„Jón dó … eftir sjö högg frá böðlinum …“

Uppreisn Jóns Arasonar

Ásgeir Jónsson

Almenna bókafélagið, Rvk. 2020

 

Örlög Jóns Arasonar og sona hans er án efa einn af þeim atburðum í sögu þjóðarinnar sem hvað lífseigastur hefur verið hingað til – og verður væntanlega enn um sinn, þó liðin séu rétt 471 ár frá aftöku í Skálholti 7. nóvember 1550, uppgröftur líka árið eftir, þvottur í Vígðulaug á Laugarvatni og flutningur norður til Hóla þar sem Líkaböng tók á móti líkfylgdinni með hringingu án aðstoðar mannshandar; þessi ytri rammi píslarsögu síðasta kaþólska biskupsins á Íslandi lifir með þjóðinni. 

 

Hin pólitísku og efnahagslegu átök sem leiddu til aftökunnar eru hins vegar fæstum kunn, öðrum en fræðimönnum og grúskurum. Trúarleg og menningarleg áhrif siðaskiptanna eru hugsanlegaThis image has an empty alt attribute; its file name is 20211116_175051-2-1-682x1024.jpg einhverjum nær, a.m.k. undirrituðum sem hefur starfað við bókmenntasögukennslu í framhaldsskólum lengst af starfsæfinni.

Mér var því mikill fengur að bók Ásgeirs Jónssonar, sem varpar nýju ljósi á atburði og þróun mála hér á landi á 16. öld. Það voru víst ekki bara „Spánverjavígin“ á 17. öld sem Jón lærði gerði skil í riti sínu, heldur fjöldamorð á  Englendingum í Grindavík á 15. öld og á Dönum um Reykjanes og Suðurland á þeirri sextándu. 

En þó Íslendingar hafi staðið í harðri innbyrðis valdabaráttu á sama tíma forðuðust þeir að langmestu leyti að drepa hverjir aðra, kannski lærdómur frá Sturlungaöld hafi verið bitur? Eða þetta lýsandi dæmi um inngróið útlendingahatur?

Ásgeir reynir að draga upp mynd af persónu Jóns biskups, og hans nánustu, ekki bara út frá umsögnum annarra í skrifuðum heimildum, heldur einnig með því að draga ályktanir um manninn út frá gjörðum hans og kveðskap, og tekst það bara bærilega. 

Þetta er sem sagt afar fróðleg bók fyrir óupplýsta, og ekki skemmir að hún er vel skrifuð, án málalenginga og uppskrúfaðrar fræði, og því mjög aðgengileg fyrir alþýðu manna. Mæli með því að fólk kynni sér þetta efni.

Ekki dregur svo úr gildinu að í sérstökum viðauka er veraldlegur kveðskapur Jóns Arasonar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *