Áramótin 2019-2020

Þetta var aldeilis úrvalsgott ár þegar litið er inn á við – á fjölskylduna. Allir við heilsu og hamingju, þó auðvitað hrjái einn og einn einhverjir kvillar, eins og gengur. En þegar hismið er greint frá kjarnanum þá búum við hjónin við sannkallað barna- og fjölskyldulán. Það er ekki sjálfgefið að yngsta barnið af sex nái þrítugsgsaldri án stóráfalla í fjölskyldunni. Fyrir það ber að þakka. Og vona það besta. Elska og njóta.

Undirritaður komst loks í langþráða aðgerð; hnjáliðsskipti, og allt gengur í framhaldinu að vonum skv. bestu manna yfirsýn. Vonir standa til að ganga og hreyfing verði í boði næstu árin með þvífylgjandi heilsueflingu. Annars er mesti spenningurinn nú hvort nýja hnéð þoli ekki örugglega útreiðar a.mk. jafnvel, og helst betur, en hið gamla og ónýta gerði ágætlega. Anna María er stálslegin; þó hún bíði líka eftir hnjáliðsskiptum á báðum og sé fyrir vikið hætt að hlaupa, þá gengur hún úti í náttúrunni af miklum móð, og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna. Við þurftum að láta tíkina Freyju fara á vit feðra sinna og mæðra og söknuður er að henni, elskulegt og yndælt kvikindi.

Úr samfélaginu eru verri tíðindi. Sívaxandi misskipting í okkar ríka samfélagi með alvarlegum afleiðingum – eins og eilífum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu – er mikið áhyggjuefni. Og sífellt koma upp á yfirborðið ný og ný spillingarmál. Allir gerðu sér svo sem grein fyrir viðvarandi spillingu: hið gamla helmingaskiptakerfi stærstu stjórnmálaflokkanna var grundvallað með fullveldinu og ól þá spillingu sem hefur verið landlæg allar götur síðan; og þá meðvirkni sem byggst hefur upp meðal þjóðarinnar. Allt of margir hafa litið, og líta enn, undan eða með velþóknun á skattsvikara og gráðuga undanskotsmenn – „vinnukonuútsvar“ stórgróssera í gegnum tíðina, aflandsreikninga nútímans – og náin faðmlög stjórnmála og viðskiptalífs sem kristallast í formönnum tveggja stjórnmálaflokka, beggja fyrrum forsætisráðherra, og svo núverandi sjávarútvegsráðherra. Að ekki sé talað um dómstólana og allt hitt svínaríið.

Vonbrigði ársins eru Vinstri grænir. Björt framtíð og Viðreisn slitu stjórnarsamstarfi þegar spilling dómsmálaráðherra (tveggja fremur en eins) Sjálfstæðisflokksins opinberaðist. Vinstri grænum dettur slíkt ekki í hug en láta sér vel líka að innanbúðarmaður í Samherja, gerspilltu fyrirtæki, sé ráðherra sjávarútvegsmála. Þeir láta sér vel líka að vinna með manni sem nýtti sér innherjaupplýsingar og seldi í „sjóði 9“ korter í hrun og sagði um þann gjörning:  „…ég man ekki eftir því að það hafi verið eitthvað sem mig rekur minni til …“. Auk þess að sitja á skattaskjólsupplýsingum og fá lögbann dæmt á þann fjölmiðil sem ætlaði að birta upplýsingarnar fyrir kosningar. Svo eitthvað sé nefnt. Í ofanálag hefur Vgf svikið öll kosningaloforð sín er vörðuðu jöfnun lífskjara. Skömm að því.

Sendi „hugheilar“ óskir um gleðilegt nýtt ár.

Gleði og farsældar fjölskyldan naut,
fyrir það bljúgur nú þakka.
Hamingja, ekki neitt óþarfa skraut,
til áranna næstu ég hlakka.

 

Sparibúið á spillingarbraut
speglar sig broshýrt á þingi
viðskiptaliífið og valdstjórn, með graut
sem vonar að þjóðin svo kyngi.

 

Nú árið er liðið og engu ég skaut
upp hér að þessu sinni
femur en áður. Frá mér nú þaut
ein flísin af ævinni minni.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *