Normalísering siðblindunnar

Einhvern veginn stend ég í þeirri trú að í íslenskum lögum (jafnvel í stjórnarskránni, eða hvað?) séu greinar um jafnrétti: jafnrétti allra þegna þjóðfélagsins burtséð frá kyni, húðlit, kynhneigð, trú, heilsufari, skoðunum eða stöðu að öðru leyti. Ef þetta er misskilningur hjá mér ættu þar alla vega að vera slík ákvæði.

Í þessum pappírum trúi ég líka séu ákvæði um skoðana- og tjáningarfrelsi: að allir þegnar séu frjálsir að skoðunum sínum og að tjá sig um þær.

En jafnréttisákvæðin fela í sér fleira en bara það að þegnarnir hafi jafnan rétt til að vera karlar og konur, eða að vera svartir, gulir, hvítir, rauðir, bláir eða grænir á hörund, sam-, gagn- eða tvíkynhneigðir, haltir eða óhaltir, blindir eða sjáandi, heyrnarlausir eða heyrandi, sjúkir eða heilsuhraustir, kristnir, múslimar, ásatrúar, búddistar eða trúlausir, kommar, kratar, þjóðrembingar eða íhald, frjálslyndir eða afturhald, að þeir megi vera litlir eða stórir, feitir eða mjóir, ríkir eða fátækir, hærðir eða sköllóttir, dökkhærðir, rauðhærðir eða ljóshærðir.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér fyrst og fremst að fólk geti fengið að vera allt þetta, eins og það er skapað, í friði og spekt, geti lifað hamingjusömu lífi í sjálfu sér, hvernig svo sem það er saman sett af ofangreindum eiginleikum, eða óteljandi öðrum eiginleikum og einkennum hér ónefndum.

Jafnréttisákvæðin, eins og ég skil þau, fela það í sér að árásir og svívirðingar, meiðandi yfirlýsingar um fólk vegna einhverra eiginleika þess, eru lögbrot – og það sem verra er: siðrof.

Þeir sem ráðast að fólki með svívirðingum vegna húðlitar þess eða kynhneigðar, svo dæmi séu tekin, brjóta með hegðun sinni ekki bara lög, heldur þann siðferðisgrundvöll sem við hér (og víða annarsstaðar) höfum komið okkur saman um að byggja samfélagið á. Þetta samkomulag er skynsamlegt, því það stuðlar að friði og sátt en vinnur gegn árekstrum, átökum og ófriði. Stuðlar að velsæld og hamingju en vinnur gegn heift og vanlíðan. Andi þessa samkomulags hefur einna best verið orðaður á þenna hátt: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“.

Sem sagt: Allir eiga skilyrðislausan rétt til þess að „vera þeir sjálfir“ og þroska hæfileika sína og hamingju á eigin forsendum. Þessi réttur gengur lengra en tjáningarfrelsið. Tjáningarfrelsið er nefnilega háð siðferðismörkum. Þeir sem misnota tjáningarfrelsið með því að svívirða fólk vegna húðlitar þess, kynhneigðar, fötlunar, trúar, útlits eða skoðana eru svíðingar.

Meira að segja í knattspyrnuheiminum, þar sem „frumskógarlögmálið“ og peningagræðgin er hvað mest áberandi í veröldinni, er tekið á kynþáttaníði með keppnisbanni og sektum. Dettur nú einhverjum í hug að þar ráði ferðinni árásir Samfylkingarinnar á tjáningarfrelsið?

Þegar við hugsum um og metum yfirlýsingar Snorra Óskarssonar (og skoðanasystkina hans) skulum við hafa þetta í huga. Þá er okkur einnig hollt að leita í þjóðararfinn og minnast visku Þorgeirs Ljósvetningagoða: „Svo líst mér sem málum vorum sé komið í ónýtt efni, ef eigi hafa ein lög allir, en ef sundur er skipt lögunum, þá mun sundur skipt friðinum, og mun eigi við það mega búa.“ Og Þorgeir felldi sinn úrskurð, eins og kunnugt er, en rak aftan við úrskurðinn þann varnagla, að „ef leynilega er með farið, þá skal vera vítislaust.“

Skoðanir sínar um samkynhneigð verður Snorri Óskarsson að fá að hafa í friði, og ef hann fer leynilega með þær „skal vera vítislaust“. En opinberar svívirðingar hans mega aldrei verða vítislausar, því með þeim er sundur skipt friðinum. Með þeim særir hann fjölda einstaklinga, veldur kvíða og vanlíðan, ekki síst meðal „umbjóðenda“ sinna, barna og óharðnaðra unglinga. Með yfirlýsingum sínum ofbýður Snorri samborgurum sínum og gerist svíðingur.

Ef þjóðfélagið ætlar að láta framferði af þessu tagi viðgangast þá er verið að normalisera svíðingshátt. Látum það ekki henda, því þetta mál hefur ekkert að gera með tjáningarfrelsið, heldur aðeins heilagan rétt hvers einstaklings til að vera sáttur í sjálfum sér, og laus við svívirðingar annarra.

Og yfirlýsingar Árna Johnsen um annað eru aðeins enn ein staðfestingin á því að kjósendur hans hafa normaliserað yfirgang, eiginhagsmunapot og siðblindu.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *