Hlutverk kynjanna – mamma og pabbi nútímans?

Athygli mína vakti auglýsing í Fréttablaðinu í dag, laugardaginn 15. október 2011, (bls. 17). Þar var mynd af ungu pari með kornabarn, undir fyrirsögninni: „Það er margt sem felst í því að vera ábyrgir FORELDRAR“.

Neðst til hægri í myndinni er áberandi rauður, hringlaga flötur þar sem stendur með hvítu letri „Lífís“. Þó manni gæti dottið í hug við fyrsta lestur að þarna væri á ferðinni ný tegund frá Kjörís er ekki svo. Það er VÍS sem hér auglýsir „líf- og sjúkdómatryggingar“.

En það sem vakti athygli mína var myndmálið í auglýsingunni. Myndmálið sendir skýr skilaboð um hlutverk kynjanna. Til að tryggja öryggi og velferð barns síns og fjölskyldunnar takast foreldrarnir á hendur mismunandi hlutverk. Skoðum þau nánar:

Pabbi á að axla ábyrgð, skipuleggja tímann, deila verkefnum innan heimilisins og stappa stálinu í hina fjölskyldumeðlimina þegar á móti blæs. Hann á að sýna tómstundum annarra fjölskyldumeðlima áhuga, fylgja litla krílinu á íþróttaleiki, tónleika eða annað sem áhuginn beinist að.

Pabbi á líka að vera þolinmóður og gefa sér tíma til að hlusta, hrósa þegar vel er gert og ræða málin af yfirvegun ef einhver fer út af sporinu. Hann á að hlúa að fjölskyldu- og vinaböndum, kalla á liðið í grill um helgar.

Þegar pabbi er búinn að öllu þessu má hann njóta stunda í góðra vina hópi, þ.e.a.s. ef hann temur sér holla lifnaðarhætti og er ekki á einhverju útstáelsi.

Mamma á að vera góð fyrirmynd. Hún á að búa í haginn fyrir breytta tíma og halda góðri rútínu á heimilinu. Enga óreiðu, takk! Hún á ekki að eyða í vitleysu, heldur sýna aðhald í fjármálum sínum. Hún verður að vera sveigjanleg, tilbúin að tileinka sér nýja hluti og sýna tillitssemi gagnvart öðrum í fjölskyldunni.

Það er í verkahring mömmu að miðla málum og hún verður að læra að treysta öðrum, vera ekki alltaf með nefið ofan í öllu! Hún á að vera jákvæð en staðföst og halda uppi passlegum aga. Og svo á mamma að passa að hvílast vel svo hún geti ræktað ástina í hjónabandinu.

Og í hvað eiga mamma og pabbi að nota höfuðið?

Mamma á að nota það til að rækta líkama og sál – fara kannski í ræktina og jóga. Pabbi á hinsvegar að afla sér þekkingar. Velferð fjölskyldunnar er undir því komin.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *