Jólagleði

Hafi vinur keyrt í kaf
af kreppuþján og streði,
honum gefðu ómælt af
ást og jólagleði.

Veistu þann er styðst við staf,
stirðan mjög í geði?
Þessum veittu ómælt af
ást og jólagleði.

Sigli einn um úfið haf
og allt hans líf að veði,
í bæn þeim sendu ómælt af
ást og jólagleði.

Manstu einn sem eftir gaf
við óhapp, sem að skeði?
Færðu honum ómælt af
ást og jólagleði.

Enn af þeim er aleinn svaf
oft á sjúkrabeði.
Kveðju sendu, og ómælt af
ást og jólagleði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *