Fátæk þjóð

Fátæk þjóð 1944 – og 2024

Hér að neðan eru birtir bútar úr grein sem Halldór Kiljan laxness skrifaði árið 1944, „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Fátt virðist hafa breyst síðan. Greinin talar beint inn í samtíma okkar árið 2024: þrugl afturhaldsins um listamannalaun, um „ræningjalýðinn“, sem nú er að vísu innlend elíta en ekki útlendingar fyrr á tímum, „sem áttu hlut að Íslandsversluninni“, og í staðinn fyrir þáverandi skort á  nauðsynlegum innviðum; snæri til að hengja sig, spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, er nú langt komið með að eyðileggja velferðarkerfið sem alþýða þessa lands byggði upp á eftirstríðsárunum, þrátt fyrir einarða andstöðu auðvaldsins.

En rifjum upp úr grein HKL:

„„Við íslendíngar erum fátæk þjóð“ – dögum oftar má lesa þessi vísdómsorð í blöðunum og í samtölum eru þau endurtekin einsog viðlag við flestar niðurstöður: hvað sem öðru líður erum við fátæk þjóð. Allur okkar ómyndarskapur er afsakaður með þessu töfraorði – ef við gaungum með göt á sokkunum, eða vantar á okkur tölurnar, eða við böðum okkur ekki, ég tala nú ekki um ef við erum lúsugir, þá er það alt af því við erum fátæk þjóð. Við rísum ekki undir því að kaupa vatn og sápu.

Einum okkar ágætu listamanna varð tíðrætt um það í blaði um daginn hve raunalegt væri að jafn listelsk þjóð skyldi vera svo fátæk að geta ekki bygt sér listasafn. En um leið gat hann ekki stilt sig um að láta í ljós undrun á því að þessi fátæka þjóð skyldi þó hafa efni á að reka fimm voldugar makarínverksmiðjur […].

Fyrir nokkrum árum bauðst einn af bestu listamönnum Íslands, Sigurjón Ólafsson myndhöggvari, til að gefa landinu listaverk eftir sig til skreytíngar á bænum. […] En þessi opinberi aðili treysti sér ekki til að taka boðinu af því það þurfti að kosta umbúðir um listaverkin og borga undir þau flutníngskostnað til landsins: Sumsé við erum fátæk þjóð. […] Ásmundur Sveinsson, þessi göfugi hámentaði listamaður, bauðst einu sinni til að vinna í samráði við bæarfélagið að skreytíngu bæarins með myndlist; tilboði hans var ekki ansað; við íslendíngar erum fátæk þjóð […]

Einar Jónsson er geymdur í Hnitbjörgum einsog niðursuða. Hann er einn af faungum þjóðfélagsins. […] Við erum fátæk þjóð. Sem sagt fimm makarínverksmiðjur.

Nú skulum við að gamni líta um hæl, því þessi fátæka þjóð á sér sögu. Eftilvill er það merkilegast í allri sögu vorri að þrátt fyrir hina margumræddu fátækt höfum við aldrei lifað það tímabil að þessi fámenni hópur manna hér, íslendíngar, hafi ekki staðið undir fleiri auðkýfíngum en nokkur þektur hópur annarstaðar í heiminum jafnstór. Í miðaldamyrkrinu á 10du öld þegar húngursneyðir eymd og stríð ríkti í Evrópu, og mannát var þar að minstakosti eins algeingt og styrjuhrognaát er nú, stóð ótrúlega mikill auður saman á Íslandi, efamál hvort nokkur Evrópuþjóð hefur búið við betri lífskjör þá en hinir fátæku íslendíngar. Við vorum svo ríkir að við tókum við kristindómnum af einskæru snobberíi árið þúsund. En jafnvel á þeim öldum laungu seinna þegar þjóðin lifði við mesta neyð, og þúsund manna horfellir á ári hjá okkur þótti varla saga til næsta bæar, stóðum við undir fjölda auðkýfínga, útlendínga sem áttu hlut að Íslandsversluninni. Auðugustu menn ýmsir í Danmörku á 17du og 18du öld, greifar biskupar borgarstjórar og hefðarfrúr, höfðu grætt fé sitt á íslendíngum; þar voru þeirra tíma miljónamæríngar okkar. Við vitum nöfn þessara manna og sögu. Fyrir tvöhundruð árum til dæmis áttum við varla snæri í snöru til að heingja okkur þó nauðsyn bæri til, oft ekki spýtu í ár eða fjöl í líkkistu, og verkfæri okkar voru af því tagi að útlendir menn ráku upp stór augu og hlógu þegar þeir sáu okkur vinna, eins og amrikumenn gera nú á dögum þegar þeir sjá okkur puða með skóflum í vegavinnu – en alt um það, á þessum tímum áttum við okkar fimm makarínfabrikkur, okkar miljónamærínga, alveg eins og nú: hörmángara, almenna verslunarfélagið, kónginn, compagniet eða hvað þessi ræníngjafélög hétu. Þeir reyttu saman alveg ótrúlegan auð af íslendíngum. Stórhýsi Kaupmannahafnar voru reist fyrir þann arð sem rænt var af íslendíngum. […]

Nei, þessi fátæka þjóð hefur frá upphafi vega staðið undir ótrúlega miklum auði. Hvergi á bygðu bóli moka jafnfáar hræður saman jafnmiklu fé. Árið 1942 flytjum við út fisk […] sem svarar sex tonnum fisks á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Við rekum meiri utanríkisverslun á mannsbarn en nokkur önnur þjóð. Við höfum að vísu ekki her, en við stöndum undir ákaflega dýru stjórnkerfi, dýrara en nokkrar aðrar hundraðþúsund sálir á jörðinni. […] Áþreifanlegasta dæmið um auðlegð vora er þó það enn í dag, ekki síður en á dögum hörmángara, að óvíða munu á jörðinni finnast svo fáar mannhræður í þjóðarlíki standa undir jafnmörgum miljónamæríngum og íslendíngar.

Sannleikurinn er sá að vísdómsorðin um íslendínga sem fátæka þjóð í efnalegu tilliti eru þrugl sem menn japla hugsunarlaust hver eftir öðrum, af því einhverjum ræníngjum fyr á öldum hefur þóknast að telja okkur trú um þetta þegar þeir voru búnir að rýa okkur inn að skyrtunni. Við búum og höfum einlægt búið í miðri einhverri mestu gullnámu heimsins, á fiskisælustu miðum Atlantshafs. […]

(1944)“

(HKL. 1980. „FÁTÆK ÞJÓÐ 1944“. Sjálfsagðir hlutir (bls. 204-210). Helgafell, Rvk.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *