Hernaðurinn gegn kennarastéttinni

Anna Lára Pálsdóttir fór vel yfir það í pistli á visir.is hvernig veist hefur verið að kennarastéttinni frá því rekstur grunnskólanna var færður yfir til sveitarfélaganna. Nánast allt sem hún tínir til á við um framhaldsskólana líka, en þeir eru á ábyrgð ríkisins eins og flestir munu vita og því sama hvorum megin hryggjar kennarstéttin liggur hvað yfirstjórn varðar.

Ég ætla að leyfa mér að draga hér út úr grein Önnu Láru þá punkta er varða vinnutíma og vinnuskyldu kennara og hvernig meintir tilburðir yfirvalda til að bæta og þróa skólastarf hafa í raun brotið það niður og eru á góðri leið með að eyðileggja íslenska skólakerfið, ef ekki verður kúvending nú þegar.

Tilvitnanir í grein Önnu Láru eru innan gæsalappa:

… þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna árið 1995 var varað við því að yfirfærslunni fylgdi ekki nægilegt fé. Sá snjóbolti hefur nú rúllað í tuttugu ár með víðtækum og afar neikvæðum afleiðingum …“

… búið er að smætta allt starf kennarans niður í tímamældar stimpilklukkueiningar og skólastarfið allt er rígbundið í einhverju leiðinda excelskjali …“

Árið 2006 er hugtakið Skóli án aðgreiningar skrifað inn í nýja aðalnámskrá og hugmyndafræðin verður að lögum árið 2008. […] Það þarf ekkert að taka það fram að við innleiðingu á Íslandi fylgdi lítið fé og einhvernveginn var kennurum bara ætlað að finna út úr þessu.

Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt og sú ábyrgð hvílir að sjálfsögðu aðallega á kennaranum…

… íslensku börnin voru ekki að koma nógu vel út í alþjóðlegum samanburðarkönnunum, læsi var á undanhaldi og allskyns merki um að ekki væri allt með felldu. Þá er brugðið á það ráð að veita kennurum meira aðhald …“

Skrifuð er ný og ákaflega metnaðarfull aðalnámsskrá sem kennurum er ætlað að innleiða […] Kennarar hafa lagt á sig ómælda vinnu og fundarsetur til þess að aðlaga hana að því skólastarfi sem fer fram í raunveruleikanum á Íslandi.“

Þá var einnig ákveðið að innleiða nýjan námsmatskvarða, nú eru bókstafir málið. Kennarar fá að glíma við hvernig því skal komið við …“

Allt innan vinnuramma kennarans engu að síður og kostar sveitarfélögin ekki krónu aukalega. Einhvernveginn virðist endalaust hægt að bæta verkefnum inn í vinnurammann án þess að á móti komi meiri tími eða jafnvel yfirvinnulaun …“

Kennurum er meira að segja stundum ætlað að ganga inn á verksvið annarra sérfræðinga s.s. sálfræðinga og geðlækna.“

Fólk talar kennara og störf þeirra niður meðan skömmin á í rauninni heima hjá rekstraraðilum skólanna. Sveitarfélögin eru vanhæf til þess að reka skóla svo sómi sé að …“

Menntamálaráðherra hefur líka áhyggjur af blessuðu læsinu og hrindir af stað Þjóðarsáttmála um læsi, flugeldasýningu sem að mínu mati er enn eitt dæmið um hvernig fagmennska kennara er töluð niður.

Kennarar kunna alveg að setja af stað lestrarátök, þeir gera það árlega. Kennarar vita alveg hvernig á að kenna börnum að lesa og kennarar vita alveg hvaða börn ná ekki tökum á lestri. Við þurfum ekkert að finna þessi börn enda hafa þau aldrei verið týnd.“

Kennara skortir úrræði fyrir þau börn sem þurfa aukinn stuðning. Það gefur auga leið að einn kennari lætur ekki 29 börn lesa fyrir sig daglega.“

Kennara skortir tíma til að sinna kennslunni, kennarar þurfa frið fyrir gæluverkefnum menntamálaráðherra sem skella á af fullum þunga á fjögurra ára fresti.“

Í stað þess að demba sífellt fleiri verkefnum yfir kennara mætti beina sjónum að því hvernig styrkja mætti þá í starfi og veita fjármagni og mannauð í að standa undir því metnaðarfulla skólastarfi sem er svo fallega orðað á pappírum.“

Við þetta má bæta að kennarar þurfa frið fyrir því niðurlægjandi ofbeldi sem forysta þeirra stundar fullum fetum með rekstraraðilum skólanna: að láta þá eyða dýrmætum vinnutíma sínum í að telja saman allar mínúturnar sem þeir verja til starfsins.

Öllum þessum tíma og vinnu, sem hér hefur verið tiltekið, og bætt hefur verið við vinnuskylduna, væri betur varið með því að láta kennara í friði og leyfa þeim að sinna starfi sínu:

AÐ KENNA

en ráða til þess menntaða sérfræðinga að sinna hverskyns sérþörfum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *