Hart er í heimi

Í 45. vísu Völuspár segir svo:

Bræðr munu berjaz
ok at bönum verða,
munu systrungar
sifjum spilla;
hart er í heimi,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir ro klofnir,
vindöld, vargöld
áðr veröld steypiz;
mun engi maðr
öðrum þyrma.

Um þetta erindi kvæðisins segir Sigurður Nordal m.a. í útfgáfu sinni frá 1952 (bls. 120): „Mannfélagið er að liðast sundur, jafnvel helgustu ættarbönd eru slitin. Allt far mannkynsins sýnir, hvað hlýzt af því að rjúfa orð og eiða: fjandskapur, grimmd og hvers konar siðleysi“.

Því verður víst ekki á móti mælt að líkindin við samtímann eru sláandi.

Þó maður leyfi sér að skauta framhjá bræðravígum, spilltum sifjum, hórdómi og sjálfum heimsendi (þar með er ekki sagt að allt þetta eigi ekki við), þá stendur samt nóg eftir: Það eru ófriðartímar þar sem trúnaðarbrestur hefur orðið, hver höndin er uppi á móti annarri, hatur og ringulreið einkennir samfélagið og þröngir eiginhagsmunir ráða.

Hver reynir að hrifsa til sín sem mest af sameiginlegum gæðum. En það verður víst ekki gert nema á kostnað einhverra annarra, því miður.

Þetta er augljóst á öllum sviðum. „Almenningur“ mótmælir harðlega pólitískri spillingu og leyndarhyggju, sem einkenni starf stjórnmálamanna og -flokka. Í staðinn er krafist gagnsæis, opinna ferla og faglegra sjónarmiða. Mikill skortur kvað vera á þessu. Virðing Alþingis og stjórnmálastéttarinnar þykir hafa beðið afhroð. Burt með þetta lið frá stjórnsýslunni! Burt með pólitískar ráðningar! Burt með pólitísk afskipti!

Íslenskur almenningur krefst þess líka að ríkisstjórnin „grípi í taumana“. Fyrst sú sem nú situr getur ekki gert það, þá verður bara að fá aðra! Ríkisstjórn á í skjóli pólitísks valds að hreinsa út úr bönkum og fjármálafyrirtækjum. Fjármálaráðherrann á að stöðva þessa arfavitlausu ráðningu í forstjórastól bankasýslunnar! Ríkisstjórnin á að deila og drottna yfir skuldum og arðgreiðslum, verklegum framkvæmdum og bjarga atvinnulífinu.

Þess er bæði krafist að „fulltrúar almennings“ handstýri þjóðfélaginu og komi sér burt, allt í sömu andránni!

Allir þingmenn átta sig á nauðsyn þess að skera niður ríkisútgjöld. „Það verður að ná jafnvægi á ríkissjóð og stöðva skuldasöfnun“ segja þeir. Það dugar víst ekki að eyða meiru en aflað er. En þegar aðgerðir í þessa veru líta dagsins ljós rjúka þeir upp til handa og fóta. Það má nefnilega alls ekki skera niður í þeirra kjördæmi. Það sér það hver maður, þegar niðurskurður er kynntur, að sú þjónusta sem um ræðir er algjörlega bráðnauðsynleg og mun meira að segja spara ríkinu stórfé til langs tíma litið! Vita menn ekki að þeir sem missa vinnuna fara á atvinnuleysisbætur og allskyns félagslegur vandi mun aukast verulega og valda miklu hærri kostnaði en sem nemur sparnaðinum, þegar allt er talið? „Á að færa allt til Reykjavíkur?“ æpa menn svo úr ræðustól.

Ekki skera þetta! Skerið eitthvað annað! Það verður að spara. En ekki hjá okkur. Það sjá allir.

Og svo eru það blessaðir hagsmunaaðilarnir. Það er alveg sama á hvaða sviði það er – allir hagsmunaaðilar hafa pottþétt rök fyrir því að á þeirra sviði megi alls ekki skera niður. Með því er margra ára uppbygging eyðilögð, gjarnan ráðist ómaklega gegn „þeim sem minnst mega sín“. Nú er svo komið að þessi frasi er ónýtur af ofnotkun.

Fagstéttirnar eru ófeimnar við að beita svokölluðum skjólstæðingum sínum fyrir sig: kennarar nemendum, heilbrigðisstéttirnar sjúklingum, löggan öryggi almennings o.s.frv. Fagstéttirnar hafa sjálfdæmi í eigin málum: engir aðrir segja læknum hvað er „faglega rétt“ að gera eða ekki gera. Forstjóri Landspítalans fullyrti t.d. í sjónvarpinu í gær að ákvarðanir um nýjasta niðurskurðinn þar á spítalanum væru teknar á „faglegum forsendum“ en ekki út frá byggðasjónarmiðum. Getur einhver andmælt því?

Að minnsta kosti hættu þingmenn Suðurkjördæmis sér ekki inn á hinar faglegu brautir í rökræðunni um lokun réttargeðdeildarinnar á Sogni.

Og svona má halda áfram endalaust. Útgerðin bendir á það að breytingar á kvótakerfinu muni „rústa grundvelli efnahagslífsins“ eða eitthvað álíka. Kvikmyndagerðarmenn fullyrða með þunga að ALLS EKKI megi skera niður nám í kvikmyndagerð. Það sé svo heimskulegt að til annars verði ekki jafnað. Kvikmyndagerð beinlínis moki fé inn í ríkissjóð og þess vegna ætti ríkissjóður að moka enn meira fé í kvikmyndagerð! Jafnvel stuðningur við ríkisstjórn veltur á þessu.

Ásbjörn Óttarsson bendir listamönnum á það að fá sér alvöru vinnu og listamenn heimta meira fé í „hinar skapandi greinar“ af því það borgi sig margfalt þegar upp er staðið.

Það verður að spara. Það sjá allir að þjóðin hefur lifað um efni fram. En ekki hjá mér. Það sjá nú líka allir, er það ekki?

Svona hamast allt samfélagið í hróplegri mótsögn við sjálft sig. Má biðja um vitræna umræðu og framtíðarsýn?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *