Strákarnir okkar

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðunetyinu, var í apríl sl. dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. Nú er mál hans til meðferðar í hæstarétti. Lögmaður Baldurs hefur sett fram þær kröfur, til vara, að fjölmiðlaumfjöllun um málið komi til refsilækkunar, verði sakfellingin staðfest í hæstarétti, enda geti engin refsing staðist samanburð við vítisloga íslenskrar fjölmiðlaumfjöllunar. Gekk umfjöllunin víst svo langt að hinn dæmdi ráðuneytisstjóri missti vinnuna!

Þetta ætti sérstakur saksóknari að láta sér að kenningu verða í sínum störfum. Það gengur náttúrulega ekki að menn sem kunna að verða dæmdir fyrir að leiðast óvart út í innherjasvik, vafningafléttur eða stórfelld bankarán ef út í það er farið, missi að auki vinnuna. Þetta var nú einu sinni það sem allir „okkar bestu menn“ voru að gera og, drifnir áfram af forseta vorum, nýttu snilli sína á þessum sviðum til að bera „hróður“ fósturjarðarinnar út um heiminn.

Þó það hafi auðvitað verið sjálfsagt að fjölmiðlarnir segðu frá hinum miklu sigrum víkingaferðanna, og flytu með í einkaþotunum til að spara tíma og aukaferðir, er engin ástæða fyrir þá að vera endalaust að horfa um öxl og velta sér upp úr einhverjum hlutum sem gætu hafa farið úrskeiðis í fortíðinni – enda það allt saman náttúrulega aðstæðum á erlendum mörkuðum að kenna en ekki „strákunum okkar“.

„Strákarnir okkar“ eiga nefnilega heiður skilinn fyrir að koma okkur hér á þessum útnára rækilega á heimskortið og í stað þess að láta fjölmiðla komast upp með að hrekja þá úr vinnunni með ósanngjarnri umfjöllun væri nær að forsetinn hóaði þeim saman á Bessastaði milli jóla og nýárs og hengdi í þá fálkaorðuna.

Allir muna hvað það var gaman á Bessastöðum, hjá forsetanum og silfurstrákunum, eftir ÓL í Peking. Nú er lag að heiðra „gullstrákana“ líka, Baldur og þá hina.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *