Njósnir

Nýverið upplýsti Styrmir Gunnarsson að hann hefði stundað njósnir. Hann borgaði einhverjum fyrir að upplýsa um athafnir, orð og skoðanir samborgara sinna. Peningana til að standa undir þessari glæpastarfsemi útvegaði bandaríska sendiráðið, Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið.

Nú kemur það í sjálfu sér engum á óvart að þessir aðilar séu njósnarar. Bandaríkjamenn, flest ríki ef út í það er farið, halda úti misöflugu njósnaneti um heim allan og litla Ísland er auðvitað ekki undanskilið. Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn hafa haldið úti eigin eftirlitskerfi um íslenska borgara áratugum saman, en eins og t.d. kemur skýrt fram í ævisögu Gunnars Thoroddsen, hafði Sjálfstæðisflokkurinn njósnara á vinnustöðum og í tómstundafélögum, í landshlutum og borgarhverfum, til að flokkurinn gæti í gegn um pólitískar valdastöður tryggt brautargengi „réttþenkjandi“ en hamlað framgangi annarra, ekki bara á vinnumarkaði, heldur líka í einkalífinu – t.d. með pólitískri úthlutun bankalána – vegna „óæskilegra“ skoðana þeirra.

Og Styrmir sem sagt safnaði upplýsingum um samborgara sína í skýrslur, svo hægt væri að hafa aðgengilegt yfirlit yfir það á einum stað hverjir mættu fá vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna og hverjir ekki, hverja mætti ráða í bankastjóra- og skólastjórastöður hringinn í kringum landið og hverja alls ekki, hjá hverjum lögreglan þyrfti að hlera símann – og svo framvegis. 

Þetta allt hefur svo sem lengi verið almenn vitneskja, en harðlega neitað af Sjálfstæðisflokknum og fótgönguliðum hans, og Morgunblaðinu, sem jafnvel hefur verið kallað fréttablað en ekki það áróðursrit sem það er og hefur alltaf verið.

Það sem er skemmtilegast við allan þennan óhroða, sem lengi hefur verið við lýði en er smám saman að koma upp á yfirborðið, er að Flokkurinn og Blaðið, hafa alla tíð haldið uppi orðræðu um frelsi og lýðræði; frjáls viðskipti og helgan rétt hvers einstaklings til orðs og æðis. Flokkurinn hefur blóðrist næst hjarta sínu orðin: „Gjör rétt. Þol ei órétt“. 

Ekki þarf að leggjast í mikla orðsifjafræði til að átta sig á því að starfsemi og skipulag Sjálfstæðisflokksins og málgagns hans, sem lýst hefur verið hér að ofan, stangast algerlega á við hina meintu helgidóma; raunveruleikinn lýsir miklu þoli fyrir hverskyns órétti en fátæklegu réttlæti – og gríðarlegum, pólitískum hömlum á frelsi einstaklinga.

Það sem er aftur á móti sorglegast við allan óþverrann sem þeir Styrmir og Gunnar lýsa í starfi Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins er þetta: Ekkert hefur breyst. Eftirlitskerfið er þarna, og enn í fullu brúki. Vitaskuld er því harðlega neitað, en sannleikurinn mun koma í ljós síðar, á sama hátt og dæmin sem hér hafa verið rakin.

Ekkert er við það að athuga að fólk hafi mismunandi skoðanir á því hve mikil þátttaka hins opinbera í samfélaginu eigi að vera, hve umfangsmikið opinbert velferðarkerfi sé, skattheimta o.s.frv. Ekkert er heldur við það að athuga þó fólk taki afstöðu, jafnvel trúarlega, gegn ákveðinni pólitík, eins og t.d.  jafnaðar- og vinstristefnu, nú eða frjálshyggu. Sjálfsagt og eðlilegt er að takast á um pólitískar stefnur og áherslur og berjast fyrir sannfæringu sinni.

Óskiljanlegt er aftur á móti að heiðvirt fólk skuli leggja nafn sitt við þau myrkraverk sem Styrmir Gunnarsson og Gunnar Thoroddsen hafa lýst að Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið stunda.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *