Lifir í gömlum glæðum

Í „gullaldarbókmenntunum“ segir frá því skeiði í Íslandssögunni er hetjur riðu um héruð. Hetjur þessar voru þó næsta lítils virði í sjálfum sér – þær voru aðeins hluti af ættinni – en gátu þó vissulega varpað ljóma á hana með gjörðum sínum. Ættin var kjarni samfélagsins, upphaf og endir alls, en einstaklingurinn eins og hvert annað peð sem mátti missa sín. Sómi ættarinnar var það sem standa þurfti vörð um. Það var gert með oddi og eggju – blóðhefndin – og skipti þá engu hvar niður var borið: alsaklausir og friðsamir gátu til jafns við sökudólga búist við því að skálmareggin væri það síðasta sem ljós augna þeirra nam.

Þeir sem ekki skildu þetta, eða brutu gegn lögmálinu, voru útskúfaðir – útlagar, skógarmenn, vargar í véum – brottrækir úr mannlegu félagi og þurftu að bjarga sér sem villidýr á mörkinni. Til að tryggja eigin velferð var því vissara að halda sig á mottunni og vinna dyggilega að hagsmunum ættarinnar.

Til að víkka samtryggingarkerfið út fyrir mörk ættarinnar stofnuðu menn svo til fóstbræðralags. Óskyldir mynduðu hagsmunatengsl með því að blanda blóði, og hétu því að standa saman út yfir gröf og dauða. Einn fyrir alla og allir fyrir einn! Að þeim samningi gerðum var alveg sama hvaða vitleysu eða ódæði einn gerðist sekur um – þegar vel lá við höggi – aðrir sátu uppi með sameiginlega ábyrgð – og því eins gott að verja gjörninginn með öllum tiltækum meðulum.

Í nútímanum má enn sjá glögg merki þessara eldfornu félagslegu grunnstoða samfélagsins.

Allir Íslendingar þekkja þess dæmi að fremur sé farið eftir ættartengslum en hæfni við ráðningar, og er þá alveg sama hvort um er að ræða störf í einkageiranum eða embætti innan stjórnsýslunnar. Þessi hagsmunagæsla hefur á vorum tímum víkkað út í hóp vina og kunningja. Gamla ættarsamfélagið er nú „kunningjasamfélag“.

Og skýrustu dæmin um fóstbræðralag nútímans er að finna í stjórnmálaflokkum. Þar eru flestir á sömu forsendum og forfeðurnir í fóstbræðralagi – hafa látið múra sig þar inni fyrir lífstíð: Einn fyrir alla og allir fyrir einn! Hinir innmúruðu þjappa sér saman um sameiginlega hagsmuni hvað sem á dynur, og því þéttar sem vitleysan og spillingin er meiri.

Þessi árátta hefur dafnað og blómstrað á gjörvöllu skeiði helmingaskiptaflokkanna. Sú nafngift – helmingaskiptaflokkarnir – segir eiginlega allt sem segja þarf. Að „vel meinandi fólk“ skuli leggja nafn sitt og trúnað við slíkan félagsskap er með fullkomnum ólíkindum – og verður ekki skýrt nema með því að fólk gangi undir einhverskonar jarðarmen, í anda fóstbræðralagsins til forna.

Í skjóli helmingaskiptaflokkanna hefur þannig þróast hér á landi það sem einn hinna innmúruðu kallaði réttnefninu „ógeðslegt þjóðfélag“.

Margskonar spillingar- og hneykslismál sem komið hafa upp á yfirborðið undanfarið ættu því engum að koma á óvart. Nýleg dæmi: Einhver óþverri var látinn renna með frárennslinu út í Eyjafjörð frá verksmiðju einni á Akureyri. Þungmálmamengaður áburður seldur bændum í tonnavís. Sorpbrennslur látnar spúa eitri yfir heilu byggðarlögin. Iðnaðarsaltið. Brjóstapúðarnir. Fjármála- og bankahneykslið!

Þegar spillingin er dregin fram í dagsljósið eru svörin þau, að þetta hafi nú allt verið vitað, en ekki talið taka því að skrúfa fyrir kranann, því þetta hafi viðgengist svo lengi! – og menn verði nú að fá að koma út birgðunum sínum! Lofað svo að gera þetta ekki aftur. Og varla þarf, í þessu samhengi, að rifja upp einu sinni enn stjórnvisku þeirra pólitíkusa sem færðu bankana í hendur reynslulausum gapuxum, vængstýfðu allt eftirlit með banka- og fjármálakerfinu, og lögðu svo niður þær stofnanir sem voguðu sér að benda á hættumerki eða bresti í ríkisfjármálastjórn þessara stórsnillinga?

Borin von er að þetta gamla, rotna kerfi geti tekið á málum af myndugleik, ekki fyrr en eftir langan tíma. „Jón í eftirlitinu“ er líklegast tengdur „Pétri verksmiðjustjóra“ eða „Gunnari sölumanni“, þó ekki væri nema að hann sé frændi Guðmundar sem er giftur Guðrúnu, dótturdóttur Jóhannesar langömmubróður Dísu, sem átti heima á númar 7, beint á móti Pétri sjálfum þegar hann var að alast upp um miðja síðustu öld. Eða að báðir eru múraðir inni – í sama sauðahúsinu! Nema hvort tveggja sé.

Það jákvæða við stöðuna er að helmingaskiptaflokkarnir hafa verið svældir út úr stjórnarráðinu. Í kjölfarið hefur sem betur fer allt fyrrnefnt – og ýmislegt fleira – komið fram í dagsljósið, þangað sem verður að draga það.

Og fráleitt er að við höfum sopið allt kálið. Hver fréttin af þessum toga mun reka aðra í fjölmiðlunum næstu misserin og árin, áður en öll kurl verða komin til grafar – því lengi lifir í gömlum glæðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *