Jólakveðja 2020

Það er jóladagsmorgunn og

friður og kyrrð er í kotinu

er karlinn loks rankað’ úr rotinu

eftir átið í gær.

En mér er víst nær

því sjaldan ég neitað hef flotinu.

 

Við hjónin vorum hjá dóttur okkar, tengdasyni og tveimur yndislegum dætrum þeirra í gær, eins og flest undanfarin ár á aðfangadag, og ekki í kot vísað hjá þeim. Við höfum því látið stjana við okkur og erum enn með öllu óbuguð af jólastressi og álagi sem því fylgir að „hafa allt 100%“ – og halda jólaveislu. Og hin hefðbundna jóladagsveisla okkar verður í skötulíki þetta árið „út af dotlu“ eins og þykir fínt að segja þessi misserin. Aðeins 10 væntanlegir í stað þeirra tuttuguogfimm sem eru skráðir í niðjatalið.

Það væri af mörgu að taka ef fara ætti yfir þjóðlífssviðið. Elítan leyfir sér að venju sínar sjálfteknu 15 mínútna „frímínútur“ með hefðbundnum, innantómum afsökunarbeiðnum. Hvernig hún hefur nýtt sín „náðarkorter“ er svo ljótt og leiðinlegt að það á ekki heima í jólakveðju á friðsælum morgni í svartasta skammdeginu.

Við fjölskyldan höfum haft það gott á árinu og yfir engu að kvarta. Enginn hefur veikst af faraldursveirunni, enginn hefur misst vinnu eða framfærslu, við höfum passað okkur og getað hittst og notið samvista. Við njótum forréttinda okkar í auðmýkt gagnvart örlögunum og sendum þeim sem eiga um sárt að binda hjartans kveðju. Það er of mikið um hörmungar allt í kringum okkur, og barning í óbærilegum aðstæðum. Þetta þarf ekki að vera svona.

Veðurútlitið er ekki allt of gott fyrir Hellisheiðina, en við treystum á dómgreind okkar besta fólks, að það fari ekki að ana út í vitleysu. En vonum það besta og skellum í frómasinn. Ef við sitjum svo ein að 3.4 kílóum af hangiketi með uppstúf og tilbehör vegna veðurs, þá verður að hafa það.

Nú er hann aðeins að byrja að brýna sig hérna utan við glerið, eins og spáin gerði ráð fyrir að gerðist um níuleytið. Farið vel með ykkur, elskurnar.

Gleðileg jól.

Er áföll skekja lýð og lönd,

logar orrahrina,

er bót að rétta hjálparhönd

og hylla mannúðina.

 

Ei á meðul virðumst vönd,

„vík oft milli vina“.

Við óvild þarf að reisa rönd

og rækta samúðina.

 

Þegar glæta dagsins dvín

og dregur lífs úr funa,

bros í gegnum skuggann skín

og skreytir hamingjuna.

 

Ás á hendi allir fá,

aðeins þarf að muna

að treysta bara alltaf á

ást og samveruna.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *