Af „sanngjörnum ábataskiptum“

Á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara, sem haldinn var föstudaginn 12. apríl síðastliðinn, héldu erindi, undir liðnum Kjaramál, samningar og staða framhaldsskólans, þau Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari Kvennaskólans, Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ og Guðmundur H. Guðmundsson, frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þetta fólk flutti okkur, óbreyttum „fulltrúunum“, tíðindin af stöðu mála í íslenska framhaldsskólakerfinu og launakjörum framhaldsskólakennara. Ekki verður sagt að neitt nýtt hafi komið fram, sem við vissum ekki fyrir, fremur tölfræðilegar staðfestingar á þeim nöturlega veruleika sem blasir við nemendum og starfsfólki í skólunum á hverjum degi. Meginniðurstaðan er sú að skólakerfið, alveg eins og heilbrigðiskerfið, verður rústir einar innan skamms ef ekki verður rækilega spyrnt við fótum.

Í máli Ingibjargar kom fram að dagvinnulaun í framhaldsskólunum hafa að meðaltali dregist saman um tæp 2% frá 2007, yfirvinna um 36,6% og ýmsar aukagreiðslur um 48%. Þrátt fyrir þennan gríðarlega sparnað í launakostnaði hafa launatengd gjöld hækkað um 7,6% á sama tíma! Rekstrarkostnaður skólanna (annar en laun) hefur verið skrúfaður niður um 64%.

Á meðan á þessu hefur gengið hefur ársnemendum fjölgað mikið, skólarnir þjóna nú 3982 fleiri nemendum en þeir gerðu árið 2007, en fjölgunin ein kostar 3,2 milljarða. Meðal annars hafa skólarnir tekið þátt í því átaki með stjórnvöldum að hvetja atvinnuleitendur til að drífa sig í skóla í atvinnuleysinu og bæta þannig stöðu sína. Til að tryggja þessum tæplega 4000 fleiri nemendum „besta atlæti“ hefur starfsfólki skólanna verið fækkað á sama tíma um 3,4% og heildarlaunakostnaður á hvert stöðugildi dreginn saman um 11%. Við allan þennan niðurskurð hefur rekstrarkostnaður hvers ársnemanda í framhaldsskólakerfinu lækkað um meira en 100 þúsund krónur, fjárheimildirnar úr 813 þúsund og niður fyrir 695 þúsund.

Samtals er sparnaðurinn 10,5 milljarðar í ríkisskólunum á fimm árum og með „einkaskólunum“ bætist við tæpur einn og hálfur milljarður: samtals 12 milljarða niðurskurður í framhaldsskólakerfinu. Til að bæta gráu ofan á svart verður að geta þess að inni í þessum tölum eru aðeins nemendur sem hafa skilað sér til prófs, ekki allir nemendurnir sem skólarnir hafa „þurft að kosta upp á“.

Til að ná þessum „árangri“ hefur þurft að „auka afköstin“ hjá hverjum kennara með því að stækka námshópana og skera grimmilega niður fámenna valáfanga, helst að bjóða upp á sem fæst annað en almenna kjarnaáfanga, þar sem hægt er að stappa inn sem næst 30 nemendum, helst fleiri.

Formúlan er þessi: Fleiri nemendur » færri störf » stærri hópar. Þá er bara spurningin hvort niðurstaðan sé betri námsárangur? En kannski er það ekki markmiðið með rekstri skólakerfis á landinu bláa? Kannski er einmitt meginmarkmiðið að minnka kostnaðinn, hvað sem það kostar?

Auðvitað vitum við kennarar allt um þetta, þ.e.a.s. hver áhrifin eru á daglegt starf í skólunum. Þar ríkir víða hörmungarástand og margir kennarar að bugast undan ómanneskjulegu álagi. Að ekki sé talað um nemendurna sem njóta ekki þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á, lögum samkvæmt.

Niðurskurður í skólakerfinu er heldur engin nýlunda, eða fylgifiskur efnahagshrunsins. Jafnvel á árunum fyrir hrun, þegar tekjur ríkissjóðs voru í sögulegu hámarki, var markviss og grímulaus niðurskurður hafinn, jafnvel þegar á fyrstu árum 21. aldar. Að þessu leyti eru heilbrigðiskerfið og skólakerfið saman á báti.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins ræddi á fundinum m.a. tilgang og markmið þeirrar stefnu sem kölluð hefur verið Nýskipun í ríkisrekstri, eða New public management á erlendum tungum, og á rætur sínar í nýfrjálshyggju 10. áratugar 20. aldar. Ekki verður farið náið út í þá sálma hér, en þó hent á lofti orð hans um einn megintilgang svokallaðra „stofnanasamninga“ sem voru mikilvægur liður fyrrnefndar stefnu, með það að markmiði að auka sjálfstæði og ábyrgð einstakra stofnana. Grundvallarhugsunin var sú að ef stjórnendur næðu fram hagræðingu í rekstri átti stofnunin sjálf að njóta hluta ábatans. Þannig átti t.d. skólameistari að geta umbunað starfsmönnum sínum með auknum fríðindum eða hærri launum ef þeim tókst í sameiningu að lækka rekstrarkostnaðinn. Kennari væri þá (vonandi) tilbúinn til að leggja meira á sig í þeirri vissu að honum yrði umbunað með sanngjörnum hætti fyrir aukið álag. Þetta kallaði Guðmundur „sanngjörn ábataskipti“ og sagði vera eina af grunnforsendum stofnanasamninga.

Í praktíkinni hefur kennarinn aftur á móti ekki orðið var við nein ábataskipti, hvorki sanngjörn né ósanngjörn. Engum ábata hefur nefnilega verið skipt. Öll þau „vötn“ sem undin hafa verið af sífellt meira afli út úr hverjum kennara hafa fallið í eina átt – til Ríkisfjarðar. Þessa praktík, sem iðkuð hefur verið nánast alla tíð frá upphafi stofnanasamninga, kallaði fulltrúi fjármálaráðuneytisins réttilega forsendubrest, með vísan í tískuyrði samtímans. Hvaða stjórnmálaflokkar ætli hafi leiðréttingu vegna þessa forsendubrests á stefnuskrá sinni fyrir komandi kosningar?

Hagfræðingur KÍ gerði að umtalsefni misjafna „virðingu“ þjóða fyrir kennarastarfinu. Hann setti dæmið þannig upp að af vergri landsframleiðslu á mann fengi íslenskur meðalkennari aðeins 0,85%. Þetta þýðir að ef vergri landsframleiðslu væri skipt í jafnar kökusneiðar eftir íbúafjölda, miðað við að allir fengju eina sneið, þá duga kennaralaunin ekki fyrir einni meðalsneið, heldur aðeins 85%-um af henni. Það er því óhætt að segja að skorið sé við nögl handa kennurum og þeir séu í þessu tilliti undirmálsstétt í íslensku samfélagi. Til samanburðar fá kennarar í OECD-ríkjum eina heila sneið og 1/3 af annarri, í Danmörku eina heila sneið og næstum 2/3 af annarri, sem er hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum, og í Tyrklandi munu kennarar metnir ríflega tvígildir (2,03 sneiðar), sem dugar víst fyrir svipuðum launum og kennarar fá á Íslandi. Þetta var býsna forvitnilegt sjónarhorn, þótti mér.

En þetta vitum við kennarar allt saman ósköp vel. Við höfum reynt það á eigin skinni.

Skólameistari Kvennaskólans lét svo um mælt að ekki yrði gengið lengra eftir braut afkastaaukningar með stækkun námshópa. Eitthvað annað yrði undan að láta.

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.

Árum saman hefur dunið á kennurum og þjóðinni allri að engin þróun sé möguleg í skólakerfinu, þar standi allt fast og þversum – vegna vinnutímaskilgreininga í kjarasamningum kennara. Í þeim söng hafa sveitarfélögin sungið hæstu raddirnar, með Samband íslenskra sveitarfélaga sem forsöngvara, eftir að sveitarfélögin tóku yfir rekstur grunnskólanna. Ríkisvaldið, bæði ýmsir ráðherrar og alþingsmenn, hafa svo tekið hraustlega undir í dramatískum aríum.

En um hvað snýst þessi söngur? Hann snýst um það að í kjarasamningum er skilgreint hve margar kennslustundir kennari í fullu starfi skuli kenna í viku hverri. Þetta er kallað kennsluskylda. Með þessu fyrirkomulagi er það viðurkennt að kennarastarfið sé viðameira en bara að standa (eða sitja eftir atvikum) yfir nemendum inni í kennslustofu. Það að fjöldi stunda í kennsluskyldu sé ekki jafn og vikulegur vinnustundafjöldi flestra annarra stétta er viðurkenning á því að til þess að geta „kennt“ sómasamlega þurfi kennarinn bæði að undirbúa sig fyrir samveruna með nemendum og líka að „ganga frá“ á eftir (námsmat o.fl.).

Þetta virðist bæði eðlilegt og sjálfsagt fyrirkomulag. Allir hljóta að sjá það að kennari getur ekki „kennt“ látlaust frá átta til fjögur, fimm daga vikunnar. Fyrir utan að slíkt fyrirkomulag myndi bitna hvað harðast á nemendunum, þá myndi það fljótt gera út af við kennarana, því starfinu fylgir fyrst og fremst mikið andlegt álag, og framleiðsla á nýjum kennurum er ekki slík hér á landi að dygði til að fylla í skörðin. Fyrir nú utan það að geðheilbrigðisþjónustan réði alls ekki við vandann, eins og henni er ástatt.

Nýverið var vinnutímaboltinn enn hentur á lofti. Tilefnið var vinnudeila danskra kennara og sveitarfélaga. Í fréttum RÚV var vitnað í einhver danskan sem fullyrti að vinnutímaskilgreiningar kennara þar í landi væri hinn mesti dragbítur á allt skólastarf. Og í kjölfarið var bæjarstjórinn í Hveragerði dubbaður upp til að taka undir þennan söng fyrir hönd íslenskra skólarekenda. Boðskapur bæjarstjórans var ekki uppbyggilegur: í íslenskum skólum væri öll þróun í kaldakoli vegna þess að vinnutími kennara væri rígbundinn í kjarasamningum. Skilja mátti að ef tækist að leysa þá hörðu hnúta myndi allt horfa til betri vegar. Framþróun hæfist loks. Og bæjarstjórinn klykkti út með því í viðtalinu að auðvitað ætti að nýta starfskrafta kennara í það sem þeir gera best: að kenna!

Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo að því meira sem kennarar kenni, því betra verði skólastarf. Því þeir eru bestir í kennslu. Og best verður skólastarfið auðvitað með því að láta kennarana gera sem mest af því sem þeir eru bestir í.

Vonandi sjá allir heilvita menn rökleysurnar og öfugmælin í þessu viðhorfi. Hvernig þrælpíning kennara leiðir til betra skólastarfs er nefnilega vandséð.

Bæjarstjórinn gat þess ekkert í viðtalinu að með því að láta kennarana gera meira af því sem þeir eru bestir í, kenna meira – fleiri tíma á viku, þá geta sveitarfélögin, og ríkið í sínum hluta skólakerfisins, fækkað kennurum umtalsvert og sparað stórar fjárhæðir.

Ætli refirnir séu ekki til þess skornir?

Hér er sem sagt kominn nýr afleggjari af þeim vegi sem skólameistari Kvennaskólans fullyrti að væri til enda genginn. Það er ekki hægt að stækka bekkina meira. En það er einlæg ósk og ásetningur íslenskra skólayfirvalda að láta kennarana kenna meira innan dagvinnumarka. Miklu meira. Til þess þarf að brjóta niður vinnutímaskilgreiningarnar í kjarasamningum þeirra.

Og svo þarf líka að stytta nám til stúdentsprófs. Skera burt dálítið af stærðfræði, tungumálum og öðrum óþarfa. Já, alveg rétt. Styttingin á m.a. að vinna bug á hinu mikla og eilífa brottfalli, sem er helsti höfuðverkur íslenskra stjórnmálamanna. Stundum virðist hlutfallstala brottfallinna í samanburði við „viðmiðunarlöndin“ vera það eina sem þeim hefur tekist að festa hönd á í umræðu um íslenska skólakerfið. Flóknari breytur í þeim samanburði virðast þeim oftast huldar þokumóðu.

Staðreyndin er auðvitað sú að það eru ekki vinnutímaskilgreiningar kennara sem standa í vegi fyrir þróun skólakerfisins. Í fyrsta lagi er stöðug og öflug þróun víða í skólakerfinu, þökk sé hugsjónaeldi kennara, og það er orðið fjári þreytandi að hlusta á stjórnmálamenn ómerkja það starf allt með stöðugu tali sínu um annað. Í öðru lagi er nægur sveigjanleiki í kjarasamningum kennara til að kaupa meiri vinnu af þeim sem kæra sig um að vinna meira.

Það sem skortir hins vegar er aukið fjármagn inn í skólakerfið. „Það vantar fóður í stofnanasamningana“, sagði skólameistari Kvennó. Skólameistarar fá ekki fé til að reka skólana. Fjármagnið sem þeir fá til að greiða kennurum laun er 16% lægra en meðalkennaralaunin sannanlega eru, þó lág séu! Alþingi hefur verið duglegt undanfarin 40 ár að setja ný lög, á öllum skólastigum. Alþingi hefur hins vegar ALDREI látið nýjum lögum fylgja þær fjárveitingar sem það sjálft hefur þó látið reikna út að innleiðing nýrra laga kosti. Þarna liggur meginvandi íslenska skólakerfisins. Og sveitarfélögin eru ekkert skárri en ríkið þegar kemur að rekstri skóla, nema síður sé.

Á undanförnum fimm árum hefur verið skorið niður í framhaldsskólunum um 12 milljarða. Þegar búið er að skila þeim til baka, og bæta svo einhverjum milljörðum við, þá skulum við fara að tala saman.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *