„Farðu nú varlega, ástin mín“

Þegar börnin okkar fara akandi eitthvert, t.d. hér á milli Selfoss og Reykjavíkur, segjum við gjarnan: „Farðu svo varlega“. Það er eins og mig minni líka að við höfum varað þau við að fara upp í bíla með ókunnugum, þegar þau voru lítil. Og þegar elsta barnabarnið, stórglæsileg 17 ára kjarnakona, kom sl. sumar í fyrsta skipti akandi austur yfir Fjall í  heimsókn til ömmu og afa á Selfossi, nýkomin með bílpróf og með fullan bíl af jafnaldra vinkonum, sagði ég, miðaldra, hvítur karl, ábyggilega við hana áður en hún renndi úr hlaði: „Farðu nú varlega, ástin mín“.

Ég leyfi mér að fullyrða að þessi varúðarorð – og mörg, mörg, ótalmörg fleiri af sama toga í gegnum tíðina, voru ekki sögð í þeim tilgangi að „færa ábyrgðina frá gerandanum yfir á þolandann“, ef svo skelfilega myndi henda að eitthvað hörmulegt kæmi fyrir. Það er því miður ekki öllum treystandi í umferðinni – ekki heldur öllum þeim sem bjóða blessuðum börnunum far heim úr skólanum, nú eða ævarandi vináttu og ást. Við þetta verðum við manneskjur að búa og því ágæt almenn grundvallarregla „að fara varlega“.

Undanfarið hefur allt verið á hvolfi á miðlum yfir gráhærðum, hvítum geðlækni á efri árum sem vogaði sér að segja við konur að þær ættu að fara varlega í að treysta hverjum sem er fyrir nektar- og klámmyndum af sér, því súrnað geti í samböndum og myndirnar endað á Internetinu. Sem þær því miður stundum gera. Geðlæknir þessi skíðlogar nú á vandlætingarbáli fyrir að færa ábyrgðina á slíkum myndbirtingarglæpum frá gerandanum yfir á þolandann og gott ef ekki líka fyrir að rífa niður traust, sem sé eitt það mikilvægasta í mannlegum samskiptum.

Nú veit ég ekki hvenær eðlilegt er að treysta annarri manneskju fyrir nektar- og kynlífsmyndum af sjálfum sér. En almennt séð hljóta að vera á því einhver takmörk, varla t.d. á fyrsta stefnumóti eða öðru. Hvað fólk gerir í svefnherberginu er einkamál þess og ef einhverjir telja kvikmyndun nauðsynlegan þátt í eðlilegu sambandi elskenda, krydd í kynlífið o.s.frv., þá er engra annarra að dæma eða hafa skoðun á því.

Og þó traust sé óumdeilanlega grundvöllur að góðu sambandi, þá er ekki öllum treystandi. Kannski engum algerlega, ef út í það er farið, því haft er fyrir satt að engin manneskja sé fullkomin. Konur (og karlar) hafa fengið að kenna á þessu. Þær hafa verið beittar margskonar ofbeldi í samböndum síðan sögur hófust, jafnvel eftir langvarandi, „gegnheilt og traust“ samband.

Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt og ábyrgðin á því verður ekki frá gerendum tekin – ekki einu sinni með því að biðja fólk að fara varlega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *