Gengisfall

Það eru ekki bara bankarnir okkar sem rændir voru innan frá. Smá saman er verið að hola innan móðurmálið með einhæfni og merkingarlausum frösum. Þessu verður ekki betur lýst en með því að vitna í Andra Snæ Magnason, en í smásögunni Sofðu ást mín segir hann svo:

„Peningafölsurum er hent í steininn vegna þess að þeir offramleiða peninga sem eyðileggja hagkerfið þegar gjaldmiðillinn tapar gildi sínu. En hver á að spyrna við fótum þegar gengi dýrustu orða tungunnar lækkar? Setningar eins og  „ég elska þig“ þokast sífellt nær frösum eins og „I love you“ sem hafa fyrir löngu tapað allri merkingu. „I love you“ merkir ekki mikið meira en „mér líkar alveg sæmilega við þig“ eða jafnvel „bless“ og oft „ekki neitt“. Í hvert skipti sem maður elskar að borða ís, eða maður elskar Toyotur og pizzur, þá fellur gengið og menn þurfa sífellt fleiri og stærri lýsingarorð til að tjá hug sinn. Unglingar sóa orðinu á fyrsta stefnumóti og menn prenta það á boli og loks endar það sem klisja sem er ekki eyðandi á nokkurn mann. En hvernig á maður að orða sínar dýpstu tilfinningar þegar orðið sjáflt verður merkingarlaust? Ef það er búið að slíta það úr sambandi við hjartað og tengja það í staðinn við plasthjörtu og súkkulaði. […]

Hvað gerum við ef „ég elska þig“ verður jafn lítils virði og ágætt eða sæmilegt „I love you“? Þá hefur hjartað ekkert til að nota nema úrelta mynt. […]

Amma hefur aldrei sagt þetta orð svo ég viti. Samt veit ég að það býr í henni, hún geymir það eins og gimstein, orðið skín úr augum hennar.“

Sögnin „að elska“ er smám saman að missa gildi sitt í tungumálinu og það sama á við um fjöldamörg önnur innihaldsrík og lýsandi orð. Í hvert sinn sem fólk t.d. „gerir“ listaverk (ljóð, leikrit, málverk o.s.frv) forsmáir það sagnir eins og að yrkja, semja, mála – og fletur út málið.

Og í hvert skipti sem þjóðin velur til forystu spillta aflandsprinsa og svindlara gengisfellir hún falleg og nauðsynleg orð eins og „siðferði“ og „heiðarleiki“ og holar innan allan merkingargrunninn svo hann hrynur.

Á hverju eiga næstu kynslóðir að byggja siðferðisgrunn sinn ef orðin sjálf verða merkingarlaus? Ef búið er að slíta þau frá rótum með því að tengja þau við hvern sem er, hampa og lyfta í hæstu hæðir mönnum sem láta eins og það sé bara allt í lagi að vera siðlaus svindlari?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *