Bærinn brennur – og sagan rennur

Bærinn brennur

Síðasta aftakan á Íslandi

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir

JPV útgáfa, Reykjavík 2021

 

Bærinn brennur fjallar um Illugastaðamorðin 1828 og afleiðingar þeirra, þar sem í brennidepli eru síðustu aftökurnar á Íslandi. Þetta er sagnfræðilegt rit, þar sem unnið er upp úr mörgum og mis–jöfnum tiltækum heimildum. Höfundur rekur skilmerkilega traustustu heimildina, dómsskjölin sem öll liggja fyrir með lýsingum sakborninga og vitna á atburðum og ástæðum þeirra. Einnig rekur höfundur ítarlega frásagnir „sagnamanna“ af þessum atburðum, ber þær saman og sagnirnar við fyrirliggjandi staðreyndir úr dómsskjölum. 

Bókin er skrifuð í minningu Eggerts Þórs Bernharðssonar, sem lést 2014, og tileinkuð honum. Eggert var eiginmaður Þórunnar Jörlu. Hann var líka afkomandi Guðmundar Ketilssonar, bróðurThis image has an empty alt attribute; its file name is Baerinn-brennur-2-864x1024.jpg Natans þess er myrtur var á Illugastöðum, ásamt Fjárdráps-Pétri, sem staddur var óforvarindis á bænum þessa örlagaríku nótt í janúar 1828.

Bókin „var skrifuð til að koma tryggari heimildum á framfæri og leiðrétta það sem hægt var í frásögn sagnamanna“ (324). Eggert hafði unnið að því alllengi fyrir andlát sitt að safna heimildum um þennan atburð, því honum sveið, skv. höfundi, að sitja undir sögusögnum um að Guðmundur Ketilsson, forfaðir hans, hafi af hefndarþorsta tekið að sér hlutverk böðuls er morðinginn Friðrik Sigurðarson, og samverkakona hans, Agnes Magnúsdóttir, voru hálshöggvin á Þrístöpum 1830. 

Það verður að segja það eins og það er að eftir lestur þennan er maður mun upplýstari um atburði en verið hafði. Hér er sagan skilmerkilega rakin upp úr marktækum heimildum, en jafnframt varpað ljósi á það hvernig munnmæli og frásagnarlistin skapa sinn eigin veruleika. „Hryllingurinn smaug inn í hug alþýðu, sögur fóru á kreik og komust í bækur“ (307). Helstu skriflegar heimildir, fyrir utan dómskjöl, eru frá Tómasi Guðmundssyni í Miðhópi, Brynjólfi Jónssyni á Minna-Núpi, Gísla Konráðssyni og Espólín. Frásagnir þeirra eru að sumu leyti samhljóma, jafnvel byggðar hver á annarri, en stangast á í öðru, eins og slíkra frásagna er siður. Þá er og að minnast á sögu Hönnuh Kent, Náðarstund, sem ég las fyrir nokkrum árum, og kvikmynd Egils Eðvarðssonar, Agnes, frá1995, sem kannski hafa haft mest áhrif á hugmyndir almennings í nútíma um þessa hörmungarviðburði.

Ekki verður efni bókarinnar rakið hér, best er að hver lesi hana fyrir sig, það er þess virði. Þó er rétt að segja að það kemur þeim er hér skrifar nokkuð á óvart að uppgötva það hve mikill óþverri Friðrik Sigurðarson í Katadal hefur verið. Siðblindur þjófur, dýraníðingur, lygalaupur – og morðingi. Því er það merkilegt að tekist hafi að gera úr honum nokkurskonar píslarvott og hetju. Það er vel rakið í bókinni hvernig Jóhann Tómasson, og fleiri prestar sem umsorguðu Friðrik á Þingeyrum fyrir aftökuna, gerðu í því, í anda trúfræði þess tíma, að sannfæra alla um kristilega umbót sakamannsins; það var lykilatriði frá guðfræðilegu sjónarhorni að hann hafi sanniðrast gjörða sinna og beygt sig undir náð guðs og falið sig honum á vald. Ekki færri en þrír prestar höfðu þann starfa að snúast í kringum Friðrik síðustu vikurnar til að hugga illmennið, sannfæra það um guðlega forsjón og veita náðarmeðulin. Nákvæmar lýsingar eru og í öllum þessum ritum á ferð hans að aftökustaðnum, hegðun hans þar og hetjulegum viðbrögðum síðustu andartökin. Þetta allt er í upphöfnum helgisagnastíl og stangast að einhverju leyti á við traustari heimildir, t.d. í bréfum Blöndals sýslumanns á Hvammi í Vatnsdal sem var rannsakandi og dómari í málinu.

Agnes, aftur á móti, er afgreidd hjá sagnameisturum í stuttu máli. Hún hitti einn prest, ungan og óreyndan aðstoðarprest sem hún bað um sjálf, daginn fyrir aftökuna. Lítið er gert úr henni og engar helgimyndir upp dregnar, sambærilegar og af Friðriki. Hún er geymd afsíðis meðan hausinn er hogginn af honum, sögð dauðadrukkin og hálfrænulaus, og hafi beðið um að þessu yrði lokið af í snarhasti.

Natan Ketilsson hefur verið hrokafullur spjátrungur. Ekki leikur vafi á því að hann beitti Sigríði Guð-mundsdóttur, nýfermdri vinnustúlku, kynferðislegu ofbeldi í nafni „húsbóndaréttar“ skv. húsagatilskipun þessara tíma, og sennilega Agnesi líka – húsbóndinn átti og mátti og réði öllu á heimilinu, þannig að vinnufólkið varð að hlýða því sem hann sagði. Og eiginkonan. Og börnin. Samband Natans og Agnesar er þó að öllum líkindum flóknara og þar tengist Vatnsenda-Rósa inn í atburðarásina.

Fólk var fátækt á þessum tíma og þjófnaðir til að hafa í sig og á ekki óalgengir. Skv. heimildum var ástandið hvað þetta varðar talið hvað verst í Húnavatnssýslum. Því er ekki með öllu óskiljanlegt að fátækt og langsoltið fólk hafi stolið einu og einu lambi eða sauði, hirt lambshræ í úthögum sér til matar o.s.frv.

En lýsingarnar á framferði Friðriks fara út fyrir þau mörk sem afsaka má þannig. Sigríður og Agnes eiga sér þær málsbætur að Natan hafi farið illa með þær bæði líkamlega og tilfinningalega, hann „skammaði“ þær, þ.e. dró yfir þær skömm. Beitti þær kynferðislegu ofbeldi sem sagt. Þessi þrjú, Friðrik, Agnes og Sigríður, ásamt sauðamanninum Daníel, kjöftuðu sig saman upp í að myrða Natan. Vitandi, og mjög hvetjandi, var Þorbjörg, móðir Friðriks, og Sigurður faðir hans einnig vitorðsmaður þó ekki væri sérstakur hvatamaður að því að gera son sinn að morðingja eins og móðirin. Fjárdráps-Pétur er varla nefndur í alþýðusögnum, hann þótti ekki nógu merkilegt fórnarlamb til að hafa með í sganaminninu. Tvö kaldrifjuð morð voru framin með hamri og sveðju, og að lokum eldi, en læknirinn og hómópatinn Natan aðeins þess verður að komast í alþýðusagnir og bækur sagnamanna.

Öll þessi hlutu refsingu. Friðrik, Agnes og Sigríður öll dæmd til dauða af Blöndal. Sigríður hlaut þó náð frá öxinni en var dæmd til þrældóms í Kaupinhafn, þar sem hún lést fáum árum seinna. Þorbjörg morðingjamóðir var dæmd til 5 ára refsivistar í Kaupmannahöfn og kom heim til Íslands aftur að afplánun lokinni. Sigurður bóndi í Katadal var húðstrýktur, sem og Daníel sauðamaður. 

En sem sagt, þetta er vel skrifuð bók og fróðleg, ekki síst fyrir þær sakir að hún rekur alla þræði, bæði hin vottuðu dómskjöl og ritaðar sagnir „sagnamanna“ sem reiddu sig ekki síður á munnmæli og alþýðufrásagnalist en beinharðar heimildir. Þannig var nú það.

Hvet fólk til að lesa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *