Flóttaleiðin

PR-ræða forsætisráðherrans á framsóknarfundi á Hótel Selfossi um síðustu helgi var að mörgu leyti alveg meinfyndin. Hann varaði fundarmenn ábúðarfullur við því að auðvitað myndi hin illa stjórnarandstaða bæði snúa út úr öllu saman og ljúga hikstalaust þegar skuldaleiðréttingatillögurnar hans yrðu kynntar í lok þeirrar viku sem nú er brátt á enda runnin:

Bera andstæðingar sig,

útúrsnúning feta,

ætla’ að ljúga upp á mig

öllu sem þeir geta.

 

Þá er tónninn sleginn: ekki skiptir máli úr þessu hver mun hugsanlega gagnrýna tillögurnar sem allir bíða spenntir eftir, né fyrir hvað eða á hvaða forsendum. Allri gagnrýni verður svarað þannig að um sé að ræða útúrsnúninga eða lygar. Enda hafi svo sem engu verið lofað beint (jafnvel þó hægt sé að endursýna loforðaupptökurnar).

Þessi ræða var að vísu ekki ætluð þeirri sauðtryggu hjörð sem mætt var á fundinn, heldur var hún til útflutnings – í gegnum fjölmiðlana til þjóðarinnar allrar. Þessi ræða var tilraun til að hafa einhverja stjórn á umræðunni og atburðarásinni, forsætisráðherra var að skapa sér og fylgismönnum sínum varnarstöðu – og flóttaleið ef nauðsyn krefði. Almannatenglar og blaðafulltrúar forsætisráðuneytisins hafa áttað sig á því að brýn þörf væri fyrir áætlun af þessu tagi. Það skemmtilega er hve „gagnsætt“ allt þetta ferli er. Og á ekki öll stjórnsýslan einmitt að vera gagnsæ?

Þó planið sé gott er eiginlega vandræðalegt hve stjórnarandstaðan hefur verið hógvær og varkár í gagnrýni sinni, enda engar tillögur fram komnar og fátt sem hönd á festir í því sambandi. Menn hafa mest verið að velta vöngum og lýsa áhyggjum af afleiðingum hugsanlegra möguleika.

Gagnrýnin hefur ekkert síður komið úr öðrum hornum en stjórnarandstöðuhorninu og sumpart beinst að ráðaleysinu, að ekkert hafi gerst mánuðum saman þrátt fyrir yfirlýsingar forsætisráðherra bæði fyrir og eftir kosningar um að skuldaniðurfellingarloforðin byggðu á þaulhugsuðum áætlunum sem ráðist yrði í STRAX. Allt væri þetta kristalstært, og snilldin fælist ekki síst í því að enginn kostnaður myndi falla á ríkissjóð!

Sumir hafa kallað þetta lýðskrum, óframkvæmanlega barbabrellu ætlaða að slá glýju í augu kjósenda. Við fáum að vita um það í vikulokin hvort svo er, og hvort ríkissjóður verður eins stikkfrí og lofað hefur verið.

Miklu meira áberandi en gagnrýni stjórnarandstöðunnar hafa verið hróp framsóknarmanna sjálfra á torgum um ósanngjarnar árásir úr öllum áttum. Þeir hafa verið alveg einfærir um að halda því á lofti hvað aðrir eru voðalega vondir við þá: smá meðvirkni kæmi sér víst ekki illa.

Það eru ekki síður Seðlabankinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, hagfræðingar og sérfræðingar af ýmsu tagi sem hafa haft uppi varnaðarorð. En allt eru þetta víst grunsamlegir aðilar og ekki síður líklegir til að grípa til útúrsnúninga og lyga en óforbetranlegt stjórnarandstöðuliðið!

Nú er ekkert annað að gera en bíða eftir því hvað forsætisráðherrann dregur upp úr hatti sínum. Fjallið hefur loks tekið jóðsóttina. Öll vonumst við eftir einhverju brilljant-íni. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *