Ólafur Ragnar kippir í liðinn

Ekki varð ég jafn sannspár um stórlyndi forsetans og ég hefði kosið. Þegar til kom var þetta allt saman ein leikflétta og farsi – sjónarspil af verstu gerð, eins og fjölmargir höfðu bent á, og maður vissi svo sem undir niðri, þó vonin um eitthvað stórmannlegra hefði vissulega blundað þar líka. Og nú vonar Ólafur Ragnar að…

„þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda“.

Úrslitin eru sem sagt ráðin. Það er búið að kjósa manninn einu sinni enn. Þá þarf heldur ekkert að vera að henda peningum í rándýrar kosningar, sem er óneitanlega jákvætt á þessum síðustu og verstu tímum.

En það er önnur saga. Áhugaverðari sögu má lesa út úr tilvitnuninni hér að ofan:

1) Stjórnskipan landsins verður óstöðug ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og hættir svo. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

2) Stjórnarfar á Íslandi verður óstöðugt áfram ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn og stígur svo til hliðar. Enginn annar núlifandi Íslendingur er fær um þetta.

3) Staða Íslands í samfélagi þjóðanna verður óviss og óskýr ef Ólafur Ragnar er ekki forseti. Hann kippir þessu í liðinn á næstu 2-3 árum en snýr sér svo að því að bjarga öðrum brýnum vandamálum heimsbyggðarinnar. Af nógu er víst að taka.

Svona lítur Ólafur Ragnar Grímsson á málin. Hroki? Nei, nei. Þetta sjá nú allir, ekki satt?

Ólafur Ragnar er búinn að sitja í embætti forseta Íslands í tæp 16 ár. Á þeim tíma hefur honum verið einkar lagið að skapa sundrung og óvissu um stjórnskipan og stjórnarfar og staða Íslands hefur sennilega aldrei verið óskýrari í samfélagi þjóðanna, eða meira efast um íslenskt þjóðfélag frá stofnun lýðveldisins en einmitt um þessar mundir. Nú ætlar hann að kippa þessu í liðinn á hálfu kjörtímabili eða svo. Þá er óhætt að boða til forsetakosninga á ný og hleypa að einhverju meðalmenninu, enda allur vandi leystur og engin verkefni eftir til að sinna, nema helst að veifa lýðnum af svölunum. Þetta ætlar hann að leggja á sig, bara fyrir okkur – af því við höfum grátbeðið hann um það, með bænaskjölum þegar ekki vildi betur til.

En af hverju var hann ekki löngu búinn að þessu öllu saman? Það á ég bágt með að skilja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *