Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,
háð eru víða stríðin.
Varnir bresta börnum;
bani, ótti, flótti
– vonir þeirra þverra –
Þjóðum skömm er rjóða
æskublóði, í æði
afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju
eru margir argir
af kjörum sínum, kveina,
komið rof í hófið.
Væri flott ef fleiri
fyndu göfuglyndið,
gleðistundir góðar
gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,
geisla börn í veislum.
„Sönn er jólasælan“,
syngja Íslendingar.
En ekki allir hlakka
ósköp til, þó dylji.
Til einhvers auður þjóðar
ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara
heims, má ekki gleyma
að verma opnum örmum
óttaslegna á flótta.
Gæðastundir gleðja,
gefum þær af kærleik.
Um land og lög við sendum
ljúfar friðardúfur.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *