Aumingja forsetinn

Nú hefur kaleik verið troðið upp í andlitið á forseta vorum – kaleik sem hann kærir sig ekkert um að súpa af. Flokkur manna, með Guðna Ágústsson í broddi fylkingar, hefur safnað undirskriftum 30.000 kjósenda til að hvetja Ólaf Ragnar til að bjóða sig fram enn einn ganginn – í fimmta sinn.

Þrátt fyrir mjög afdráttarlausar yfirlýsingar í nýársræðu sinni um að hann ætlaði að láta staðar numið í þessu embætti, sér flokkur manna sér leik á borði að hvetja Ólaf til dáða – eingöngu til að þjóna þröngum pólitískum hagsmunum, þ.e.a.s. andstöðu gegn inngöngu í Evrópusambandið. Með þessu athæfi er forsetaembættið dregið fram á hið pólitíska svið sem aldrei fyrr – og fannst sumum þó orðið nóg komið af svo góðu.

Óskiljanlegur fjölmiðlafarsi hefur gengið fyrir fullu húsi sl. tvo mánuði um það hvort forsetinn hafi sagt í nýársávarpinu hvort hann hygðist hætta eða halda áfram í embætti – eða hvort hann hafi sagt þetta nógu skýrt – eða að hann hafi „skilið eftir glufu“ fyrir einn eða annan skilning á því hvað hann sagði.

Ræða forsetans um þetta efni var þegar allt kemur til alls alveg kýrskýr. Hann sagðist ætla að hætta.

Ég var sjálfur á tímabili ekki viss um það hvort Ólafur ætlaði að hætta eða halda áfram. Það var bara ein ástæða fyrir þessari óvissu minni: Ég nennti ekki að hlusta á nýársræðuna. Fjölmiðlafarsann komst ég ekki hjá því að heyra og sjá. En þegar betur var að gáð var engin leið að vera í nokkrum vafa um þetta.

Þeir sem fram á þennan dag hafa haldið því fram að vafi léki á fyrirætlunum forsetans hafa, eins og ég, greinilega ekkert hlustað á ræðuna, og gera honum því í skjóli fáfræði, misskilnings og pólitískra flokkadrátta þennan ógurlega óleik sem við blasti á Bessastöðum í dag. Ólafur Ragnar kunni ekki við það að gera allan þennan sjálfumglaða flokk afturreka fyrir framan myndavélarnar, af eintómri kurteisi og tillitssemi, enda þarna á ferðinni margir þungavigtarmenn.

Hann mun svo endurtaka fyrri yfirlýsingar sínar seinna í þessari viku, eða þeirri næstu, því fjölskyldan hefur þegar gert margskonar ráðstafanir og hafið undirbúning að nýju lífi.

Og þá verður Guðni Ágústsson bara að berjast gegn inngöngu í ESB með eigin verðleika að vopni, þó hann hafi ekki treyst þeim hingað til.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *