

 

Einhvers staðar inni‘ í mér

alltaf ljómar mynd af þér.

Þar gælinn hvarmageisli skín

og glaðleg ómar röddin þín.

 

Og daga þá er dimmir að

og drunginn ríður með í hlað,

þá ég veit, umvefur mig, ástin þín.

 

Því hún er sterk. Hún er hlý.

Hún huga mínum tendrar í.

Mér vakir yfir, velur öll, sporin mín.

 

Til hvers er lífið, laust við ást,

ef lítinn tilgang í því sást?

En ef vonin vakir, má

vanda öllum sigrast á

 

því daga þá er dimmir að

og drunginn ríður mitt í hlað

þá ég veit að vefur mig, ástin þín.

 

Því hún er sterk og hún er hlý,

hún hjarta mínu kveikir í,

mér vakir yfir, verndar öll, sporin mín.

 

09.12.23

Við Anna María, afi og amma, vorum við skírn Loga Arasonar í dag í Hlöðunni í Eyvindartungu, og Ari og Rebekka Rut buðu í glæsiveislu að athöfn lokinni. Hnoðaði í erindi handa honum. Svo hittist á að nafninu má skipta inn í fyrstu hendinguna, án þess að raska stuðlasetningunni:

 

Ljómar ára litla bróður,

lífið blasir við.

Umvafinn, svo undur góður,

óðar kemst á skrið.

Hjá föður sínum, í fangi móður,

fær sín ævigrið

og ljúfust systir léttir róður,

hann leiðir sér við hlið.

Vex og dafnar sálarsjóður

við sinnu, ást og frið.

 

10.12.23

Útvarpsstjóri vildi vísa Rússum úr Júróvisjón fyrir Úkraínustríðið en ekki Ísrael fyrirþjóðarmorð á Gasa:

 

‘Þvottinn’ við þurfum að flokka

og þarfaforganginn stokka,

lit lífinu ljá.

Í leiðinni má

skipta um siðferðissokka.

 

16.12.23

„Ráðherrum gert að segja satt og bannað að nota aðstöðu sína í eiginhagsmunaskyni“ var fyrirsögn í fjölmiðli:

 

Nýjungarnar ganga ei svo glatt

í gegn, þó margt þær bæta teljist

og augljóst mál að það er býsna bratt

að búast við svo góðir kostir veljist.

Ef ráðherrum er gert að segja satt

í sálinni er víst að ekki kveljist,

en hætt er við að fari á því flatt,

og fyrir lítið æra þeirra seljist.

 

22.12.23

Jólakveðja 2023

 

Þó láti glatt, um greiðan veg í skjól,

þín gengin spor

er ferðalagið engum aðeins sól

og eilíft vor

en mörgum tamt að tefja lítið við,

að týna sér í fjöldans raddaklið.

 

Er unum sæl við stundarglys og glaum

við gleymum því

að ljósi, sem þarf aðeins lágan straum,

ei lifir í;

því heimsins gæðum gjarnan rangt er skipt

svo gleði, von og lífi fólk er svipt.

 

Ég finn í hjarta sorg og sinnuskort,

já, sáran sting,

þó gæfan hafi margan óðinn ort

mig allt um kring.

Er borin von að trúin flytji fjöll,

að flærð sé eytt, í kærleik lifum öll?

 

            (Lag: Lýs milda ljós … e Matthías Jochumsson)

 

 

Kvöldmaturinn undirbúinn:

 

Nú skal steikja nýjan fisk,

í náðan beint úr frysti.

Í mér magnast mikil lyst,

magaspikið hristi.

 

24.12.23

Visir.is á aðfangadag jóla: „Tvö hundruð Palestínumenn fallið síðasta sólarhring“:

 

Heims um ból er hátíðleg

helgidagatörn

að arka miðjan „manndómsveg“

og myrða fleiri börn.

 

Fréttin og fyrirsögnin hér fyrir ofan leiddi til eftirfarandi hugleiðinga:

 

Bítur frostið, bjartan himin baðar sólin.

Jörðin fór í hvíta kjólinn.

Koma bráðum heilög jólin.

 

Er ást og friði fagna saman fjölskyldurnar,

að vonir séu upp- nú urnar

ekki gott er til afspurnar.

 

Ef að gæti áhrif haft og eitthvað lagað,

myndi’ á annan hátt því hagað

sem hefur mannkyn lengi plagað.

 

Víða’ er skertur vilji lýðsins, vonin köfnuð.

Tölum burt hvern tröllasöfnuð,

tryggjum frelsi, velferð, jöfnuð.

 

25.12.23

Það var þæfingur og stinningskaldi á Fjörustígnum en fallegt „gluggaveður“. Þar gengum við hjónin fram á Björn Inga Bjarnason, forseta Hrútavinafélagsins og Ljóðaseturs Litlahrauns, á seinni göngu dagsins. Hann vakti athygli okkar á því hvernig algleymið umvefur fólk á stíg þessum, og vísaði í veðurfréttatímana, hvernig veðurlýsingar fræðinganna, gæfu tilefni til orðaleikja („stöku skúr“ / stökuskúr). Mér fannst tilvalið að nýta þetta tækifæri og sendi Ljóðasetrinu eftirfarandi:

 

Stefnir að mér stöku skúr

stuðla hröngli meður,

höfuð stöfum ýrir úr,

af því hef nú veður.

 

26.12.23

Fréttir bárust af því að lögreglan hefði handtekið þeldökkan mann á förnum vegi, íslenskan ríkisborgara, og fært í fangageymslur, vegna þess að hann var ekki með skilríki til að gera grein fyrir sér:

 

Löggan með löghlýðnigreininn,

læknar öll þjóðfélagsmeinin.

Þegar hún fann

þeldökkan mann,

hún stakk honum óðar í steininn.

 

27.12.23

Fyrirsögn á visir.is, frétt unnin úr dagbók lögreglunnar: „Hafði tvívegis hægðir í húsasundi“.

 

Laganna verði er löngum við búið

við leggjum á dómhörkuvigtina.

Að uppræta ranghegðun reynist oft snúið,

þeir renna samt oftast á lyktina.

 

 

Margan góðan man ég dag,

í minni sjóður digur,

þæfingsslóða, þröngan hag,

við þungan róður sigur.

 

31.12.23

Áramótakveðja ’23 – ’24

 

Vélabrögð af verstu sort í veröldinni

vekja núna sorg í sinni,

sé ei von að þessu linni.

 

Áralöng er óöldin í Úkraínu.

Þrælahald, við þurft og pínu.

Þjóðarmorð í Palestínu.

 

Starað. Tekin staða gegnt og steyttir hnúar.

Hvergi millibilið brúar

barnamorð, í nafni trúar.

 

Skinhelgin er skelfileg í skertum heimi.

Sem sig á asnaeryum teymi

yfirvöld, og siðum gleymi.

 

Er þá bara ekkert fyrir oss til ráða?

Horfa upp á aðra smáða?

Undan líta? Hunsa þjáða?

 

Stórt er spurt! En stöndum upp, og staðföst munum:

Þessu líku aldrei unum!

Hið eina svar við spurningunum.

 

Heimsins lýður hamingju og heilsu njóti.

Mitt nýársheit: Að mæla móti

meinsemdum, þó að skammir hljóti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *