Austurleitarvísur

Fjallferð Austurleitar á Grímsnesafrétti

 

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,

um birkihlíðar, bratta stalla,

bunulæki, gil og hjalla.

 

Hófasláttinn herða má við háar brúnir

Hrossadals, í friðinn flúnir

fjallmenn, samt við öllu búnir.

 

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.

Um hvað rætt þó engan varði,

og eitthvað lækki pelans kvarði.

 

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.

Faðma allan fjallasalinn.

Fegurst þessi afrétt talin.

 

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.

Jafnan farið seint að sofa

og sungið eins og raddbönd lofa.

 

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:

Þú berar úti bossann hvíta

og bakkar inn, til þess að skíta.

 

Aftur sama aðferð þegar út er farið;

á hækjum sér, með höfuð marið

og helgidæmið allt óvarið.

 

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.

Kargaþýfð og löng er leiðin.

Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

 

Fyrst skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.

Flæðir þaðan mosinn mjúki,

móðir jörð sem þakin dúki.

 

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.

Það augum kastar, ansi brellið,

yfir hraun og jökulsvellið.

 

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.

Tign er yfir Tjaldafelli

sem tekur undir smalans gelli.

 

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.

Þangað ekki þarf að ríða

þó að sjáist „kindur“ víða.

 

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.

Spariklæðum fjöllin flíka.

Fegurð sem á enga líka.

 

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!

Eins og hafi hægt sér tröllin

á harðaspretti suður völlinn.

 

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga

enda tröllin oft að plaga

iðrakveisur, forðum daga.

 

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar

sem blá af kulda bráðum neitar

að bíða komu Vesturleitar.

 

Öræfanna úti brátt er ævintýri.

Kveður fjallaheimur hýri

er heilsar smölum Kringumýri.

 

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.

Jafnan ber þar vel í veiði,

vænir dilkar á því skeiði.

 

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!

Þokkalegur, þessi fjári,

en þeginn vel á hverju ári.

 

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,

í skinni brennur brátt hver kjaftur

og bíður þess að fara aftur.

 

Birtist áður í Hvatarblaðinu, málgagni Umf. Hvatar í Grímsnesi, sept. 2013

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *