Kennarar

Alþjóðadagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni fylgir Fréttabréf Kennarasambands Íslands með Fréttablaðinu, fjórblöðungur með greinum, viðtölum og stuttum innslögum. Margt er þar sagt fallegt um kennara. Og kennarar eiga það sannarlega skilið að um þá og starf þeirra sé talað fallega og af virðingu.

Þó misjafn sé sauður í mörgu fé, og sumt fólk eigi um sárt að binda eftir viðskipti sín við hina svörtu sauði í kennarastétt, þá er þessi dagur ekki dagurinn til að fjalla um það. Því lang-, langflestir kennarar eru til fyrirmyndar. Og þeir eru hvorki meira né minna en „þungamiðjan í skólakerfinu – þeir eru vélin sem lætur allt ganga áfram og eru lykill að allri framþróun í skólamálum“ og samvinna við þá er forsendan fyrir því „að skólinn geti verið það hreyfiafl í samfélaginu sem hann þarf að vera til að hér byggist framsækið samfélag“, segir menntamálaráðherrann okkar í fréttabréfinu.

Og skólarnir unnu hvorki meira né minna en kraftaverk í og eftir hrunið. „Kennurum tókst að vernda vinnustað barnanna okkar fyrir streitunni í samfélaginu […]. Þeim verður seint fullþakkað“, segir alþingismaðurinn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, og bætir við: „Sem stjórnmálamaður stend ég með því að kennarar fái góða menntun, skapandi starfsumhverfi og laun í samræmi við ábyrgð.“

Landssamtökum foreldra „er umhugað um velferð skólabarna“ og samtökin vita „að kennarinn skiptir þar sköpum“, segir Ketill B. Magnússon, formaður Heimilis og skóla. „Eitt helsta mótunarafl í lífi barna okkar fyrir utan okkur foreldra er skólinn. Þar gegna kennarar lykilhlutverki“, segir Margrét Valgerður Helgadóttir, formaður SAMFOK.

Og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, vill „standa með kennurum í því að auka starfsánægju og bæta vinnuaðstæður þeirra“.

Já, mikil er ábyrgð kennara. Og seint verður þeim fullþakkað fyrir að tryggja velferð og leika lykilhlutverk, bæði við mótun barnanna og framþróun alls samfélagsins. Ætli önnur starfsstétt beri öllu meiri og augljósari ábyrgð, til lengri tíma litið?

En hvernig eru þær starfsaðstæður sem þessu kraftaverkafólki, íslenskum kennurum, er boðið upp á? Þær hljóta náttúrulega að vera til fyrirmyndar? Enginn getur verið svo glámskyggn að vilja draga úr starfsárangri stéttar sem ber ábyrgð á velferð og mótun barnanna, já framþróun samfélagsins alls, með því að bjóða henni upp á eitthvað annað en bestu hugsanlegar aðstæður? Eða hvað?

Allir vita auðvitað að raunveruleikinn er ekki svona. Síðastliðinn miðvikudag var haldinn aðalfundur Kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fundurinn samþykkti einróma ályktun þar sem lýst var yfir

miklum áhyggjum vegna viðvarandi aukins álags á félagsmenn í starfi. Undanfarin ár hafa kennarar í F.Su. sýnt einhug og samstöðu með stjórnendum stofnunarinnar í sparnaðaraðgerðum vegna niðurskurðar á fjárframlögum frá ríkisvaldinu. Mikil fjölgun nemenda í námshópum og sífellt fleiri og flóknari verkefni, utan hefðbundinnar kennslu, auka streitu og koma niður á gæðum kennslunnar. Það er mat fundarins að nú sé komið að þolmörkum. Hópar með 30 eða fleiri nemendum, önn eftir önn, og dæmi um námshópa í undirbúningsnámi sem telja 27 nemendur, eru langt utan skynsamlegra marka. Fundurinn telur að við núverandi aðstæður sé brotið á faglegum starfsheiðri kennara sem og lögbundnum rétti nemenda til einstaklingsmiðaðrar þjónustu. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja fjárhagslegan grundvöll faglegs skólastarfs og stjórnendur skólans að koma starfsaðstæðum í viðunandi horf við upphaf vorannar 2013.

Auk þessa taldi fundurinn „augljósa þörf á aukinni sérfræðiþjónustu innan skólans, til að sinna hluta þeirra starfa sem nú eru í höndum almennra kennara og náms- og starfsráðgjafa.

Þessar ályktanir lýsa vel starfsaðstæðum kennara almennt, og um leið grundvallarvanda skólakerfisins.

Og allir vita auðvitað líka að yfirlýsingar eins og þær sem Katrín menntamálaráðherra og þingmaðurinn Sigríður Ingibjörg gefa í Fréttabréfi KÍ á Alþjóðadegi kennara eru varla annað en marklaus belgingur á hátíðisdegi, þó sjálfsagt meini þær vel, og ég fyrir mína parta treysti þeim báðum betur til góðra verka en flestum öðrum þingmönnum. Þetta eru bara svo gamalkunnug stef á Íslandi.

Því eins og formaður Skólameistarafélags Íslands segir þá hafa kennarar áratugum saman „staðið vaktina fyrir alltof lág laun og unnið að menntun og uppeldi ungs fólks af eldmóði og hugsjón. Þeir hafa skilað þessu unga fólki út í samfélagið færu til að takast á við margháttað nám og störf“ á skítakaupi við sífellt erfiðari aðstæður, sífellt meiri kröfur um einstaklingsmiðaða þjónustu, sífellt fjölbreytilegri nemendahóp, sífellt flóknari persónuleg úrlausnarefni, án þess þeim sé um leið gert kleift að veita þá lögbundnu þjónustu með því t.d. að fækka nemendum í bekkjunum og auka sérfræðiþekkingu innan skólanna.

„Þjóð sem metur ekki vinnu kennara hverfur aftur til miðalda. Það eru kennararnir sem eiga að fræða börnin um heiminn, og til að geta það þurfa þeir að fá góð laun og búa við aðstæður sem gera þeim kleift að bæta sífellt kunnáttu sína og þekkingu“, segir Kristín Marja Baldursdóttir, rithöfundur, af sínu skynsamlega viti.

Slitastjórnalögfræðingar raka til sín stjarnfræðilegum fjárhæðum með sjálftöku og helstu ábyrgðarmennirnir fyrir bankahruninu gera sér ekki að góðu tugi milljóna, heldur heimta hundruð milljóna í einhverskonar skaðabætur eða vangreidd laun, í skjóli meintrar „gríðarlegrar ábyrgðar“ sinnar. Þetta eru mennirnir sem hafa haft af kennurum og öðrum þegnum landsins eigur og ævisparnað. Á sama tíma lepja kennarar dauðann úr skel við hörmulegar starfsaðstæður. Er þetta, án gríns, að meta ábyrgð til launa? Sigríður Ingibjörg?

Það er líka forvitnilegt að lesa hvernig formaður sambands sveitarfélaga vill standa með kennurum og bæta starfsánægju og vinnuaðstæður þeirra. Hann vill „taka upp nýtt vinnutímafyrirkomulag“ og „sveigjanlegri kennsluskyldu“. Hvað á hann við með því? Jú, það sem býr að baki er að skólastjórnendur geti hundnýtt kennara, í hvaða störf sem er, þær stundir vinnudagsins sem þeir eru ekki með nemendum inni í skólastofu. Þetta hefur lengi verið baráttumál sveitarfélaganna, eftir að þau tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ætli það bæti starfsánægju kennara?

Katrín Jakobsdóttir, Sigríður Ingibjörg og Halldór Halldórsson. Hækkið þið fyrst laun kennara svo sómi sé að. Aukið næst fjárframlög til skólanna, svo hægt sé að fækka nemendum í námshópum og fjölga starfsfólki með fjölbreytta sérfræðimenntun. Þá munu kennarar fyrst eiga möguleika á því að sinna hverjum og einum nemanda á hans forsendum, eins og lög kveða á um. Þá munu þeir líka glaðir taka með ykkur á „úreltum, miðstýrðum vinnutímaskilgreiningum“ og öðrum vanda skólakerfisins. Og ef eitthvað er að marka fagurgalann munu skólabörnin njóta góðs af og þjóðin svo blómstra í framtíðinni.

Hætt er samt við því að lítið þokist í rétta þátt. Því ef þetta ágæta fólk myndi láta athafnir fylgja orðum sínum um kennara og kennarastarfið, skapa þeim viðunandi aðstæður og borga laun í samræmi við ábyrgð, þá yrði allt sjóðvitlaust í þjóðfélaginu.

Fremstir í fordæmingunni færu forkólfar verkalýðsfélaga, eins öfugsnúið og það nú er. Fast á hæla þeim kæmu forkólfar atvinnrekenda. Og í kjölfarið allir hinir niðurrifsbesserwisserarnir, sem á hátíðisdögum setja þó á fagurgala um nánast ómannlega ábyrgð kennara og mikilvægi kennarastarfsins.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *