„Vil ég nú, að þú hugsir nokkra ráðagerð og leggist djúpt.“

Nú er hafin í fjölmiðlum skipulögð gagnsókn Framsóknarflokksins vegna hroðalegrar útreið-ar í skoðanakönnunum nýlega. Grunnstefið í gagnsókninni er margfræg skuldaleiðrétting sem enn einu sinni mun vera á næstu grösum. 

Tónninn sem spunameistarar flokksins hafa slegið, og hljómar nú í blað- og Netheimum, er þessi: Spunameistarar á vegum fyrri stjórnvalda slá því ryki í augu almennings að skulda-leiðrétting Framsóknarflokksins sé „köld pizza í boði skattgreiðenda“. 

Gallinn við spuna framsóknarmanna nú er hins vegar sá að það eru ekki bara nokkrir launaðir lygalaupar sem tjá sig og sjá í gegn um blekkingarleikinn, heldur allur almenningur. Nánast allir kjósendur Framsóknarflokksins hafa glatað trúnni, nema helst þeir sem gegna trúnaðarstörfum eða eru flokksbundnir. 

Trúnaðarbrestur hefur orðið vegna þess að fólki var lofað miklum peningum frá útlendum hrægömmum til að lækka húsnæðisskuldir sínar en það fær eitthvað allt annað. Það fær a) heimild til að borga sjálft niður eigin skuldir með viðbótarlífeyrissparnaði sínum, b) tugi en ekki hundruð milljarða, c) skattfé úr ríkissjóði – en sér á sama tíma á bak tugmilljarða auðlindaarði til sægreifa. Þessu hefur fólk nú áttað sig á, jafnt tortryggnir sem vongóðir og trúgjarnir. Það hefur ekki þurft neina spunameistara til að útlista þennan veruleika. Hann blasir við. 

Segja má að kosningaspuninn hitti nú skapara sinn, forsætisráðherrann og hans fólk, í andlitið eins og blaut tuska. 

„Spunameistari“ er nýyrði í málinu, skrauthvörf fyrir gamalt samheiti sem ekki þykir nógu fínt nú á „öld mannauðsstjórans“, en á djúpar rætur í málinu, alla leið aftur í Brennu-Njáls sögu. Þar segir (kaflar 65 og 67): „Þorgeir [Starkaðarson] bað þá feðga [Valgarð gráa og Mörð son hans] liðveizlu og aðgöngu, en þeir fóru lengi undan og mæltu til fé mikið.“ Skömmu seinna fór Þorgeir að finna Mörð og undi illa við stöðu mála, hafði enda keypt liðsinni hans dýru verði, segir: „Vil ég nú, að þú hugsir nokkra ráðagerð og leggist djúpt“, og lofar góðum bónus ef vel tekst til. „„Sýnist það jafnan,“ segir Mörður, „að ég er fégjarn, enda mun svo enn[…]““, og leggur á ráðin sem duga.

Hvað hefur breyst frá söguöld? Helst það, að séð verður, að í stað eins þá þiggur nú fjöldinn allur góð laun fyrir ráðgjafarstörf hjá stjórnvöldum. En markmiðin virðast lítið breytast:

Hálfan sannleik segir oss,

sérhagsmunavörður.

Spinnur, vendir kvæði í kross,

kallast Lyga-Mörður.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *