„Hvaða fokking rugl er þetta?“

„Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir hvers og eins með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Gengið er út frá því að allir fái jöfn eða jafngild tækifæri til náms og að námið sé á forsendum hvers einstaklings. Þar ríkir ákveðið viðhorf sem einkennist af virðingu fyrir rétti allra nemenda til þátttöku í námssamfélagi heimaskóla óháð atgervi þeirra eða stöðu“, segir í Skýrslu mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu skólamála samkvæmt beiðni, sem tekin var til umfjöllunar í síðasta pistli.

Sálgæsla og kennslufræðileg úrvinnsla – forvarnir og heilbrigði

Í skýrslunni segir einnig að unnið hafi „verið að því að fylgja eftir áherslum í nýjum lögum á réttindi, öryggi og velferð nemenda“ og að reynt hafi á „ýmis ákvæði laga og reglugerða varðandi þjónustu við nemendur og ráðuneytið úrskurðað í kærumálum þar að lútandi. Einnig hefur verið unnið að áætlunum um heilsueflandi skóla og aðgerðum gegn einelti“.

Ennfremur kemur fram að ýmsar rannsóknir bendi til þess „að efla þurfi fagmennsku í mörgum skólum til að takast á við ólíkar námsþarfir eða byggja upp gott námssamfélag meðal ólíkra nemenda“ og mikilvægt sé „að kennarar geti sótt sér aðstoð til að vinna kennslufræðilega úr greiningum nemenda sinna“.

Þó þessi tilvitnun í skýrsluna sé tekin úr umfjöllun um grunnskólana, er morgunljóst að þetta á ekki síður við um framhaldsskólana, en þeim ber ekki lögum samkvæmt, segir þar, að bjóða upp á „sérhæfða sálfræðiþjónustu fyrir nemendur en benda skal á hlutverk náms- og starfsráðgjafa í þessu samhengi“.

Til viðbótar við sálgæsluna og kennslufræðilega úrvinnslu úr greiningum nemenda bætist hópefli, frístundastarf og heilsurækt í víðasta skilningi, eitthvað sem kallað er HoFF og vísar til heilsu og forvarna í framhaldsskólum, en markmiðið með því er „meðal annars að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu meðal nemenda, efla forvarnir og hvetja nemendur til að bera ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að heilbrigðum og sjálfbærum lífsháttum“. Til að ná þessum markmiðum „verður unnið ötullega að fíkniefna- og áfengisforvörnum, aukinni hreyfingu og betri næringu auk þess sem að í nýjum samningi er aukin áhersla á að efla kynheilbrigði og geðrækt meðal ungs fólks“. Í flestum, ef ekki öllum, framhaldssskólum hefur í þessu skyni Landlæknir mætt á svæðið og bæði flaggað í heila stöng og skrúfað upp platta með áletruninni: Heilsueflandi framhaldsskóli.

Allt það sem hér hefur verið tekið upp úr skýrslu menntamálaráðherra um stöðu skólamála, styður með óyggjandi hætti það sem fram hefur komið í undanfarandi pistlum mínum, m.a. að kennarar eru að verða fyrst og fremst meðferðarfulltrúar á mörgum sviðum, og námsráðgjafarnir sérhæfðir þerapistar.

Ný öld – nýir kennsluhættir – „Hættum þessu fokking rugli“

„Til þess að ná fram markmiðum nýrra laga og námskráa er mikilvægt að kennsluhættir styðji við nýjar áherslur og að komið sé til móts við ólíkar námsþarfir nemenda“. Ýmsir skólar, segir að auki í skýrslunni, hafa „tekið kennsluhætti til gagngerrar endurskoðunar“.

Í þessu samhengi er ágætt að benda á skrif Ásgríms Hermannssonar, ármanns MS, á heimasíðu skólafélagsins í haust, sem vöktu athygli. Hann segir meðal annars:

Ég þori að fullyrða það að kynslóðin mín er ekki komin í skóla til þess að sitja við bækur og skrifa með blýanti, við höfum tölvur til að skrifa á og internetið sem veitir aðgang að milljónum greina, skemmtiefni, heimildarþátta, heimildarmynda, facebook, twitter, youtube og svo mætti lengi telja […] Við erum zapping kynslóðin, kynslóðin sem er það ofhlaðin aðgengi að upplýsingum að við erum nánast hætt að fylgjast með einhverju einu því að það er alltaf eitthvað annað í boði líka, einhver hlekkur til að klikka á, ný frétt ámbl.is, nýr status á facebook, ný mynd hjá félaga okkar, this video is recomended for you, like á þetta allt á meðan við erum með sjónvarpsþátt í gangi og að sms-a vin okkar […] Hættum þessu fokking rugli og förum að einbeita okkur að því að breyta kerfinu í staðinn fyrir að breyta öllum nemunum. Við lesum ekki kennslubækur, meðaltalið af bókum sem krakkar á mínum aldri lesa er svona um 3 bækur á ári, hættið að böggast í okkur að við séum ekki eins og þið, börnin okkar munu ekki heldur vera það […] Förum að undirbúa okkur fyrir lífið á 21.öldinni en ekki lífið á 19.öldinni sem var þannig að ef þú fórst í skóla fékkstu vinnu, núna getur þú farið í tvöfaldan master og ekki einu sinni fengið vinnu. Gallinn er sá að við erum of menntuð í hlutum sem skipta ekki máli, ég þarf ekki að vita muninn á súru og basísku bergi, ef ég þarf þess einhverntímann þá mun ég googla það… (Sjá grein Ásgríms á: http://belja.is/frettir/id/185/hvernig_skolinn_drap_metnadinn_minn)

Á samstarfsnefndarfundi mennta- og menningarmálaráðuneytis og skólameistara, á Selfossi 25.-26. október 2011, kynnti Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, nokkur meginatriði úr bókinni 21ST CENTURY SKILLS – Learning for life in our times, eftir þá Bernie Trilling og Charles Fadel.

Samkvæmt þeim Trilling og Fadel þurfum við nýtt skólakerfi þar sem nám er einstaklingsmiðað og áhugavert, byggt á samvinnu með virkum samskiptum, sköpun og nýsköpun. Þessar nauðsynlegu breytingar á skólakerfinu, helgast af tækni- og samskiptabreytingum undanfarinna áratuga (tölvur, símar, internet, gagnvirk tækni o.s.frv.), aukinni samkeppni og hnattvæðingu sem hefur leitt til þess að unga fólkið í upphafi 21. aldar gerir aðrar kröfur, aflar sér þekkingar og lærir öðruvísi en við sem eldri erum. Það gúgglar en fer ekki á bókasafnið eða flettir upp í orðabók. Unga kynslóðin á okkar tímum er fyrsta kynslóðin sem býr við alla þessa tækni frá fæðingu.

Bandarísku gúrúarnir telja að áfram þurfi að leggja áherslu á grunngreinarnar lestur, skrift og stærðfræði í skólakerfinu en efla þurfi þætti eins og skapandi og gagnrýna hugsun, samvinnu og samskiptafærni, tölvu-, upplýsinga- og fjölmiðlalæsi, sveigjanleika og aðlögunarhæfni, frumkvæði og sjálfstæði, félagsfærni, ábyrgð og forystuhæfileika. Til að þetta takist þurfi að breyta aðferðunum, kenna á nýjan hátt. Stærsta áskorunin felist líklega í því að viðurkenna að ekki sé nauðsynlegt að kenna nemendum ákveðnar grundvallarreglur í efninu áður en þeir geti farið að vinna með það og kafa dýpra. Nútíma nemendur muni einfaldlega ná sér í nauðsynlegar upplýsingar jafnóðum og þeir þurfi á þeim að halda til að leysa ákveðin verkefni. „Innlögn“ kennarans í upphafi, áður en hann hleypir þeim af stað í verkefnavinnuna, er sem sagt óþörf, segja þeir Trilling og Fadel.

Eins og vera ber með bandaríska bókarhöfunda setja þeir alla hluti fram á myndrænan hátt, í töflum og skífum ýmiskonar, m.a. til að lýsa þessum nauðsynlegu breytingum. Stefna beri að því að skólakerfið færist frá því að vera kennaramiðað til þess að verða námsmiðað, frá beinni kennslu í gagnvirk samskipti, frá þekkingu til hæfni, innihaldi til ferlis, frá staðreyndum og lögmálum í spurningar og úrlausnarefni, úr bókinni á vefinn, frá námskrám í verkefni og svo framvegis (sjá nánar: 21ST CENTURY SKILLS, bls. 38).

Augljós samhljómur er milli atriða í grein Ásgríms og bók þeirra Trilling og Fadel: Jarðfræðikennarinn þarf ekkert að halda lærðan fyrirlestur um súrt og basískt berg áður en nemendur hella sér í verkefnavinnuna. Þeir fletta þessu bara upp á Netinu þegar og ef kemur að því í verkefnavinnunni að skilningur á þessu er nauðsynlegur.

Eru þetta allt ný vísindi? – Hefur ekkert breyst síðan á 19. öld?

Ekki þekki ég til í öllum framhaldsskólum en þar sem ég þekki til hafa orðið gríðarlegar breytingar á undanförnum tveimur áratugum, „í takt við nýja tíma og nýja tækni“. Framhaldsskólarnir voru tölvu- og Netvæddir með gríðarlegum kostnaði. Nýja tæknin var innleidd og nemendum boðið upp á gjörbreyttar áherslur. Það sem núna þykir nýjast og fínast, og er kallað „verkefnamiðað nám“, hefur verið stundað með nýjustu tækni, að minnsta kosti meðfram hefðbundnari kennslu, um langt árabil. Hvaða framhaldsskólakennari kannast ekki líka við „dreifnám“ og „fjarnám“?

Það sem skólarnir hinsvegar eru sjálfsagt hvað tregastir til að gera er að varpa fyrir róða eyktaskipaninni og mætingaskyldunni. „Kennslustundin“ lifir góðu lífi og stjórnar víðast skólastarfinu, ásamt blessaðri mætingaskyldunni og þunglamalegu kerfinu í kringum hana. Hvaða „fokking rugl“ er þetta? gæti einhver sagt. Hvers vegna er öllu þessu ekki kastað út í hafsauga og nemendum gefnar frjálsar hendur um að leita sér menntunar í því sem þeim þykir áhugaverðast og skemmtilegast, þegar og með þeim hætti sem hentar hverjum og einum? Spyr sá sem ekki veit. „Kennum minna, lærum meira“, segja þeir víst í Singapore og hafa náð árangri.

Kjarni málsins

Nú komum við samt að kjarna málsins. Þeir nemendur sem ætla sér að læra eitthvað, þeir gera það. Skiptir þá engu hvort þeim er boðið upp á rannsóknamiðað nám með nýjustu tækni á Netinu, eða „krítina og kjaftinn“ eins og Harpa frænka mín orðaði það í grein í Skímu, eða einhverju öðru menntamálatímariti, fyrir nokkrum árum. Það er ekki námsefnið, ekki kennsluaðferðirnar og ekki tæknin sem ræður hér úrslitum. Sumir nemendur sigla áreynslulaust í gegnum skólakerfið. Aðrir leggja á sig ómælt erfiði, yfirvinna lesblindu og aðrar hamlanir, til þess að ná settu marki. Og þeir sem áður sváfu í tímum halda áfram að gera það, nema þeir rumski kannski til leika sér í tölvunni, í stað þess að nýta hana til þekkingarleitar og verkefnalausna, þó þeir hafi frjálsar hendur um að finna á Netinu, þegar þeir eru í stuði til þess, eitthvað sem þeim þykir skemmtilegt eða áhugavert.

Vandi íslenska framhaldsskólakerfisins snýr að þessum nemendum – nemendum sem vilja ekki leggja á sig það „erfiði“ sem menntun kostar. Þá skiptir ekki máli hversu nútímalegir, tæknilegir og skemmtilegir kennarar verða. Nemendur munu einungis menntast fyrir eigið frumkvæði, nú sem endranær. Það er endalaust hægt að flýja vandann með því að búa til nýjar brautir, nýjar kennsluaðferðir og nýjar tæknilausnir í skólunum, en það mun ekki leysa þennan vanda.

Þetta er svipað og að vekja unglinginn fimm sinnum af því hann á svo erfitt með að vakna, taka svo nýeldaðan hafragrautinn af borðum af því hann langar ekki í hann, bera fram í staðinn seríos, kókapuffs og endalausa fjölbreytni af mismunandi tegundum fuglafóðurs, en setja að lokum kók og snúð í poka til að taka með af því „hann hefur enga lyst núna“. Keyra unglinginn svo í skólann af því það er svo kalt úti og hann er svo þreyttur, en tína áður skólabækurnar fyrir hann í töskuna með rándýrri tölvunni.

Allir sjá að lengi getur mamma bætt þjónustuna við þennan ungling, verið bæði fjölbreyttari og sveigjanlegri gagnvart „þörfum, óskum og áhugasviði“ hans, afsakað sig innilegar og verið fljótari að ná í eitthvað annað þegar hann bregst við hafragraut með því að segja við hana: „Hvaða fokking rugl er þetta?“

En heldur einhver að það muni leiða til þess að viðkomandi fari fyrir vikið að vakna sjálfur, klæða sig og finna sér eitthvað að borða – hvað þá að hann hlaupi í skólann fullur áhuga, með þaullesnar skólabækurnar?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *