Metnaðarfullt menningarverkefni

Þrátt fyrir ungan aldur er Karlakór Hreppamanna fjölmennur og öflugur og óhætt að fullyrða að hann hafi afrekað margt. Eftirminnilegir eru tónleikar til heiðurs Sigurði Ágústssyni á aldarafmæli hans og annar hápunktur í starfi kórsins er tvímælalaust mögnuð tónleikaröð til heiðurs Franz Liszt á 200 ára afmæli snillingsins haustið 2011.

Menningarráð Suðurlands hefur nú í þriðja sinn ákveðið að veita kórnum menningarstyrk, sem sýnir best hve metnaðarfullt starf hans er. Styrkurinn í ár er veittur kórnum til að takast á við óperutónlist, með tónskáldin Verdi og Wagner í forgrunni, en árið 2013 eru 200 ár frá fæðingu beggja þessara meistara. Æft verður af krafti í vetur og síðan eru fyrirhugaðir fernir tónleikar næsta vor, tvennir á Suðurlandi og tvennir á höfuðborgarsvæðinu.

Kórinn hefur í þessu verkefni fengið til liðs við sig tvo þekkta einsöngvara til að túlka allt litróf óperutónlistarinnar. Það eru þau Gissur Páll Gissurarson og Elsa Waage sem slegið hafa í gegn undanfarið, Elsa nú síðast á sviði Hörpu í magnaðri uppfærslu á óperu Verdis, Il Trovatore, sem hópur kórfélagar sá saman fyrr í haust.

Auk tónleika hér á landi mun kórinn halda til Ítalíu næsta haust og syngja á tónleikum á vegum FENIARCO (Federazione Nazionale Italiana Associazioni Corali Regionali), sem eru kórasamtök þar í landi. Því er ekki að leyna að töluverður spenningur er innan kórsins fyrir því verkefni að syngja í föðurlandi óperunnar og anda að sér tónlistarmenningunni með ítölskum söngbræðrum og systrum.

Það er von okkar í Karlakór Hreppamanna að Sunnlendingar, og landsmenn allir ef út í það er farið, taki þessu menningarbrölti öllu saman vel. Það er ekki sjálfgefið að kór af þessu tagi, skipaður áhugamönnum, flestum alls ómenntuðum í söng og tónlistarfræðum, ráðist í slík stórvirki.

Heiðurinn að listrænum metnaði kórsins á stjórnandinn, Edit Molnár, sem hefur árum saman unnið ötullega að því markmiði að færa Sunnlendingum helstu tónlistarperlur heimsins og víkka um leið listrænan sjónhring þeirra. Heimslistin er nefnilega ekki bara fyrir einhverja elítu „fyrir sunnan“. Henni til fulltingis í starfi sínu er svo afburða píanóleikari, Miklós Dalmay, sem setur sterkan svip á kórstarfið með sinni leiftrandi glettni, fyrir utan að taka sjálfum sér sífellt fram með snilldarleik á flygilinn.

Þann 21. nóvember sl. var Karlakór Hreppamanna í útvarpi allra landsmanna. Á Rás 1 er þátturinn Raddir, sem þennan dag var helgaður kórnum. Þáttinn, með söng kórsins og viðtölum við stjórnanda hans og nokkra kórfélaga, er hægt að hlusta á með því að smella á þennan tengil.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *