Öll vötn falla til dýra fjarðar

Skúli Helgason skrifar í dag grein á dv.is þar sem hann fer yfir horfurnar, helstu verkefnin á næstu misserum sem breytt ríkisstjórn muni taka á. „Hinar bráðu björgunaraðgerðir vegna bankahrunsins eru komnar vel á veg, tekist hefur að lækka fjárlagahallann um 170 milljarða frá hruni, spara með því 17 milljarða í vaxtakostnað, hagvöxtur er hafinn á ný og meiri en víðast hvar í Evrópu og almenningur sér nú fram á betri tíð með auknum kaupmætti, lægri skattbyrði og verðbólgu sem stefnir í að verða nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%) á síðari hluta ársins“, segir Skúli, nokkuð kokhraustur.

Í ljósi þessa telur Skúli að komið sé að vatnaskilum í starfi ríkisstjórnarinnar, sem geti nú farið að líta upp úr mokstrinum, á nánasta umhverfi í kringum sig. Hann segir „mesta þjóðþrifaverkefnið að tryggja nýja skipan auðlindamála“ þar sem allt er „undir, fiskur, orka og land auk þeirra auðlinda sem kunna að verða nýttar í framtíðinni“.

Ekki er ég jafn sannfærður og Skúli, um sýn almennings á betri tíð með auknum kaupmætti og lægri skattbyrði. Ég held einmitt að „almenningur“ sjái alls ekki fram á betri tíð og allra síst lægri skattbyrði. Það hefur stjórninni tekist á eigin spýtur með gjörðum sínum og þar að auki hefur valdaklíku landsins, stjórnarandstöðunni og „aðilum vinnumarkaðarins“ alveg tekist að kaffæra Skúla og félaga í umræðunni. Nánast daglega dynja á fólki fréttir af auknum álögum og núna um áramótin hellast þær enn yfir – sem aldrei fyrr.

Ég er hræddur um að fréttir af reikningnum sem fólk mun fá sendan ef það bruðlast við að „panta sjúkrabílinn“, og aðrar fréttir í sama stíl, veki meiri athygli hjá almenningi en einhver þokukennd loforð um betri tíð með blóm í haga.

Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á þingi verða í sameiningu að átta sig á því, þrátt fyrir mikið langlundargeð margra kjósenda og skilning á þeim aðstæðum sem við er að glíma, að öllu siðlegu fólki svíður það óréttlæti sem við blasir varðandi skuldastöðuna -já alveg inn að kviku. Mér kemur á óvart ef fólk sættir sig við að sitja uppi með stökkbreyttar skuldir til eilífðarnóns. Við erum mörg tilbúin að bíða meðan verstu skítverkin eru unnin, en fyrst nú er komið að vatnaskilum, er þá ekki eimitt kominn tími á eitthvert lágmarks réttlæti?

Skúli hittir alveg í liðinn þegar hann segir: „Það er algjört forgangsverkefni á árinu 2012 að tryggja samræmda auðlindastefnu […] sem tryggi þjóðarbúinu eðlilegar tekjur af allri nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar“. Því miður finnst manni horfurnar hvað þetta varðar ekki vera björgulegar. Ekkert annað blasir við almenningi en að hver höndin sé uppi á móti annarri í stjórnarflokkunum, ekkert samkomulag um breytingar á kvótakerfinu muni nást, og útgerðarauðvaldið fari með fullkominn sigur af hólmi – hlakki yfir bráð sinni eins og sá ránfugl sem það er. En ef stjórnarliðið heykist á þessu, þá verður það grafskriftin þess.

Nú stendur upp á Skúla, því ég hef þrátt fyrir allt nokkra trú á honum, að sigla þessu máli í höfn.

Við lestur fyrirsagnarinnar á tilvitnaðri grein detta manni strax í hug hin fleygu orð Vésteins, úr Gísla sögu Súrssonar: „Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar“.

Öll vötn íslensks almennings falla nú til dýra fjarðar. Ef komið er að vatnaskilum, hvert munu þau falla héðan í frá?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *