Það sem er bannað

Sigríður Jónsdóttir. Kanill – ævintýri og örfá ljóð um kynlíf. Sæmundur, 2011.

Skáldið í Arnarholti, Sigríður Jónsdóttir, hefur gefið út nýja bók. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna fetar höfundurinn fáfarnar slóðir, sem hafa lengst af legið um bannsvæði – að heimkynnum klámvísna og grótesks gamans.

Ljóðmælandi er kona, skáldið sjálft, sem talar við lesanda í fyrstu persónu og af hjartans einlægni, hefur gott vald á móðurmálinu og næmt auga fyrir frumlegu og skemmtilegu myndmáli. Sjónarhornið er oft af bæjarhólnum í sveitinni heima, þar sem við blasa kýr og kindur, eða „hryssan rauða“. Meginstefin í þessari persónulegu bók Sigríðar speglast í tilvitnuðum inngangsorðum:

Samviskuna
beislaði ég
lagði á girndina
þunga hlekki

Skilaboð til stúlkna eru þau, segir skáldið, að karlmenn vilji hreinar meyjar, hlédrægar og feimnar. Hún sjálf tamdist hinsvegar illa, varð því bæði kjaftsár af beisli og haftsár af hlekkjum, sem eru „fordómar og heimska“. Þó fjötrarnir væru „sniðnir af umhyggju og saumaðir af ást“, pössuðu þeir illa, enda sniðið „tekið eftir klæðum góðu stúlkunnar“. Og „skírlífisbrækurnar runnu niður lærin“ því konan er bæði „kjaftfor og framhleypin“ og hana „langar að sofa hjá“.

Það er sterkur broddur í ljóðum Sigríðar. Börn eru alin á kvenfyrirlitningu, blandaðri jafnt móðurmjólkinni sem út á skyrið, og ef „annað vex þar / sem óhætt er að skammast sín fyrir / ert þú örugglega stelpa“ sem síðar meir þarf að lifa við það viðhorf að „fyrirlitlegri snift er ekki til / en sú sem gerir hitt, sjálfri sér til skemmtunar“.

Segja má að aðallega sé barist á tvennum vígstöðvum í bókinni. Annars vegar ráðist gegn bókhefðum fyrri tíðar; fyrst eru leidd fram á sviðið pörin Indriði á Hóli og Sigríður í Tungu, og Dimmalimm og (svanurinn) Pétur, sem öll fjögur eru alveg vita náttúrulaus. Skáldið sviptir síðan hulunni af raunveruleikanum, því sem leynist að baki orðunum en bannað er segja frá, í ævintýrinu um Þorstein karlsson og Ingibjörgu kóngsdóttur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er það flokkað með „kímilegum ævintýrum“. Höfundur spinnur áfram, þar sem texta ævintýrisins sleppir, og lýsir girndinni sem ólgar undir þungum hlekkjum hefðarinnar: Þegar kóngur sleikir rassinn á Þorsteini vaknar með honum á ný „svipaður skjálfti og þegar hann áður fyrr fylgdist með stráknum úr kotinu hlaupa og ærslast með Imbu í garðinum heima“. Drottningin reynist líka, þegar til kemur, hafa eðlilega kynhvöt og nýtur þess til fullnustu þegar Þorsteinn „renndi sér inn í hana“ og það sama gildir um Ingibjörgu: „Þegar til kom hafði hún rúm fyrir hann allan og hún naut hans og hann naut hennar…“.

Hinsvegar leggur Sigríður til atlögu við helgi hjónaherbergisins, og eigin fordóma, og lætur eins og hún viti ekki „hvað það er bannað“ að lýsa á bók sjálfsfróun, en játar að fyrir framan spegil yrði hún meira að segja svo „klúr“ að hún gæti ekki horft framan í sjálfa sig, „aðeins á allt hitt“. Skáldið hikar heldur ekki við, fyrir framan lesandann, að fara „rennvotum fingrum um pjásuna“ og skoða í speglinum á sér klofið. Til að leggja í þetta þarf hún þó að fara í huganum á hótel í útlöndum. Blygðunarlaus lætur hún líka lesanda fylgjast með því hvernig elskugi hennar smyr kremi „á kónginn á sér“ og penslar skaut hennar „með limkollinum“.

Yrkisefnið, og ekki síst orðavalið, veldur því að varla verður lesið upp úr Kanil Sigríðar Jónsdóttur í komandi jólaboðum eða fínni fermingarveislum þegar líður fram á vorið. Líklegra er að hvíslað verði um efnið í fatahengjum eða bak við luktar dyr. Svo lítið hefur í raun breyst frá tímum Jóns Thoroddsens, og þegar allt kemur til alls er höfundurinn sjálfur ekki jafn óþekkur og gefið er í skyn – í bókinni stígur fram góða stúlkan, eins manns kona, sem nýtur kynlífs aðeins með elskhuga sínum, sem hún treystir af því hún þekkir hann út og inn og hann þekkir hana „betur en sig“. Að því leyti er hin framhleypna, „fyrirlitlega snift“ víðsfjarri í þessari bók.

(Umsögnin birtist í Sunnlenska fréttablaðinu 24. nóvember 2011).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *