Vesalvæðingin

Upp úr 1990 hófst einkavinavæðingarskeiðið mikla á Íslandi. Ekkert var óhult, ef það var í opinberri eigu, og var þá hvorki skeytt um skömm né heiður. Takmarkið var að koma sem mestu af eigum almennings í hendurnar á „réttum aðilum“. Einkavæðingarstefnan var hugarfóstur Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarmenn voru svo lítilþægir að taka þátt í spillingunni – bara ef þeirra menn fengu hluta af kökunni. Og svo skiptu flokkarnir góssinu bróðurlega milli sín.

Á sama tíma, í tíð Friðriks Sophussonar í fjármálaráðuneytinu, hófst það sem átti að vera „uppskurður og tiltekt“ í ríkisrekstri. Þessi tiltekt gekk undir nafninu New Public Management eða Nýskipan í ríkisrekstri og er skilgetið afkvæmi frjálshyggjunnar sem þá hafði tröllriðið hinum vestræna heimi um skeið, og átti eftir að keyra fjármálakerfi heimshlutans í kaf þegar tímar liðu, og við súpum nú seyðið af.

Stefna þessi hafði á margan hátt mikil áhrif á rekstur og starfsemi ríkisstofnana og skólakerfið fór ekki varhluta af því. Lög um framhaldsskólastigið á 10. áratugnum (lög nr. 80/1996) eru t.d. lituð henni sterkum litum. Í skýrslunni Umbætur og nýskipan í ríkisrekstri (1993) segir fjármálaráðherrann í formála að kjarni stefnunnar sé „að dreifa valdi, auka ábyrgð og flytja ákvarðanir sem næst vettvangi og ná með því hagkvæmari rekstri og betri þjónustu“. Þessum markmiðum átti að ná með einkavæðingu, fleiri útboðum verkefna og samningsstjórnun – þ.e. að stofnun fái aukið sjálfstæði í eigin málum gegn því „að ná skilgreindum árangri á tilteknum sviðum“.

Í kjölfarið komu „gæðakerfi“ og sjálfsmat, enda hafi markmiðasetning „takmarkaðan tilgang nema hægt sé að mæla árangur“ með nothæfum mælikvörðum. Boðaður var opinber samanburður á árangri stofnana til að koma á samkeppni milli þeirra og skapa þannig „aðhald og ódýrari þjónustu“. Til að stjórna ríkisstofnunum var talið mikilvægast fyrir stjórnendur að hafa fyrst og fremst menntun í og reynslu af stjórnun, fremur en faglega menntun og reynslu á starfssviði viðkomandi stofnunar. Hvað skólana varðar þýddi þetta að mikilvægara væri að skólastjórar væru með reynslu og menntun í viðskiptum og stjórnun en að þeir væru reyndir kennarar. Annað afkvæmi þessara pólitísku áherslna er „reiknilíkanið“ svokallaða, sem enn er notað til að ákveða fjárveitingar til skólanna.

Allar götur síðan hefur gríðarleg vinna verið lögð í það í skólunum að innleiða einhver gæðakerfi og staðla þau, að koma upp mælanlegum markmiðum. Ytri (á vegum mmrn.) og innri úttektir eru gerðar reglulega og tekið tillit til margra þátta. Alls ekkert hábölvað allt saman, langt því frá, en mikilvægt að halda því til haga að því meiri vinnu af þessu tagi, sem krafist er af kennurum, því minni tíma hafa þeir til að sinna kennslunni og nemendunum.

Mat á skólastarfi er hinsvegar hægara sagt en gert. Hvað er gott skólastarf? Hvað er góður árangur? Einfaldast, og kannski algengast, er að miða við einkunnaskalann. Ef nemendur útskrifast með góðar einkunnir, er þá ekki augljóst að árangurinn af skólastarfinu er góður og skólinn þar af leiðandi góður? Tilgangur samræmdu stúdentsprófanna, sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins lögðu mikla áherslu á, var einmitt sá að veita þann opinbera samanburð og skapa þá samkeppni milli stofnana sem sóst var eftir með NPM, að sögn til að „skapa aðhald og ná fram ódýrari þjónustu“, en í raun og veru aðallega til að hægt væri að sýna fram á það svart á hvítu hvaða skólar eru góðir og hverjir lélegir, svo það þyrfti heldur ekki að vera í einhverjum feluleik með þá umræðu.

Sem betur fer átta flestir hugsandi menn sig á því að ekki er hægt að afgreiða gæði skólastarfs á svo einfaldan hátt.

Fjárframlög úr ríkissjóði til skóla eru reiknuð á nemendaígildi. Reiknilíkanið skilur enginn, nema kannski einn eða tveir kallar í ráðuneytinu. Markmið þess er samt að úthluta fé á sanngjarnan, gagnsæjan hátt og taka tillit til þess að skólarnir eru ólíkir, með misfjölbreytt og misdýrt námsframboð, mismarga nemendur o.s.frv. Allt gott og blessað.

Skólarnir fá úthlutað fjármagni í reksturinn miðað við þau nemendaígildi sem skila sér til prófs. Markmiðið með þessari tilhögun er árangursmæling. Því fleiri nemendum sem skólinn skilar til prófs, því betri árangur er af starfinu, ekki satt? Það er til lítils að afhenda skólum háar fjárhæðir af almannafé, til að mennta lýðinn, ef þeir geta ekki einu sinni skilað nemendunum til prófs, hvað þá meira?

En það er einnmitt nákvæmlega þarna sem vesalvæðingin hefst.

Stjórnendur skólanna eru í klípu. Ef t.d. þúsund manns innrita sig í einhvern skólann að hausti þurfa þeir að ráða kennara, tryggja skólahúsnæði, búnað og stoðkerfi (námsráðgjafa, skrifstofufólk o.s.frv.) sem annar þeim nemendafjölda. Lögum samkvæmt verður framhaldsskólakerfið að taka við öllum sem óska inngöngu. Kostnaðurinn liggur fyrir í upphafi annar, að innritun lokinni, en skólarnir fá bara greitt í samræmi við þann fjölda sem skilar sér í próf við lok annar. Ef hluti nemendanna hverfur á miðri önn, eða kannski bara daginn fyrir próf, hefur skólinn lagt út í kostnað sem fæst ekki greiddur, og situr uppi með tapið. Því fleiri sem hætta, því meira verður rekstrartapið. Ekki er víst hægt að segja upp kennurum og öðru starfsfólki, leigusamningum vegna kennsluhúsnæðis o.s.frv., jafnóðum og nemendum fækkar? En væri það ekki hin æskilega leið markaðshyggjunnar?

Hvaða afleiðingar hefur þetta? Ætli það sé gaman að reka heilan framhaldsskóla með bullandi halla?

Þetta kerfi skapar þrýsting á það að helst allir nemendur endist fram í prófatímann. Í okkar skólakerfi, þar sem 95% allra þeirra sem ljúka skyldunámi grunnskólans að vori innrita sig í framhaldsskóla að hausti, er auðvitað misjafn sauður í mörgu fé. Flestir vilja bara standa sig og útskrifast, en í svo fjölbreyttum hópi er því ekki að leyna að hópur nemenda, sem fer stækkandi, veit varla hvaða erindi hann á í skóla – og langar ekkert að vera þar. Hópur nemenda brýtur allar reglur sem skólarnir setja um mætingar, verkefnaskil og vinnuframlag. Fara samt furðu margir þeirra að heiman og í skólann á morgnana.

Auðvitað eru í framhaldsskólunum nemendur sem gengur illa í námi vegna ýmiskonar vanda – námslegra, félagslegra, sálrænna, andlegra eða líkamlegra erfiðleika – og ekki má gera lítið úr því eða rétti þeirra á þjónustu við hæfi. Skólakerfið er fyrir nemendur en nemendur ekki fyrir skólakerfið. Og vandi af þessu tagi stendur í engu sambandi við viljann til að standa sig.

En það eru nemendurnir sem ekki hafa neina greiningu, nemendur sem „ekkert er að“, en gengur samt bölvanlega að mæta í skólann, lesa námsefnið og komast áleiðis á menntabrautinni, sem eru áhyggjuefnið – og halda uppi brottfallstölunum!

Hér takast á tvö sjónarmið. Annars vegar þarf að skila sem flestum, helst öllum, til prófs svo útlagður kostnaður fáist greiddur. Það er hvorki gott til afspurnar, né skynsamlegt, að reka skóla með bullandi tapi ár eftir ár. Hinsvegar þarf að halda uppi ákveðnum lágmarkskröfum um gæði náms og kennslu. Á vorum símatstímum liggur það fyrir nokkuð fljótt hverjir nemendanna sækja kennslustundir með viðunandi hætti og sinna náminu af einhverju viti. Þeir dýrðardagar eru liðnir að hægt sé að lesa allt námsefni vetrarins í upplestrarfríi fyrir próf að vori, þar sem allt er lagt undir. Og það er engum til framdráttar að dragnast með hátt í þriðjunginn af nemendahópnum í bekknum algerlega utangátta. Hvorki þeim sjálfum né nemendum sem vilja gera sitt besta. Látum kennarana liggja milli hluta. Þetta hefur slæm áhrif á vinnuandann.

Ímyndum okkur bara hóp manna sem ræður sig sjálfviljugur í vinnu hjá fyrirtæki sem tekur að sér að moka skurði. Þriðjungurinn mætir ekki nema endrum og sinnum, og þegar það ber við, mætir hann allt of seint og skilur skófluna eftir heima. Þó verkstjórunum sé skapi næst að sveifla fætinum í afturendann á iðjuleysingjunum, og biðja þá að koma ekki aftur, getur hann lítið gert, því uppgjör fyrir verkið miðast við það hve margir eru enn við störf við verklok. Það er búið að leggja út í ákveðinn kostnað sem verður að fá greiddan, og framkvæmdastjórinn á bágt með að sýna eigandanum enn eitt ársuppgjörið með hallarekstri. Og því eru iðjuleysingjarnir dekstraðir til að mæta, allavega svona öðru hvoru. Hagkvæmara er að ráða sérstakan starfsmann sem heldur utan um skóflulager til að lána, annan til að sjá um bómullar- og hreinsisprittbirgðirnar og þann þriðja til að hafa alltaf nóg af plástri á skrámur. Verkstjórinn helypur svo á milli og sækir það sem vantar hverju sinni. Verkstjórnin verður bara að sitja á hakanum á meðan. Með þessu móti gæti tekist að halda öllum á staðnum, þó ekki væri nema að nafninu til og með því að hvíla sig á skurðbakkanum, á meðan hinir grafa.

Þetta vinnusiðferði, vesalvæðingin, er bein afleiðing af því „árangurshvetjandi“ umhverfi sem stjórnmálamenn hafa innleitt í skólakerfið. Nú er það verkefni stjórnmálamanna að taka afstöðu til þess hvort það sé þetta sem réttast sé og best að börnin okkar læri í skólunum.

Þrátt fyrir það umhverfi sem unglingunum er búið í skólum landsins eru margir þeirra sem betur fer bæði athugulir og sjálfbjarga. Nemandi sem fór í kynnisferð á Alþingi Íslendinga hafði t.d. þetta að segja að heimsókn lokinni, í greinargerð sem hann skilaði kennara sínum: „Það kom mér mjög á óvart hvað það voru fáir í þingsalnum, bara örfáar hræður sem þá voru annaðhvort sofandi, í símanum eða að lesa Moggann. Er Íslandi stjórnað svona?“

Kannski er ekki endilega von á miklu frá stjórnmálamönnunum?

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *