„…kerra, plógur, hestur“.

Sú ánægjulega þróun hefur orðið hér á landi að 95% unglinga sem ljúka grunnskóla innrita sig beinustu leið í framhaldsskóla. Þetta er ákjósanleg staða fyrir metnaðarfulla þjóð, sem skilur að aukin og góð menntun æskunnar er lykillinn að lífskjörum komandi kynslóða – sjálfur grundvöllurinn að velferð þjóðarinnar um alla framtíð, hvorki meira né minna!

Þessari miklu fjölgun í framhaldsskólakerfinu fylgir samt, vel að merkja, eitt og annað úrlausnarefnið. Ekki er t.d. lengur hægt að bjóða öllum það sama, með sama hætti, á sama hraða. Til að bregðast við þessari breyttu samsetningu nemendahópsins þurfti að gera átak í því að losna við sem mest af fagmenntun og fagvitund úr kennarastéttinni en koma þar fyrir í staðinn menntun á háskólastigi, í einhverju sem kallað er kennslufræði, en það er nýyrði og safnheiti sem menntaelítan bjó til á sínum tíma yfir fjölbreytilegar, aldagamlar aðferðir við barnapössun og uppeldi (gott ef rottur koma ekki eitthvað við sögu) – og kalla má á alþýðumáli heilbrigða skynsemi.

Sú tíð er sem sagt liðin að framhaldsskólakennurum dugi að vera góðir fræðimenn í sinni grein, með þokkalega heilbrigða skynsemi í farteskinu og hæfni í mannlegum samskiptum – nú til dags er fræðimennskan í besta falli gagnslaus eiginleiki, en í versta falli stórkostlegt fótakefli, a.m.k. fyrir kennara sem hefur störf með heilbrigðan faglegan metnað. Slíkum kennara fallast fljótt hendur frammi fyrir stórum hópum af ólæsum nemendum, sem neyta allra bragða til að nota rándýra nútímatæknina, sem skólarnir leggja sig fram um að bjóða upp á, til að leika sér í – eða vafra um á svokölluðum „samskiptasíðum“, sem reyndar, þrátt fyrir nafnið, eru sennilega mestu hindranir á mannleg samskipti sem fundnar hafa verið upp í sögu mannsandans.

Þannig séð er yfir margar kennslustofur framhaldsskólanna að líta eins og þingsalinn við Austurvöll, og minnst var á í síðasta pistli; þeir fáu sem þar eru mættir eru annaðhvort sofandi, að leika sér á Netinu eða að lesa blöðin – sem sagt, eins og vera ber, að gera eitthvað allt annað en þeir ættu að vera að gera (man enn eftir eigin menntaskólaárum).

Kennarastarfið hefur breyst gríðarlega undanfarna áratugi – úr virðulegu embætti menntaskólakennarans, hámenntaðs fræðimanns með æviráðningu samkvæmt skipunarbréfi, vottuðu af ráðherra sjálfum, í kennslufræðing með eitthvert lágmarksstaut í eigin kennslugrein, sem ráðinn er á skrifstofu skólameistara með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Það segir sig auðvitað sjálft að til þess að geta haldið nemendum, t.d. í byrjunaráföngum í móðurmálinu, að mestu í sætunum sínum, eða a.m.k. að ná þeim, sem ekki eru sofandi, niður úr gluggatjöldunum, er einskis vert að hafa magisterspróf í bókmenntum; það er mun líklegra að doktorspróf í málfræði komi að gagni!

Nei, að öllu gamni slepptu, þá dugar fátt betur við slíkar aðstæður en góður kennslufræðingur.

Til þess að sinna nemendum sem best, og hjálpa þeim að hlýða reglunum, eru sett upp í skólunum fjölþætt þjónustu- og stuðningskerfi. Stór hópur fólks hefur af því atvinnu að berjast í regluverkinu, aðallega við að veita nemendum undanþágur. Fátt er ánægjulegra í nútíma skólastarfi en þegar tekst að finna upp góða undanþágu.

Hátt í helmingurinn af framhaldsskólanemendum er með svokallaðar „greiningar“, sem sumar bera illskiljanleg fræðiheiti á erlendum tungum og vísa ýmist til námslegra, félagslegra, andlegra, sálrænna eða líkamlegra einkenna af ólíkum toga. Þetta þurfa kennararnir að glíma við, með kennslufræðina eina að vopni, og að auki er þeim uppálagt að veita námsráðgjöf, leiðbeina nemendum um afkima kerfisins, fylgjast með mætingum fyrir þá, sinna almennu hópefli utan kennslustunda, innleiða lög, semja skólanámskrár, búa til og innleiða sjálfsmats- og gæðakerfi, og svo framvegis og svo framvegis (þú mátt alveg bæta nokkrum o.s.frv. við).

Nútíma framhaldsskólakennari þarf að hafa þekkingu á sviði tómstundafræða, félagsráðgjafar, námsráðgjafar, sérkennslu, sálfræði, geðheilbrigðisvísinda, læknavísinda, margskonar skynrænna hindrana og kennslu nemenda með annað móðurmál, svo eitthvað sé nefnt. Um leið eru hinir eiginlegu námsráðgjafar og sérkennarar farnir að færast nær enn flóknari og sérhæfðari vísindum í sínu starfi, ýmiskonar flóknari terapíu. Sérþekking í eigin kennslugrein er algert aukaatriði í nútíma skólastofnun.

Öllu þessu þarf venjulegur kennari að vera viðbúinn að mæta af æðruleysi og kunnáttu í kennslustundum, og geta svo leitað úrlausna við fjölbreytilegum og flóknum vandamálum á þeim tæpu fjórum klukkutímum á viku, sem hann fær greidda fyrir önnur störf en beinharða kennslu – þar með er líka undirbúningur kennslustunda, yfirferð verkefna og almenn samskipti og viðtöl við nemendur og foreldra þeirra (sem eru yngri en 18 ára) um námsefnið og kennsluna.

Margir kennarar munu auðvitað sinna stórum hluta af þessum störfum í frítíma sínum, því kennarar eru samviskusamir og vandir að virðingu sinni – og vilja umfram allt annað hjálpa nemendum sínum og koma þeim til manns. Í „kennaraeðlinu“ eru augljós einkenni meðvirkni.

Hætt er við því að lítið gagn yrði að einhverjum „fagídíótum“ í mál-, raun- eða félagsvísindum í framhaldsskólunum. Þar leggst nú orðið, því miður, meira að segja lítið fyrir kennslufræðinginn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *