Ömmi – you made my day!

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sló alveg í gegn hjá mér í Fréttablaðinu í morgun. Eins og kunnugt er hafði ríkisendurskoðun gert alvarlegar athugasemdir við það að ríkislögreglustjóri hefði keypt fullt af allskyns dóti handa löggunni -af löggunni. Upphæðin sem um ræddi var langt yfir útboðsmörkum en löggan hafði passað samviskusamlega upp á það að senda löggunni bara nógu marga reikninga til að hver þeirra væri innan „siðlegra marka“.

Og Ögmundur brást auðvitað skörulega við og tók málið til skoðunar. Að ítarlegri skoðun lokinni kemst hann sem sagt að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ríkislögreglustjóri heldur ríkisskattstjóri sem sé „ekki í réttum farvegi með málið“. Ríkisskattstjóri „er ekki að setja umrædd atriði í rétt samhengi“ eins og mikilvægt er að gera í hverju máli.

Nú ætti Ögmundur að beita sér fyrir því að ríkisskattstjóri og embætti hans fái námskeið hjá ríkislögreglustjóra í því að sjá rétt samhengi hlutanna og koma þeim í réttan farveg. Það þarf ekkert að bjóða svoleiðis námskeiðahald út, skipta bara reikningnum í tvennt eða þrennt eða fernt, eftir því hvað skattstjóri þarf marga tíma. Það er hætt við að þeir gætu orðið margir.

Og hvert er hið rétta samhengi fyrir þetta mál?

Það sem skiptir mestu máli er „að menn horfi á aðalatriði þessa máls en séu ekki í karpi um einstök smáatriði“. Aðalatriðið er að allir séu sammála um að gera svona aldrei aftur. Það sem ógert er er mikilvægara en það sem gert er, „þangað eigum við að horfa, en ekki festast í einhverju sem fyrir er“, segir Ömmi innanríkis.

Þetta er rétt hjá Ögmundi. Hvað eigum við alltaf að vera að horfa í baksýnisspegilinn? Gert er gert og verður ekki aftur tekið. Og ef menn eru sammála um að gera betur næst, hverslags meinbægni er þetta þá í ríkisskattstjóra?

Það er alveg ótrúlegt hvað sumir menn eru þröngsýnir og hefnigjarnir. Þeim virðist alveg fyrirmunað að sjá heildarmyndina. Horfum fram á veginn og hættum að böggast í þeim sem kunna að hafa farið á svig við smáatriði eins og lagabókstaf eða siðareglur. Vitið til, þetta reddast!

Ömmi – you made my day!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *