Örríma við áramót

1. Hringhent

Líður senn að lokum árs,
lífs þá enn hefst gangur.
Yfir fennir tildrög társ,
tíminn kennir strangur.

Mannakyn sér gefi grið,
gæfu skynji ríka.
Gleðjist vinir! Fróðafrið
finni hinir líka.

Hagur flestra stóð í stað,
strembin mesta törnin.
Sinnið nestum, sýnum að
sókn er besta vörnin.

2. Ferskeytt

Innsta kjarna eigin lífs
ákaft margir leita.
Bitur eggin, bakki hnífs,
biðlund eða streita?

Hvað mig vantar, hvað ég þarf,
um hvað mér ekki neita?
Það sem elti þigg í arf
og það mun öðrum veita.

Ósk um nýárs brotið blað
og birtu eftir stritið.
Kveðjum hrun, en þekkjum það
þegar við er litið.

3. Braghent

Hamingjan í hagvextinum hímir ekki.
Nægjusemi, það ég þekki,
þykka brýtur græðgishlekki.

Aukum jöfnuð, elskum friðinn, alla seðjum
og á glæstar vonir veðjum;
verndum, huggum, styrkjum, gleðjum.

Kveðjum árið! Keyrðum það á kanti hálum?
Mót nýju gakk með gamanmálum!
Glösum lyftum! Syngjum! Skálum!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *