Eitt megin hreyfiaflið er gredda

Fjarvera þín er myrkur

Jón Kalman Stefánsson

Benedikt, Reykjavík 2020

 

Þetta er langhundur, það verður að segja það eins og það er, tæpar 500 síður. Það verður líka að segja það eins og það er að þessi skáldsaga hefði þolað þó nokkurn niðurskurð, a.m.k. 20% eða 100 síður til að byrja með.

Jón Kalman hefur um hríð verið minn uppáhaldshöfundur. Hann skrifar alveg gullfallegan texta og hefur vald á djúpri persónusköpun, það verður ekki af honum tekið. En það hefur verið að teygjast ansi mikið úr honum með tímanum og gæðin hafa ekki aukist í réttu hlutfalli við fjölgun blaðsíðna. „Gömlu sögurnar“ eru með öll hin betri element höfundarins, þó mun styttri séu.

Forsíðan er af girðingu, sem er táknrænt því fólk getur verið óttalegir staurar. En girðingarstaurar „halda líka öllu uppi“ og eins og í „Sumarljósi og svo kemur nóttin“ er nokkuð verið að huga að girðingum.

Þetta er fjölskyldu- og ættarsaga, samskipti kynjanna nokkurra kynslóða sömu fjölskyldunnar eru í forgrunni og flakkað milli tímaskeiða, svona 120 ár fram og til baka, án þess tímaflakkið verði nokkurn tímann truflandi.

Meginkostir þessarar sögu er persónusköpunin, næm sálfræðileg innsýn og hæfileiki til að koma líðan fólksins til skila til lesandans. Að þessu sögðu setur söguna niður í lokin, þegar höfundurinn fer að láta persónur útskýra sjálfar sig í sendibréfum sín í milli. Það hefði mátt skera allar 100 síðustu blaðsíðurnar aftan af án þess nokkuð hefði glatast af þekkingu lesandans á tilfinningalífi viðkomandi persóna.

Eitt meginhreyfiaflið í sögunni er gredda. Það er stöðug standpína í gangi, og þegar kemur að standpínu nr 50 (eða þar um bil) finnst manni jafnvel nóg komið. Vandamálið er jafnan það að karlmönnunum blýstendur til annarra kvenna en sinna eigin og konurnar hafa sömuleiðis fyrst og fremst kynferðislegan áhuga á öðrum en eiginmönnum sínum. Segja má að girðingavinnusenan úr Sumarljósi (fyrir þá sem það hafa lesið) sé hér margendurtekin, kynslóð fram af kynslóð.

Þetta er sem sagt saga forboðinna ásta. Togstreitan milli skyldunnar við börn sín og fjölskyldu annars vegar og hamingjunnar hins vegar. Hamingjan lætur ævinlega í minnipokann fyrir skyldunum og í því felst hin mikla lífsgáta og tregi.

Hinn megin kosturinn er textinn. Heilu blaðsíðurnar eru stráðar orðaperlum sem mynda samhengi djúprar málsháttavisku. Titillinn er eitt dæmi um þetta: „Fjarvera þín er myrkur“.

Það er fyrir þetta tvennt sem hægt er að ljúka bókinni, persónusköpunina og snilldartilþrif í meðferð málsins.

Vonandi verður næstu bók betur ritstýrt, eitthvað knappari, án þess þó að allar fallegu línurnar verði bútaðar í spað. Því það má auðvitað ekki.

Skrifað 8. október 2021

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *