Gönguferð Abbalabba (gönguhóps starfsfólks F.Su.) frá Skálpanesi, um Jarlhettur, að Einifelli, Hlöðuvöllum, á Skjaldbreið, að Kerlingu, um Klukkuskarð og Skillandsdal að Laugarvatni, lauk sl. föstudag. Skemmtileg ferð í stórbrotinni náttúru með stórbrotnum félögum. Ort á toppi Skjaldbreiðs:
Geng á háan Skjaldbreið, skoða
skíragullin fjallaranns.
Sköpun elds og ísa goða
ætíð greipt í huga manns.
Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana og setja lausnina, sem er stakt orð, íslenskt nafn, í athugasemdakerfið:
Þessi einhver styðst við staf.
Stríðinn Óðinn svörin gaf.
Skjaldborg nafni í sælu svaf.
Sést á Neti vísnaskraf.
Og efst í Klukkuskarði, þegar hver á fætur öðrum brölti upp síðustu brekkuna, með einlægt bros á vör:
Síst á Abbalöbbu lát,
lokabrattann marði.
Upp sig glennti ofsakát
efst í Klukkuskarði.