Kjarabarátta bak við luktar dyr?

Það var forvitnilegt að hlusta á hádegisfréttirnar í dag. Hjúkrunarfræðingar eru komnir af stað af fullum þunga í sína kjarabaráttu. Ekki er að sjá að sú kjarabarátta fari eingöngu fram milli fulltrúa samninganefnda bak luktra dyra – og að forsvarsmenn stéttarfélagsins feli sig á bak við einhverja „friðarskyldu“.

Hjúkrunarfræðingar eru komnir í bullandi „ímyndarbaráttu“ um allt þjóðfélag. Þeir koma sér í hádegisfréttirnar og láta heyra í sér. Og skafa ekkert af því. Enda engin ástæða til. Hjúkrunarfræðingar eru í svipaðri stöðu og kennarar og fleiri stéttir. Kjörin eru alls ekki boðleg.

Það gafst kjörið tækifæri fyrir forsvarsmenn Félags framhaldsskólakennara að fara sömu leið og hjúkrunarfræðingar fara nú, í kjölfar gleðilegra örlaga „samkomulagsins“ um daginn. Þá opnaðist dauðafæri fyrir forystuna að koma fram í fjölmiðlum með beittum hætti og nýta sér þannig byrinn sem félagsmenn gáfu í segl kjarabaráttunnar og vekja rækilega athygli á stöðunni og baráttuvilja kennara.

Hvernig stendur á því að  það var ekki gert? Ekki er það brot á „friðarskyldu“ við gildandi kjarasamning að láta í sér heyra? Ekki eru félagar í FF að senda inn uppsagnir í stórum stíl? Eða hvað?

Í staðinn fyrir að vekja opinberlega athygli á hraklegum launakjörum kennara þá sendir formaður FF félagsmönnum, umbjóðendum sínum, tóninn í tölvupósti: þeir hafi skítfellt samkomulagið fyrir tóman misskilning; þeir séu svo skyni skroppnir að þeir hafi misskilið meira og minna allt í þessu blessaða samkomulagi.

En það gerðu þeir ekki. Þeim einfaldlega leist alls ekkert á það sem formaðurinn undirritaði.

Rétt er að benda forystu FF á það hlutverk sitt að gæta hagsmuna félagsmanna. Það gerir hún ekki með því að tala niður til þeirra. Ef einhverjum á að senda tóninn, þá er það samninganefnd ríkisins og fjárveitingavaldið, ekki félagsmenn í FF.

Í kjölfar hrakfara sinna við samningaborðið ætti forystusveit FF að lágmarki að íhuga að breyta um taktík. Kannski ætti hún að „íhuga stöðu sína“?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *