Systa

Systa er dáin. Systa, sem alltaf var. Systa, sem stafaði af ljómi norðan úr landi. Systa, sem með brosi sínu, hlátri og hreinskiptni létti og hreinsaði allt andrúmsloft, hvar sem hún var og kom. Systa var hrein og bein. Systa var skemmtileg.

Védís Bjarnadóttir var yngri systir pabba míns. Heima var hún aldrei kölluð annað en Systa. Hún flutti ung til Húsavíkur með manni sínum, Villa Páls, áður en ég leit dagsins ljós, og fyrirThis image has an empty alt attribute; its file name is Systa.jpg  vikið mótaðist myndin af henni í hillingum fjarlægðar. Hún hringdi oft og kom í heimsóknir „heim í heiðardalinn“ sem hún unni og þær rætur trosnuðu aldrei. 

Systa og Villi. Þau voru eitt og ævinlega nefnd í sömu andránni. Aðrir geta betur sagt frá því hvað þau hafa gert fyrir samfélagið á Húsavík. En það verður alla vega aldrei mælt í neinum þekktum einingum.

Systa náði níræðisaldri, og tveimur mánuðum betur. Hún átti gæfuríka ævi. Hjónin bæði íþróttakennarar og störfuðu samhent að uppeldis og félagsmálum í bænum sínum, og raunar langt út fyrir bæjarmörkin. Börnin þeirra þrjú, frændsystkin mín, hafa öll fylgt fordæmi foreldra sinna og látið gott af sér leiða, öll kennarar sem hafa látið til sín taka, ekki bara í skólastofunni heldur í margvíslegum störfum hringinn í kringum landið – og vítt og breitt um heiminn. 

Mér er það minnisstætt þegar ég fékk 12-13 ára að fara eitt vorið með föður mínum í hrossadómaferð um Norðurland fyrir eitthvert stórmótið. Komið var til Húsavíkur og gist hjá Systu og Villa. Þar var auðvitað ekki í kot vísað hvað líkamlegar þarfir snerti. En ofar í minninu er hin hliðin, andlega næringin. Það var ekki lognmollan í kringum Systu en umhyggjan samt alltumlykjandi. Og Villi gantaðist með, á lágstemmdari hátt, brosandi út í annað með blik í augum. Okkur feðgum var vitaskuld boðið í hesthúsið og í reiðtúr á gæðingunum. Hesthúsin þá í túni í miðjum bænum. Það stafar ljóma af þessari heimsókn í minningunni.

Þegar landsmót UMFÍ var haldið á Húsavík 1987 var ég þar keppandi og við hjónin slógum upp tjaldi á keppnissvæðinu, með tvö ung börn. Um nóttina skall á þoka með vætu og kulda við frostmark. Og fyrr en varði vorum við komin inn á gafl hjá Systu og Villa. Ekki voru tjaldhælar aftur reknir í jörðu í þeirri ferð. Það er svo önnur saga að morguninn eftir var komin himinblíða, og stóð alla mótsdagana svo sem öllum er eftirminnilegt. 

Fyrir fáum árum ók ég hópi ferðamanna hringinn og komið var við í hvalaskoðun á Húsavík. Ég nýtti tímann á meðan til að kíkja til Systu og Villa. Þá var eitthvað farið að minnka þrekið hjá frænku, eftir áfall. Villi hins vegar á fullum snúningi, og er enn, kominn yfir nírætt. Það voru fagnaðarfundir og móttökurnar yndislegar eins og ævinlega. Margt var spjallað í eldhúsinu yfir kaffibolla og rjúkandi pönnukökum. Dýrmæt stund.

Systa var hlý og umhyggjusöm. En hún var líka opin og hreinskilin. Hún lét engan eiga neitt hjá sér og hikaði ekki við að „kúska fúinn kvist“ ef hún taldi þörf á því. Hún var sannkölluð kjarnakona. Blessuð sé minning Systu frænku.

Ég læt fljóta hér með kvæði sem ég orti til Systu á áttræðisafmæli hennar og mér finnst viðeigandi.

Haustdagar á Húsavík

Védís Bjarnadóttir áttræð

 

 

Haustið er komið á Húsavík

og við sjónhring

hafa Kinnarfjöllin klæðst

sinni köflóttu flík.

 

Við fjörðinn er grátt í rót

og fölnað bjarkarblað

en von um margan dýrðardag

áður vetur leggst að.

 

Golan sem í vor

kom sunnan yfir heiðar,

bæði hlý og glettin,

nostrar margt og nýtur skjóls

í litlum, þéttum lundi.

 

Eðli sunnangolu samkvæmt

aumt má ekkert sjá,

að morgni jafnan aftur andar

yl í hélað strá.

 

Getur líka tekið sprettinn,

feykt til grein

og kúskað fúinn kvist.

 

Sveipar jörð við sólarlag,

sátt við gengin spor,

þegar hafflöt hefur strokið,

faðmað kæran fjörustein

og kysst.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *