Hverju er brýnast að breyta í skólakerfinu?

Margt gott kom fram hjá Sölva Sveinssyni í Viðtalinu á RÚV. Eitt af því lýtur að umræðu um ónógan sveigjanleika í skólakerfinu. Stjórnmálamenn sjá í því samhengi ekkert annað en vinnutíma kennara og kennsluskyldu. Sölvi benti á lög sem hindra eðlilegt flæði milli skólastiga.

Þá má benda á þann misskilning, sem víða hefur riðið húsum, að litlir skólar séu ómögulegir af því þar ÞURFI að hafa samkennslu og því er streðað við að sameina skóla út og suður, stækka árgangana og hnoða öllum sem eru fæddir sama árið í gegnum sama námsefnið á sama tíma, burtséð frá þroska þeirra og námsgetu.

Það var alsiða í mínum litla barnaskóla að nemendum væri „flýtt“ um eitt ár. Ég útskrifaðist t.d. með stúdentspróf 19 ára, eins og að drekka vatn. Samt var ég 4 ár í menntaskóla. Fyrir nokkrum árum var gerð aðför að þessum litla barnaskóla og hann sameinaður öðrum skóla í fjarlægri sveit. Af hverju? Jú, það átti að vera svo voðalegt fyrir börnin að vera í samkennslu árganga. Og þetta ráðlögðu sérfræðingar. Hvílíkt rugl.

Samkennsla er ein leið til að bjóða börnum að fara hraðar, eða hægar, í gegnum skólakerfið eftir því hvað hentar þeim, hverju og einu. Sölvi talaði um að nemendur væru hvergi færri á hvern kennara en hér á landi og skólakerfið væri dýrt miðað við árangur. Á sama tíma dásamaði hann svo þann lúxus sem hann byggi við að reka lítinn skóla og geta sinnt hverjum nemanda betur!

Það er hárrétt hjá Sölva að þrátt fyrir eilíft tal stjórnmálamanna um nauðsyn þess að efla verk- og listnám, þá gera þeir ekkert í málinu. Tækifærin, og vilji, eru til staðar víða í kerfinu en aðbúnaður verknáms er víða óaðlaðandi – að ekki sé talað um „duldu“ námskrána; hefðirnar og pressuna í þjóðfélaginu á nemendur að feta sig í bóknámið.

Öll umræðan nú til dags snýst um brottfall og styttingu náms til stúdentsprófs. Það er forgangsmál menntamálaráðherrans. Er það ekki lýsandi dæmi um villigöturnar sem þjóðmálaumræðan um menntamál er á? Af hverju er ekki forgangsmál ráðherrans að ræða um iðn-, verk- og listnám? Af hverju tönnlast fjölmiðlarnir á styttingu stúdentsprófs og vinnutíma kennara, þegar önnur mál eru brýnni? Er ekki líklegra til árangurs í brottfallsbaráttunni að taka nú til aðgerða til eflingar verk- og listnáminu, frekar en að eyða allri orku í að stytta nám í framhaldsskólum til stúdentsprófs?

Það er svo margt fleira sem þarf að kafa í en statistík um t.d. árafjölda, kostnað á nemanda og brottfall í samanburði við milljónaþjóðir til að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það hvernig VIÐ HÉR Á LANDI viljum hafa OKKAR skólakerfi.

Auk þess leiðir stytting stúdentsbrauta framhaldsskólanna ekki til minna brottfalls. Á það verka aðrir kraftar. Getur einhver bent menntamálaráðherranum á þetta?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *